Rokland

Ólafsvík (1) 

Núna í hauststillunum rifjast upp nokkrar roksögur.

Sú fyrsta er úr Höfðahverfinu. Þar getur hvesst hressilega. Einu sinni lenti bóndi þar nyrðra í svo miklu roki að þegar hann fór út að huga að skepnum og húsakosti sló harkalega niður sviptivindi þar sem hann var staddur.

Fékk hann ekki við neitt ráðið og fuku út úr honum fölsku tennurnar.

Þegar ég sagði þessa sögu vestur á Snæfellsnesi þótti mönnum þar lítið til koma. Var mér sögð saga af manngarmi einum sem reið götur í rólegheitum í Staðarsveitinni. Þar getur hvesst alveg óskaplega og mjög skyndilega.

Og einmitt það gerðist þegar maður þessi reið göturnar grunlaus. Allt í einu kom hífandi rok. Rak á þvílíka hviðu að hesturinn fauk undan manninum á haf út og hefur ekki sést síðan.

Fræg eru sterkviðrin sem koma stundum í Bolungarvík á Ströndum. Í 99 vestfirskum þjóðsögum, 4. bindi, sem Finnbogi Hermannsson safnaði og Vestfirska forlagið gaf út í fyrra, segir frá einu slíku.

Eitt sinn á fengitímanum var Reimar bóndi Finnbogason í Bolungarvík að teyma hrút á milli húsa. Gerði aftakaveður.

Þannig er sagt frá atburði þessum í 4. bindinu af 99 vestfirskum þjóðsögum:

„Skellti hann hrútnum flötum og lenti skepnan þá á vegg og steinrotaðist. Stóð hrútsi þó upp aftur, en þá kom svo mikil vindhviða að hann fauk á haf út og hélt Reimar eftir blóðugum hornunum, einu í hvorri hönd."

Glöggir menn taka eftir að í þessum sögum fengu bæði hesturinn og hrúturinn þau örlög að fjúka á haf út.

En hvert fóru gervitennurnar?

Samkvæmt sögunni lentu gervitennurnar, efri og neðri gómur, á fjósvegg og læstust þar í þakskeggi.

Þar blasa þær glottandi við vegfarendum, láta mjög skína í veðrað tannholdið og minna þann veg á, að svikult er lognið í Höfðahverfinu.

Myndina tók ég í Ólafsvík, þeim dýrðarstað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er hœgt ad fa mynd af hvar tennurnar eru ? :-) :-) :-)

Islendingur (IP-tala skráð) 9.10.2010 kl. 22:41

2 identicon

Ég heyrði eina af tveimur gamlingjum sem voru á skaki, annar misti tennurnar út úr sér og í sjóinn þar sem þær hurfu til botns. Hinn ákvað að stríða honum og  þegar hann dró næsta þorkinn upp úr hafdjúpinu tók hann úr sér tennurnar og setti upp í þorskinn og sagði, " nei maður lifandi, heldurðu að ég hafi ekki veitt þorsk sem hefur gleypt tennurnar þínar!" Hinn tók tennurnar og setti þær upp í sig en sagði svo, " Nei þetta eru ekki mínar, og henti þeim í sjóinn. Báðir komu þeir tannlausir í land eftir þennan túr. 

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 10.10.2010 kl. 11:49

3 Smámynd: Brattur

Einhvern tíman um miðbik síðustu aldar var svo hvasst á Eyjafirðinum að Hrísey rifnaði upp með rótum og rak alla leið inn til Akureyrar og strandaði þar...

Held reyndar að þetta sé lygasaga (og ekki á maður að segja presti lygasögur, er það ?) því aldrei hef ég heyrt hvernig og af hverju Hrísey var dregin til baka á sinn stað aftur

Væri hagkvæmt núna að hafa hana á Pollinum.

Brattur, 10.10.2010 kl. 17:22

4 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Þú gleymir sögunni úr Fróðárhreppnum úr því að þú ert að skreyta með mynd úr Ólafsvík.  Um prestinn sem flutti predikunarstólinn í suðaustanroki frá Brimilsvöllum í nýja kirkju í Ólafsvík !

ESv

Einar Sveinbjörnsson, 10.10.2010 kl. 21:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband