8.11.2010 | 13:49
Stóra rúðumálið
Allnokkur umræða hefur verið um myndarúðu í Akureyrarkirkju sem upphaflega var í dómkirkjunni í Coventry á Englandi.
Hún er sögð þýfi og þeir þjófkenndir sem rúðuna keyptu.
Í Fréttatímanum um helgina eru Akureyringar sakaðir um að skreyta kirkju sína með stolnum breskum þjóðargersemum og biskup Íslands eggjaður til að sjá um að þýfinu verði skilað.
Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að skila rúðunni. Auðvelt væri að búa til eftirmynd hennar og koma henni fyrir í stað Coventry-rúðunnar.
Í fyrra komu tveir fulltrúar dómkirkjunnar í Coventry í opinbera heimsókn til Akureyrar.
Erindi þeirra var reyndar ekki það að biðja um að fá rúðuna aftur.
Né heldur að væna Akureyringa um þjófnað eða saka þá um að skreyta kirkju sína með stolnum þjóðargersemum frá Englandi.
Fulltrúar dómkirkjunnar áttu það erindi að lýsa yfir ánægju sinni með að rúðan frá Coventry væri í Akureyrarkirkju.
Og þeir óskuðu eftir því að í framtíðinni yrði fleira til að tengja þessar tvær kirkjur en hin fagra myndarúða.
Er unnið að því að efla enn frekar vináttu og samstarf dómkirkjunnar í Coventry og Akureyrarkirkju.
Rúðan er ensk en dylgjur um þjófnað, þýfi og brottnumdar þjóðargersemar eru ekki ensk framleiðsla heldur Made in Iceland.
Ef til vill segir það sína sögu um hugarfarsástandið í því landi?
Myndin: Rúðan frá Coventry er miðhluti miðjugluggans í kór Akureyrarkirkju.
Viðbót:
Vinur minn sendi mér tengingu á stutt viðtal við Kenyon Wright, annan gestanna frá Coventry. Það er hér:
http://www.youtube.com/watch?v=RJfqDjX6U6Y
Ennfremur eru áhugaverðar tengingar í athugasemdum.
Athugasemdir
Ég ákvað að gúggla aðeins. Ég fann tvo áhugaverða linka sem vert er að skoða.
http://vimeo.com/4592896
http://www.historiccoventry.co.uk/cathedrals/stainedglass.php
Á að senda þetta á RÚV?
Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 15:58
Framkoma þessara ensku kirkjunnarmanna í sjónvarpsþættinum var sannarlega aðdáunar og eftirbreytniverð.
Sigurður Þór Guðjónsson, 8.11.2010 kl. 16:50
Sendu þetta endilega á RUV, Stefán.
Svavar Alfreð Jónsson, 8.11.2010 kl. 22:05
Nú. þá er þetta bara allt í lagi. AMEN.
Haukur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 9.11.2010 kl. 10:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.