11.7.2010 | 12:32
Smá þjóðremba
Nú er mikið talað um þjóðrembu og öfgafulla þjóðernissinna.
Taka má undir margt í þeim málflutningi. Hrokinn er ein ástæða Hrunsins.
Þjóðremba er hallærisleg. Íslendingar eru veikir fyrir henni. Þeir monta sig ekki bara af því að vera Íslendingar. Hvert hérað á sér sína drýldni. Þar er uppspretta hins landsfræga þingeyska monts, skagfirska drambsins, vestfirska gorgeirsins og hinnar alræmdu akureysku andúðar á aðkomufólki.
Hinn stæki höfuðborgarhofmóður er enn ein tegund íslenskrar héraðsdrýldni.
Öfgarnar í hina áttina eru ekki betri. Þeirri þjóð mun aldrei farnast vel sem hatast við sig sjálfa. Hvernig liti Akureyrarbær út ef íbúarnir væru ekki stoltir af honum? Ætli Vestfirðingum vegnaði betur ef þeir bæru ekki virðingu fyrir sjálfum sér? Hvaða dugur væri í Skagfirðingum og Þingeyingum ef ekkert væri í þeim stoltið? Ég er ekki viss um að búandi væri í Reykjavík ef íbúarnir skömmuðust sín fyrir að vera borgarbörn.
Stundum finnst mér eins og markvisst sé unnið að því að brjóta þjóðina niður.
Ég hef trú á henni og mér finnst hana vanta uppörvun.
Við eigum fallegt land sem við þurfum að vernda. Við eigum gjöfult land sem við þurfum að nýta. Íslendingar eru skynsöm og þrautseig þjóð. Okkur hefur tekist að byggja upp hér öflugt velferðarkerfi. Hér var alla vega til skamms tíma jöfnuður og ég held að flestir Íslendingar vilji ekki stéttaskipt þjóðfélag. Við erum svo nákomin hvert öðru í smæð okkar.
Við gerðum mistök en við munum læra af þeim. Við munum gera upp liðna tíma þótt það kosti átök og umbrot. Við munum sættast við okkur sjálf.
Og við munum segja skilið við það sem hefur skemmt þetta góða samfélag okkar og spillt fyrir okkur sem þjóð.
Betri tímar eru framundan.
Ég held að bestu tímarnir séu framundan.
Myndin: Eyjafjörður skartar sínu fegursta og fagnar aðkomufólki.
Athugasemdir
Já mikið rétt hjá þér Svavar. En nú er staðan bara einfaldlega þannig að við getum lítið gert annað en að kvetja hvert annað í viðleitninni til að standa seman sem ein heild gegn þeim eyðileggingar öflum sem hafa kollriðið þjóðinni. Kærleikurinn kostar ekkert það er vitað en vá hvað er erfitt að ætla að splæsa honum á svona svikula einstaklinga sem hafa komið svo mörgum á kaldan klakann og jafnvel hafa sumir ekki séð neina von og tekið líf sitt. ,,Bjartsýni og bros bjarga deginum,, setning sem ég hef reynt að lifa eftir alveg síðan ég kynntist henni fyrst, en fyrr má nú rota en dauðrota.
Eg vil trúa því líka að við eigum bjartari tíð í vændum, en ef ég á að vera raunsæ og horfa á hlutina eins og þeir koma mér fyrir sjónir núna þá er langt í land.
Inga Sæland Ástvaldsdóttir, 11.7.2010 kl. 14:28
Eftir að hafa séð auglýsingar Icelandair í sjónvarpinu undanfarið brýtur mig og mitt þjóðarstolt niður. Það er alltaf verið að smjaðra fyrir okkur að við séum svona og svona "sérstök". Þetta er lágkúrulegt og endirreisir ekki heilbrigða sýn á hver við erum. Til dæmis er ekki einn einasti pólskur íslendingur í þessari auglýsingaherferð! Það hefði amk verið smá fyndið.
Gísli Ingvarsson, 11.7.2010 kl. 16:50
Þér er einstaklega lagið að koma inn með notalega færslu sem vekur mann til umhugsunar. Kanski starfið en trúlega eðlið :)
Finnur Bárðarson, 11.7.2010 kl. 17:55
Ljómandi fínt og upplífgandi blogg.
Dingli, 11.7.2010 kl. 18:31
Þakka þér fyrir þessa góðu færslu.
Hólmfríður Pétursdóttir, 12.7.2010 kl. 00:41
Það er ágætt að þú skulir sjá betri tíð framundan. Ég sé hana ekki og á fullt í fangi með að halda sönsum og láta ástandið í þessu þjóðfélagi haturs, græðgi og eigingirni ekki draga mig niður á botn.
Grefill (IP-tala skráð) 12.7.2010 kl. 08:43
ps. En myndirnar þínar eru sem áður hrein og klár listaverk sem ylja manni.
Grefill (IP-tala skráð) 12.7.2010 kl. 08:45
Við verðum að gera greinarmun á þjóðrembu og þjóðarstolti. Ég er svo snortin og stolt yfir íbúum nálægt Eyjafjallajökli sem hafa sýnt þvílikt æðruleysi, dugnað og styrk sem að einkennir eyjaskeggja.
Það sem ógnar okkur núna mest eru föðurlandssvikarar og landráðamenn sem ætla sér með öllum öflum að knýja þjóðina undir erlend yfirráð.
Guðrún Sæmundsdóttir, 12.7.2010 kl. 11:37
Alltaf góður, þó óvenju góður hér! BKv. Baldur
Baldur Kristjánsson, 12.7.2010 kl. 11:39
Ìslendingar eru enn ì thjòdernisfjötrum. Thad stendur theim fyrir thrifum.
Steini (IP-tala skráð) 12.7.2010 kl. 12:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.