14.7.2010 | 14:23
Soðketill hatursins
Undanfarið hafa menn skipst á skoðunum um íslenska umræðuhefð. Ekki er það í fyrsta skipti sem sú hefð er gagnrýnd.
Á sínum tíma völdu þeir Bjarni Vilhjálmsson og Finnbogi Guðmundsson efni í bókina Íslenskar úrvalsgreinar (Reykjavík 1976).
Ein þeirra er eftir Pálma Hannesson, fyrrverandi rektor Menntaskólans í Reykjavík. Þar fjallar Pálmi um Sonartorrek Egils Skallagrímssonar. Greinin nefnist Ef et betra telk. Pálma verður tíðrætt um íslenska umræðuhefð í hugleiðingum sínum. Ég veit ekki nákvæmlega hvenær hann skrifaði greinina en Pálmi lést árið 1956. Margt bendir til að hún sé skrifuð á stríðsárunum. Þótt hún sé komin til ára sinna er hún enn í fullu gildi. Erindi hennar við okkar tíma er mikið og brýnt.
Ég birti búta úr skrifum Pálma. Lesum, njótum og lærum:
Geðsmunum manna er harla misjafnt farið, og sést það ekki sízt á afstöðu þeirra til annarra. Sumir láta sér títt um þá, sem þeir þekkja ekki eða lítið, aðrir hafa ósjálfráðan ímigust á þeim. Flestir drögum vér sundur í dilka þá menn, er vér náum til í hinum mikla almenningi samtíðarinnar. Dilkarnir eru tíðast tveir. Í annan setjum vér þá, sem oss geðjast ekki að, og látum andúðina standa í dyrunum. Eftir það vill þeim veita þungt í skiptum vorum, því að sjaldan lítum vér þá á málavöxtu frá þeirra sjónarmiði, heldur sjálfra vor og miklum fyrir oss misgjörðir þeirra eða ávirðingar, sjáum flísina, en finnum ekki bjálkann. Oss sést yfir hitt, að þessir menn eiga sér unnendur, sem vafalaust finna miklar málsbætur þeim til handa. Í hinn dilkinn drögum vér þá, sem oss er vel við, veitum þeim samúð vora og höldum hlut þeirra upp, nema þeim sé hrósað um of, eða hætt sé við, að þeir vaxi oss yfir höfuð, því að þá kynnu þeir að hrökkva yfir í hinn dilkinn. - Á þennan hátt yrkjum vér ævi vora líkt og reyfara, sögu, þar sem menn eru annað tveggja alls kostar illir eða góðir.
Oft er um það rætt nú á dögum, að oss Íslendingum sé það mikil nauðsyn að stilla deilunum í hóf og sumir kveða svo fast á um þetta, að þjóðin sjálf sé í veði, ef það takist ekki. Efalaust er slíkt af góðum huga mælt og góðum vilja. En til hins virðist þó fremur stefna, að sundur dragi og deilurnar vaxi. Hverju sætir þetta? Það sætir því, að menn mikla fyrir sér ágreiningsefnin, en gleyma hinu, sem sameiginlegt er: að vér erum af einni þjóð, eigum sama land, sömu tungu, sögu og örlög. Það sætir því, að menn rækta andúð sína, hafa hið verra, ef tvennt er til. Þess vegna stendur hér flokkur gegn flokki og stétt gegn stétt, ekki þess sinnis að þreyta rökræður með hófsemd, svo sem ætlandi væri hernuminni þjóð á háskatímum, heldur í þeim ham, að hagnýta til hins ýtrasta andúð, tortryggni og illfýsi, þær höfuðskepnur ófriðar og óskapa, sem eitt sinn hafa farið frelsi landsins og valda nú ófarnaði veraldarinnar umhverfis oss. Samt er áfram haldið, þó að augljóst sé, að sigla verði milli skersins og bárunnar á næstu árum og gjalda varhug við hvoru tveggja. Vonandi fleytumst vér enn um sinn, en söm er okkar gerðin. Og það er trúa mín, að fyrr eða síðar reki oss í strand, ef vér stillum ekki nokkuð til. Enginn skilji orð mín svo, að ég vilji drepa með öllu á dreif deilumálum flokka eða stétta. Slíku fer víðs fjarri. En deila má, þó að meiri hófsemdar sé gætt í málflutningi en hér tíðkast. Og hitt vildi ég sagt hafa, að það getur ekki verið til góðs, er menn og flokkar bera hvorir öðrum á brýn hinar þyngstu sakir, jafnvel landráð, eða trúnaðarmönnum þjóðarinnar er brugðið um ómennsku, heimsku og illgirni. Með því smækkum vér sjálfa oss um efni fram, óvirðum þjóðina og allt sem hennar er og verið hefur.
