2.6.2010 | 09:08
Gamla góða Akureyri
Oft virðist það affarabesta skoðunin í skipulagsmálum að vera einfaldlega á móti.
Þannig hefur það alltént verið hér á Akureyri.
Menn voru á móti svonefndum háhýsum við Baldurshaga með þeim árangri að háhýsin eru hvorki fugl né fiskur og síst af öllu háhýsi.
Menn eru á móti menningarhúsinu. Finnst það ljótt og á vitlausum stað.
Menn eru á móti Naustahverfi og finna því allt til foráttu.
Og auðvitað eru menn á móti miðbæjarskipulaginu.
Þó var á sínum tíma efnt til íbúaþings um skipulag miðbæjarins. Framtakið vakti mikla athygli og þótti fyrirmynd um íbúalýðræði.
En nú, þegar hugmyndir íbúanna um skipulag miðbæjarins hafa verið festar á blað og útfærðar, hafna íbúarnir alfarið þeim hugmyndum sínum.
Vinur minn einn benti á að ef Akureyrarkirkja væri óbyggð og sú hugmynd kæmi fram að tylla stærstu kirkju landsins á brún brekkunnar og hafa ótölulegan fjölda af tröppum þangað upp, mættu slík áform án vafa harðri andstöðu.
Þættu algjört brjálæði á krepputímum.
Svo mætti ekki raska svip bæjarins.
Þess má geta að miklar deilur voru um staðsetningu Akureyrarkirkju.
Heilan áratug barðist sóknarnefnd fyrir því að fá hana byggða þar sem hún er.
Ýmis rök voru notuð gegn þeirri hugmynd.
Meðal annars þau að sú staðsetning kirkjunnar truflaði framkvæmdir við höfnina.
Myndin er innan úr Akureyrarkirkju
Athugasemdir
Takk fyrir þetta Svavar... margt til í þessu.
Miðbæjarskipulagstilögurnar urðu ekki til í bæjarstjórn...skipulagsnefnd eða hjá meirihlutanum..
Þær eru afrakstur verkefnis sem hófst 2004 með íbúaþingi. Þar voru lagðar línur og síðan fór fram alþjóðleg keppni og 150 tillögur skiluðu sér í hús víða að úr heiminu. En þeirra var valin við mikin fögnuð og menn slógu sér á brjóst af stolti yfir hinni víðsýnu og fjölþjóðlegu athygli sem bærinn vakti.
En svo komu tillögurnar ...alveg í þeim takti sem sleginn var og viti menn.. mikil andspyrna og kvartað undan ýmsu m.a háhýsum sem engin eru og síki sem þarf ekkert endilega að útfærast sem drullupollur eins og sagt er heldur að vilja og tillögum bestu hönnuða.
Gagnlegt að benda á söguna í kringum Akureyrarkirkju.. og líka má minna á andstöðuna við byggingu Landsbankahússina og margra annarra þekktra kennileita á Akureyri.
Jón Ingi Cæsarsson, 2.6.2010 kl. 13:25
svvar alfred takk fyrir thessa grein og margar adrar godar eg les thig alltaf thegar eg get i minum huga og thad sem eg hef laert i gegnum lifid er thad ad their sem eru alltaf a moti ollu vita ekkert hvad their vilja nema bara ad vera a moti thad sem mig langar ad segja er eg er faeddur akureyringur og i minum huga er baerinn minn einhver sa fallegasti sem eg hef sed hahysi eru ekki ljot thau geta frekar sett svip a baeinn og syki geta lika veri til fyrirmyndar samanber i hollandi, danmorku og a fleiri stodum
lifid heldur alltaf afram og i gudanna baenum byggid afram a akureyri og gerid baeinn ahuaverdan til busetu og fyrir ferdamenn ad skoda, umhverfid ,fjollin jokulinn dalirnir sjorinn eiga ser "sjarma" sem ekki getur ad lita allstadar kaer kvedja stefan tryggvason
stefan tryggvason (IP-tala skráð) 2.6.2010 kl. 16:01
Indriði afi minn sagði alltaf að þetta hús væri ekki Guðshús - heldur Guðjóns hús.
guðmundur Andri Thorsson (IP-tala skráð) 2.6.2010 kl. 19:43
Sæll vertu. Það er ekki sama hvar háhýsi eru reist. Háhýsin sem standa í röð vestan Hlíðarbrautar hrinda útsýni lægri byggðar sem er vestan við þau og hefðu þessi háu hús mátt standa allmiklu hærra og vestar í landinu.
Háhýsin á Baldurshagareitnum eru hins vegar reist á einni fallegustu lóð bæjarins og sú lóð hefði mátt bíða og nýtast einhvern tíma í framtíðinni fyrir t.d. opinbera byggingu af einhverju tagi svo sem fyrir stjórnsýslu, menntastofnun eða eitthvað í þeim dúr eða fyrir einkaaðila sem vildi nýta hana í einhverjum frumlegum tilgangi. - Háhýsi má t.d. reisa út við hið bláa haf en fyrir alla muni ekki láta sífellt í minni pokann fyrir byggingameisturum sem meta lóðir út frá byggingamagni og væntanlegum hagnaði. - Metnaður bæjaryfirvalda í skipulagsmálum hefur því miður yfirlieitt ekki verið mikill í gegnum tíðina þótt þar megi auðvitað finna ýmislegt gott.
Metnaður fyrir hönd bæjarins hefur ekkert með það að gera að vera á móti.
Kveðja,
Pétur J.
Pétur Jósefsson (IP-tala skráð) 2.6.2010 kl. 23:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.