Reiðast eigum vér

DSC_0138

Þjóðin varð reið í Hruninu. Þá lét fólk reiði sína í ljós á borgarafundum og fjölmennum mótmælum.

Hrunið er orðið tveggja ára og enn er fólk reitt. Reiði þess fannst vel á Austurvelli fyrr í þessum mánuði þegar fólkið barði tunnur, grýtti eggjum í Alþingishúsið og mölvaði rúður í Dómkirkjunni.

Nú eru þær raddir hljóðnaðar sem á sínum tíma sögðu eignaspjöll ekki ofbeldi en þess í stað er því haldið fram að reiðin sé ekki til neins.

Á það bendir til dæmis Pétur Blöndal í viðtali í Fréttablaði helgarinnar. Þar segir hann m. a.:

Menn segja og gera ýmislegt þegar þeir eru reiðir en gera aldrei neitt uppbyggilegt. Ég hef aldrei séð nokkurn mann gera eitthvað uppbyggilegt í reiði.

Þessi boðskapur Péturs er í anda einhverrar frægustu prédikunar sem flutt hefur verið á þessu landi, svonefnds Reiðilesturs sr. Jóns Þorkelssonar Vídalíns en þaðan er þessi bútur:

Heiftin er eitt andskotans reiðarslag. Hún afmyndar alla mannsins limi og liði. Hún kveikir bál í augunum. Hún hleypir blóði í nasirnar, bólgu í kinnarnar, æði og stjórnleysi í tunguna, deyfu fyrir eyrun. Hún lætur manninn gnísta með tönnunum, fljúga með höndunum, æða með fótunum. Hún skekur og hristir allan líkamann og aflagar svo sem þegar hafið er uppblásið af stórviðri. Og í einu orði að segja: Hún gjörir manninn að ófreskju og að holdgetnum djöfli í augum þeirra sem heilvita eru.

(Jón Þorkelsson Vídalín, Vídalínspostilla, Reykjavík 1995, bls. 130 - 131)

Valdamönnum virðist vera mikið í mun að sefa reiði almennings. Til þess er auðvitað aðeins ein leið:

Fólk verður annars vegar að geta tjáð reiði sína og fundið útrás fyrir hana. Hins vegar þarf það að vita af hverju það reiddist og finna að verið sé að vinna gegn orsökum reiðinnar.

Sú leið að banna fólki einfaldlega að reiðast og segja reiðina óholla er ekki vænleg til árangurs. Fólk reiðist ekki sér til gamans. Yfirleitt velur fólk sér ekki að vera reitt. Það er enginn off-takki á reiði fólks.

Meistari Jón Vídalín taldi reiðina líka eiga rétt á sér. Í Reiðilestri sínum segir hann:

Það er og ekki réttvíst aldrei að reiðast. Reiðast eigum vér syndum og glæpum, reiðast eigum vér sjálfum oss nær vér fremjum eitthvað af slíku, reiðast eigum vér og vandlæta fyrir Guðs sakir. Því það er hvörki mögulegt né gagnlegt reiðina aldeilis burtu að taka.

(Vídalínspostilla, bls. 135)

Reiði fólks verður ekki svæfð með spuna.

Og mér finnst þessi reiði að mörgu leyti réttlát. 

Er eðlilegasta skýringin á því að enn er fólki ekki runnin reiðin ef til vill sú að sáralítið hefur breyst frá því að fólk reiddist hér árið 2008?

Ein af afleiðingum hrunsins er sú að skuldir fólksins bólgnuðu út. Nú er því sagt að ekki sé hægt að vinda ofan af þeirri þróun. Það kosti meira en tvöhundruð milljarða og þeir peningar séu því miður ekki til.

Í sömu viku og fólki var tilkynnt um þær málalyktir voru sagðar fréttir af enn einni afskrift hjá auðmanni.

Hún kostaði ekki nema 50 milljarða.

Ég er viss um að fólk er tilbúið að færa ýmsar fórnir, leggja hart að sér, herða sultarólina, neita sér um hluti, en fólk verður að upplifa það að þjóðfélagið sé réttlátt og sanngjarnt.

Þannig er fólk því miður ekki að upplifa Ísland í dag og þess vegna er það reitt.

Vel má vera að lítið uppbyggilegt komi út úr reiðinni. Hún rífi niður frekar en að byggja upp.

En þarf ekki stundum að rífa niður til að hægt sé að byggja upp af viti?

Svo mælir meistari Jón Vídalín á öðrum stað:

Eg þori framar að tala: Það er ekki Guði þægt og gagnar ekki til hans dýrðar að menn altíð gefi rétt sinn eftir, því það gjörir óhlutvanda menn oftast þess verri og ásæknari svo að það má sýnast að sá efli illsku þeirra sem lætur hlut sinn fyrir þeim ef hann má ná hönum með lögum og rétti. Sá sem vill taka frá mér æru mína og gott mannorð, mun það Guði á móti að eg forsvari mig löglega fyrir áaustri hans? Hann lýgur upp á mig lýtum og skömmum sem eg aldeilis ekki er valdur af, mun mér ei leyfilegt að bera hönd fyrir höfuð mitt þar svo ástendur? Einhver rænir mig fjárhlutum mínum, óðölum og arfagóssi eður öðru því sem eg er vel að kominn, og það annaðhvert með ofríki eður yfirvarpi laga og réttinda, svo eg líð skort á forsorgun minni og þeirra sem mér eru vanabundnir, konu, barna og hjúa, hefi ekki það eg megi fátækum gefa og bjarga nauðstöddum með, en hann brúkar fé mitt til óhófs og ofmetnaðar, því svo gjöra þeir oftast er láta þénara sína stökkva yfir hvern þröskuld til að fylla hús drottna sinna með ráni og svikum, mun Guð banna mér að verja mitt með lögum á móti slíkum ofstopa? Fjærri sé því. Annars hefði hann ekki girt í kringum frelsi mitt og eigur með laganna múr.

(Vídalínspostilla, bls. 626)

Myndin er af öxndælskum fossi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Það er gömul klisja að sagan endurtaki sig, að við komum að sama, sams konar eða svipuðum punkti aftur og aftur. Mikið hittir Séra Jón okkur fyrir í lokatilvitnun þinni þegar hann talar til okkar í gegnum aldirnar!

Flosi Kristjánsson, 16.10.2010 kl. 21:40

2 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Svavar, stórauknum strandveiðum og frjálsum handfæra veiðum var lofað,

frjálsar handfæra veiðar mundu leysa allan atvinnuvanda Íslendinga!!!

Þetta er skemtileg, heilsusamleg og vel launuð vinna, þessi atvinnustarfsemi

mundi ekki setja þjóðina í skuldir, heldur öfugt, gera Íslendinga

skuldlausa og ríka.

Fátæk þjóð á handfæra veiðar!!!

Aðalsteinn Agnarsson, 16.10.2010 kl. 23:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband