8.10.2010 | 21:11
1233 börn
Ég vil ekki vera neikvæður en sú jákvæðni sem felst í því að vilja ekki sjá það neikvæða hlýtur að enda með ósköpum.
Einn spuninn í samfélaginu hefur gengið út á það að hér sé allt í lagi.
Allt of mikið sé gert úr vandræðum fólksins.
Að vísu er það rétt að heimsendaspár þeirra sem vildu endilega troða æseivskuldinni upp á þjóðina hafa ekki ræst, Guði sé lof.
Við sáum það samt í fréttatíma Ríkissjónvarpsins í kvöld að uppboðshömrunum er sveiflað yfir íslenskri alþýðu.
Spunameistarar hafa haldið því fram að einungis fólk sem keypti sér glæsivillur og jeppa á 100% lánum sé í vandræðum.
Það geti sjálfu sér um kennt.
Í sjónvarpinu í kvöld sáum við að það eru ósköp venjulegar íbúðir sem verið er að bjóða upp.
Í þeim búa ósköp venjulegir Íslendingar.´
Sárt var að heyra lýsingarnar á gráti fólksins þegar uppboðshaldarinn mætti með hamarinn og barnafjölskyldur voru reknar út á Guð og gaddinn.
Ég vona a stjórnvöld heyri þann grát og skynji örvæntingu fólksins.
Í dag barst mér fréttabréf fyrirtækisins Credit Info.
Þar eru ekki uppörvandi fréttir.
Frá 1. - 8. október s.l., á einni viku, var 81 heimili auglýst á framhaldsuppboði og 55 fasteignir lögaðila hér á Íslandi.
Nú er vinsælt að kenna bönkunum um uppboðin en í fréttabréfinu er sagt frá því að Íbúðalánasjóður sé sá kröfuhafi sem eigi hlutdeild í flestum framhaldsuppboðum heimila.
Næst koma tryggingafélög og sveitafélög.
Alvarlegir fjárhagserfiðleikar mælast hlutfallslega mestir hjá einstæðum foreldrum en fjölmennasti hópurinn eru barnafjölskyldur með foreldra á aldrinum 30 - 50 ára.
1.233 íslensk börn búa á heimilum sem auglýst hafa verið á framhaldsuppboðum fyrstu níu mánuði ársins.
Myndin: Ljósið blessar Dalvíkina. Megi það lýsa bjart yfir allt Ísland.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.