15.9.2010 | 22:16
Helgidómarnir
Bænahús heimsins segja sögu. Þau eru reist til að mæta ákveðnum þörfum. Þess vegna lýsa þau eiginleikum mannsins og eðli. Bænahúsin stór og smá segja okkur að maðurinn biðji. Hann leiti út fyrir sig. Hann skynji það sem er meira og æðra en hann.
Maðurinn reisir mannvirki sem tileinkuð eru þessari leit mannsins, skynjun og iðju.
Á hverjum einasta degi streymir fólk vítt og breitt um veröldina í slík hús.
Undanfarin sumur hefur verið svokölluð ferðamannakirkja í Akureyrarkirkju. Sr. Jóna Lísa Þorsteinsdóttir hefur veitt þvi starfi forstöðu. Hún hefur tekið á móti þeim mikla fjölda ferðafólks sem kemur í kirkjuna á hverju sumri.
Túristarnir koma ekki bara þangað til að forvitnast og skoða. Þeir koma til að biðja. Eiga hljóða og helga stund. Hugsa heim og senda góðar bænir yfir höfin. Finna fyrir nálægð Guðs langt í burtu frá fjölskyldu og vinum.
Maðurinn er andleg vera. Hann hefur andlegar þarfir. Þær eru alls engar gerfiþarfir. Manneskjan er aldrei meiri manneskja en þegar hún sinnir sínum andlegu þörfum. Þess vegna eru bænahúsin mikilvæg hús. Þess vegna eru þau um veröld víða, hvert með sínu sniði.
Alls staðar leitar maðurinn í bænahús til að gangast við sér sjálfum.
Þess vegna er veröldin full af helgidómum.
Myndin er innan úr Akureyrarkirkju
Athugasemdir
Takk fyrir góða færslu Svavar.
Það er ekki að ástæðulausu að kirkjur eru með fjölsóttustu ferðamannastöðum víða í heiminum.
Ég hef komið í margar kirkjur, margra kirkjudeilda, víðsvegar um heiminn. Allstaðar sér kona einhverja, sem hafa komið sér fyrir og eru auðsjáanlega ekki að fylgjast með leiðsögumönnum, eða horfa á umhverfið.
Sumir gætu verið yfir sig þreyttir, en margir eru líka að hugleiða þau áhrif sem kirkjan vekur og biðja.
Hólmfríður Pétursdóttir, 16.9.2010 kl. 16:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.