1.10.2010 | 09:35
Rófusúpa Fréttatímans
Það reyndist drjúgt verk að lesa sig í gegnum öll blöðin sem lögðu leið sína í gegnum bréfalúgu heimilisins á þessum morgni.
Fyrstur kom gamli góði Mogginn; 44 síðna manúall um það sem okkur heilaslöppum ber að hugsa á svona fallegum haustdegi.
Síðan Baugstíðindin blessuð. Alls 60 síður af kjetauglýsingum frá Bónus og lofgjörðaróðum um Evrópusambandið og mátulega óljósum tíðindum af Eigendunum.
Og síðast en ekki síst Fréttatíminn, 72ja síðna nýtt helgarblað, ókeypis og engum háð.
Nöfnin í Fréttatímanum eru:
Jónína Leósdóttir, Óskar Hrafn Þorvaldsson, Jón Gnarr, doktor Gunni, Indriði Þorláksson, Geir Haarde, Jón Ásgeir, Mörður Árnason, Karl Berndsen, Hallgrímur Helgason, Gísli Marteinn, Þráinn Bertelsson, Jón Kaldal, Steinunn Valdís, Sveinn Andri, Páll Baldvin, Gunnar Smári, Ásdís Rán, Ólafur Skú og Reynir Trausta.
Kunnuglegt?
Hið nýja blað hefur sömu andlitin og öll hin blöðin og allir hinir fjölmiðlarnir, það flytur okkur sama boðskapinn, sömu rulluna og hefur þess vegna ekkert nýtt fram að færa.
Þetta er enn eitt Reykjavíkurblaðið og enn einn Reykjavíkurfjölmiðillinn sem lætur eins og landsbyggðin sé ekki til og að tómið eitt sé handan Esjunnar.
Á þessum föstudagsmorgni get ég flett 176 síðum af blaðaefni um sömu einstaklingana og voru í hinum blöðunum og morgunútvarpinu og verða í Kastljósi kvöldsins.
Sama tuggan 176 sinnum á einum morgni.
Er nema vona að ástandið sé eins og það er?
(Til að vera sanngjarn ber þó að geta þess að Mogginn er með góðan blaðamann á sínum snærum hérna fyrir norðan. Þökk sé honum fyrir það.)
Tvennt fannst mér þó gott í Fréttatímanum.
Annars vegar er þar skemmtileg viðtal við bandarískan fjárfesti, Michael nokkurn Jenkins, lánveitanda og velgjörðarmann hins óháða Fréttatíma. Ég vitna í orð hans:
Fjölmiðlar voru slappir fyrir hrun, bæði í Bandaríkjunum og annars staðar, og höfðu ekki hugmynd um hvað var að gerast. Það hefur ekkert batnað eftir hrun og ég held að margir blaðamenn, sem spiluðu með æðstu ráðamönnum og viðskiptajöfrum fyrir hrun, séu hluti af vandamálinu. Ég talaði við íslenska vini mína og þeir sögðu að það væri lítill hópur manna á Íslandi sem stýrði öllu, viðskiptalífinu, stjórnmálunum og fjölmiðlunum. Innan þessa hóps eru víst allir meira og minna tengdir og því er lítill möguleiki á að fjölmiðlar í eigu slíkra manna geri nokkurt gagn.
Ég hef mjög eindregnar efasemdir um að sá litli hópur fólks sem einokar fjölmiðla á Íslandi sé að gera þeim gagn og að það sé eins ómissandi fyrir umræðuna og það sjálft virðist halda.
Hins vegar er í Fréttatímanum rófusúpuuppskrift sem ég ætla að prófa ef ég nenni.
Myndin er tekin austur yfir Hörgárdal upp í Bægisárdalinn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.