Margir halda því fram, að allar illdeilur stafi frá stjórnmálamönnunumn sjálfum, enda séu þeir með því marki brenndir að geta aldrei setið á sáttshöfði. Vitanlega er þetta rangt og stafar af því, að vér viljum heldur trúa lasti andstæðinganna en hrósi samherjanna. Ef vér lítum nokkra áratugi aftur í tímann, virðist oss, að þá hafi forystumenn þjóðarinnar verið hver öðrum snjallari og sumir skörungar. Enginn skyldi þó ætla, að samtíð þeirra hafi litið þann veg á, heldur dró hún að þeim dár og illmæli. Síðar kom svo hlutur þeirra upp, þegar þeir voru liðnir og hin breiðu spjót náðu þeim ekki lengur. Þetta sýnir, að illfýsin dæmir rangt. Stjórnmálamenn vorir nú eru börn sömu þjóðar sem vér hinir, líkum kostum og löstum búnir, en yfirleitt mikilhæfir menn, enda hefði oss stórlega skjöplazt um fulltrúaval, ef svo væri ekki. Hitt er annað mál, að þeir verða að hafa þann hátt, sem tíðkast í landinu, og þjóðin vill hafa hávaða og æsingu um stjórnmál. Það er hennar veiki. Hún vill láta deila illdeilum á opinberum mannafundum. Að öðrum kosti þykja þeir daufir. Stjórnmálaerjur eru almannaskemmtun hér á landi, nokkurs konar þjóðaríþrótt, sem allir verða að stunda, annaðhvort sem keppendur eða áhorfendur, ef þeir vilja teljast menn með mönnum. Fjórða hvert ár eru svo haldin allsherjarmót, þar sem menn og flokkar etja kappi. Vitanlega þurfa höfuðkempurnar að temja sér íþróttina til hlítar, enda verða sumar þeirra ótrúlega leiknar. En allir þorrinn kemur til mótsins, hver einn keifandi með sinn pinkil af andúð, er hann steypir í hinn sameiginlega soðketil haturs og æsinga, sem lengi kraumar í síðan, svo að andrúmsloftið yfir blessuðu landinu er sem blandið eitraðri svælu úlfúðar, tortryggni og getsaka.
Þetta er hættulegur leikur, því að hatrið er ekki leikfang. Það er háskalegt afl, sem dregið getur þungar kvarnir, en malar hvorki malt né salt, heldur óheill og auðn, að minnsta kosti um síðir, enda væri það ekki illt, ef það yrði til gagns. Og hversu fórst þeim Fást og Galdra-Lofti? - Þeir ætluðu að yfirstíga hið illa, en það tortímdi þeim. Dæmi þeirra þykja merkileg, af því að menn trúa því, að þau séu rétt. - Margir hafa reynt að hagnýta hatrið til fulltingis sér og sínum málstað, einstakir menn, flokkar og heil þjóðríki. Sumum hefur tekizt þetta til ægilegrar fullnustu. Þess vegna flakir veröldin í sárum. - Svo langt hefur ekki rekið hér, sem betur fer. Þó skulum vér ekki miklast svo mjög, meðan vér hötum hver annan. Það ætti að vera oss minnisstætt, að andúð þjóðarinnar og flokkadráttum hefur eitt sinn verið snúið gegn henni sjálfri. Slíkt gæti enn orðið.
Þó að kirkjur hrynji og borgir brenni, má reisa þær úr rústum á ný, fegurri og betri en áður var. En þegar menn geta horft með köldu blóði á þjáningar annarra, þegar réttur lítilmagnans er að engu hafður í nafni einhvers ríkis eða stjórnmálastefnu, þegar sparkað er í fallinn mann og lygin leidd í sannleikans sess, þá er tekinn að síga sá grundvöllur, sem menning vor hvílir á. Og hver getur hafið hann á ný?
Að lokum þetta og síðast en ekki síst:
Þótt menn tali tungum engla um lýðræði og réttlæti, frið og bræðralag, þá stoðar það lítið, ef þeir blóta hatrið á laun. Miskunnsemi og sannleiksást eru hinar einu öruggu varnir mannsins gegn mönnunum, hin eina trygging hans fyrir frelsi sínu og lífi. En ef frá henni er horfið, virðist vandséð, hvar niður komi. Þá virðist einhver tilgangur geta helgað öll meðul. Þekkingin í öllum sínum mikilleik er ekki einhlít og getur dregið til falls, ef hún stjórnast ekki af mannslund, því að þar, sem brjóstin hætta að geta fundið til, gróa ekki framar hin góðu blóm, heldur eitraðar jurtir ofstækis og hermdarverka.
Myndina tók ég af Byrgisfossi í Myrká.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.