Græðgivæðing tilverunnar

DSC_0646

Upphaflega eru öll kerfi til þess að mæta mannlegum þörfum. Mjög oft hætta þau smám saman að snúast um manninn en öðlast þann tilgang einan að viðhalda sér sjálfum.

Hagkerfi sem byggist á hófleysi og græðgi er ekki í þágu mannsins. Þar er maðurinn þvert á móti til fyrir kerfið. Hann verður þræll kerfis sem krefst sífelldrar neysluaukningar.

Nú þegar sjáum við ýmis merki þess að vistkerfið þoli ekki þessa lífshætti okkar. Maðurinn hefur gengið freklega á auðlindir jarðarinnar til að viðhalda þessu kerfi græðgi og taumleysis.

Til þess að breyta því, til þess að snúa við þróuninni, er ekki nóg að breyta lögum og reglum eða grípa til tæknilegra aðgerða. Við þurfum að horfa inn á við. Mestu og sönnustu byltingarnar í veraldarsögunni byrja þar. Hjá mér og þér. Við þurfum að skoða okkur sjálf.

Í einnni bóka sinna (Haben und Sein. Die seelischen Grundlagen einer neuen Gesellschaft, ISBN 3-421-01734-4) segir þýski þjóðfélagsgreinirinn Erich Fromm að búið sé að telja okkur trú um að við séum í eðli okkar ekkert nema sjálfselskan. Það sé sá mannskilningur sem neyslumenning okkar tíma byggist á. Hver eigi hugsa um sig og sínar þarfir. Út á það gangi lífið, að seðja þarfirnar með því að eignast sem mest og sleppa sem billegast frá öllu saman, fá sem mest með sem minnstri fyrirhöfn.

Fromm mótmælir þessari mynd af manninum og varar okkur við afleiðingum þess að sjá okkur þannig. Hann bendir á ýmis rök fyrir því að manneskjan sé öðruvísi. Hún hafi þörf fyrir að finna hæfileikum sínum farveg án þess að hún auðgist á því. Hún hafi þörf fyrir að vera í samfélagi við annað fólk og deila með því gnótt og skorti, sælu og sorgum.

Eðli mannsins sé ekki það að taka og drottna. Maðurinn sé í eðli sínu ekki síður sá sem vilji gefa og miðla, hjálpa og fórna sér, án þess að gera slíkt í von um laun eða endurgjald.

Þessar tilhneigingar okkar eru markvisst og kerfisbundið bældar og kæfðar í því þjóðfélagi sem við búum í. Þar er okkur á þvert á móti kennt að taka, neyta, eignast, drottna og hugsa fyrst og fremst um eigin hag til að gera okkur að sem duglegustum neytendum.

Því þarf að breyta, ekki bara til að lífið verði betra, fallegra og innihaldsríkara.

Við þurfum að breyta þessu til þess að maðurinn geti átt sér framtíð á þessari plánetu.

Myndin er af kvígum undir norðlenskum júlíhimni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

> Upphaflega eru öll kerfi til þess að mæta mannlegum þörfum. Mjög oft hætta þau smám saman að snúast um manninn en öðlast þann tilgang einan að viðhalda sér sjálfum.

Falla trúarbrögð undir þetta? Ríkiskirkjan?

Matthías Ásgeirsson, 20.7.2010 kl. 18:19

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Öll kerfi geta farið að snúast um sig sjálf, Matthías, eins og ég skrifaði. Hvorki trúarbrögð né þjóðkirkjan eru þar undanskilin.

Svavar Alfreð Jónsson, 20.7.2010 kl. 18:29

3 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Svavar. Mikið er þetta góður pistill hjá þér. Ég hef einmitt verið þessarar skoðunar lengi og virka svona "alltaf á móti" fyrir vikið. Ég spyr mjög oft " hver ákvað að þetta sé svona eða hinsegin". Kerfi, kreddur og hefðir hafa rúllað gagnrýnislaust án þess að nokkur tali um það. Í atvinnulífi, stjórnmálaflokkum, fjármálageiranum og eflaust í trúarsöfnuðum líka. Ég er hjartanlega sammála þér og Matthíasi líka.

Kveðja Kolla. 

Kolbrún Stefánsdóttir, 20.7.2010 kl. 19:15

4 Smámynd: Dingli

Skrif þín vekja mig oft til umhugsunar og þessi ekki síst. Held mig hafa lengi leitað að þessum spurningum og svörum, hugsað á þennan veg, en ekki tekist að skilja eða skilgreina það sem setið hefur þó í undirvitundinni. Þessi pistill hjálpar mér mikið með því að orða hugsanir sem stóðu í mér að koma í samhengi.  

Dingli, 25.7.2010 kl. 04:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband