Höfuðborgarhrokinn

DSC_0370 

Skoðanir mínar á því hvar sé best að hafa flugvöll í Reykjavík eru hvorki sterkar né stækar.

Samt held ég að staðsetningin sé ekki einkamál Reykvíkinga þótt álit íbúanna hljóti að hafa sitt að segja.

Sumir Reykvíkingar virðast gleyma því að Reykjavík er höfuðborg Íslands. Sá titill er ekki einungis til virðingar og upp á punt. Höfuðborgir hafa hlutverkum að gegna. Höfuðborg er ekki einungis til fyrir sig sjálfa heldur fyrir landið allt. Þannig er Reykjavík ekki höfuðborg Reykjavíkur heldur Íslands.

Þess vegna er hún miðstöð. Þar eru ýmsar stofnanir sem þjóna landinu öllu. Þær eru bæði byggðar og kostaðar af Íslendingum og eru til fyrir þá.

Þess vegna eiga landsmenn allir þó nokkuð í höfuðborginni.

Þannig er það með langflestar höfuðborgir veraldarinnar. Þær þjóna landinu öllu og þess vegna er reynt að hafa samgöngur þangað í sem bestu lagi; þjónustan í höfuðborginni á að vera sem aðgengilegust fyrir landsmenn alla enda er hún í þeirra þágu og á þeirri kostnað.

Að vísu eru ekki alls staðar hafðir flugvellir inni í höfuðborgum en víðast hvar er brautarstöð, gjarnan á besta stað í miðborginni.

Sú tilhögun, að hafa brautarstöðvar á rándýrum byggingarlöndum í höfuðborgunum miðjum, er til að tryggja sem besta og greiðasta tengingu landsmanna við þá þjónustu sem er í höfuðborgum.

Á Íslandi eru ekki járnbrautir en Reykjavíkurflugvöllur er okkar brautarstöð.

Sumir vilja hafa brautarstöðina í Reykjavík í Keflavík.

Nú fyrir helgina birtist pistill um það í einu borgarblaðanna. Þar segir m. a.:

Sumir segja að það sé ein af skyldum Reykjavíkur sem höfuðborgar gagnvart landsbyggðinni að halda úti flugvelli. Ímyndum okkur að þú eigir ættingja úr öðru bæjarfélagi sem fær að gista hjá þér nokkrum sinnum á ári. Þótt hann komi ekki oft krefst hann þess hins vegar að í íbúðinni sé tekið frá fyrir hann heilt herbergi með uppábúnu rúmi allan ársins hring. Þegar þú leggur til að breyta herbergi uppi á lofti í gestaherbergi, af því þú vilt nýta hitt herbergið í eitthvað annað, stappar frændi niður fótum og segir nei, það er svo langt að fara. Keflavík er í þessu samhengi bara annað herbergi í sama húsi.

Þegar við landsbyggðarfólk förum til Reykjavíkur til að nýta okkur þjónustuna sem við tökum þátt í að kosta er það orðað þannig í ofangreindum pistli að við fáum að gista hjá höfuðborgarbúanum.

Náðarsamlegast.

Og eigum að vera þakklát fyrir að fá að gista úti í garði.

Myndin: Vetur í bæ.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Svavar!

Er alveg sammála þér...vann í fimm ár sem "fluglæknir", þe flutti veika og slasaða sjúklinga flugleiðina utan af landi til Reykjavíkur og Akureyrar.  Reykjavíkurflugvöllur er fullkomlega staðsettur til að sinna sjúkrafluginu, og það væri hræðileg mistök að færa hann nokkuð annað.

Það lengir fluttningstímann um amk 40 mínútur ef að sjúkraflugið þarf að lenda í Keflavík, og ég veit að amk tveir sjúklingar sem ég flutti hefðu ekki lifað af hefðum við þurft þess.  Ef LSH á að virka sem bráðaspítali fyrir alla landsmenn er það algert skilyrði að flugvöllurinn sé nálægt honum.  

Mér heyrist það á mörgum að þeim finnist það ekki skipta máli að fluttningstíminn lengist fyrir okkur landsbyggðarfólkið ef flugið verður flutt til Keflavíkur.  Með sömu rökum væri þá hægt að segja að best væri að byggja nýja Landspítalann í Keflavík því það skipti ekki máli fyrir Reykvíkinga að þeir ættu 40 mínútna lengri leið á spítala þegar þeir verða bráðveikir...geri ekki ráð fyrir að neinum þætti það góð hugmynd!

Kveðja, Ása Eiríksdóttir. 

Ása Eiríksdóttir (IP-tala skráð) 28.11.2010 kl. 23:31

2 Smámynd: Ólafur Als

Heill og sæll Svavar,

ég tek að nokkru undir þessi orð þín, hvort sem kalla má þetta viðhorf margra samborgara minna í Reykjavík hroka eða eitthvað annað.  Reyndar hef ég lengi verið fylgjandi því að flytja flugvöllinn út í skerin vestur af borginni og Gróttu. Staðsetning flugvallarins er, eins og ljóst má vera, afar skaðleg skipulagi borgarinnar og ýtt undir útþenslu hennar og óhagkvæmni á mörgum sviðum. En úr því að þú minnist á "langflestar" höfuðborgir annarra landa, þá er því sjaldnast þannig farið að flugvelli sé að finna í miðborgum, jafnvel ekki sérstakar miðstöðvar til þess að þjóna flugvöllum. Ef svo ólíklega vildi til að innanlandsflug yrði flutt til Keflavíkur má vænta þess að slík miðstöð yrði byggð í Reykjavík, enda eru alþjóða flugvellir í svipaðri fjarlægð frá miðborgum og Keflavíkurflögvöllur er frá miðborg Reykjavík.

Endalega þrýstið á að flugvöllurinn verði settur út í skerin.

Kveðja,

Ólafur Als, 29.11.2010 kl. 00:14

3 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Svavar

Ég er sammála Ólafi.

Vandamálið er að hingað til hefur ekki annað verið til umræðu af hálfu landsbyggðarinnar en hafa flugvöllinn, ekki við miðbæinn, heldur í miðbænum.

Þessi staðsetning hefur m.a. valdið því að ekki er hægt að byggja hærra en fjögurra hæða hús í höfuðborg landsins. Engin höfuðborg í heiminum býr við slíkar takmarkanir.

Þessi staðsetning vallarins velur því að ekki hefur verið hægt að stækka miðbæinn út í Vatnsmýrina. Þar vilja Reykvíkingar byggja miðborg þar sem býr 30.000 - 60.000 manns og atvinnuhúsnæði fyrir álíka fjölda starfa. Þar vilja Reykvíkingar bjóða þeim sem vilja búa og starfa í miðborgarbyggð upp á valkost sem jafnast á við það besta í örðum miðborgum Evrópu.

Allar hugmyndir um aðra staðsetningu vallarins, t.d. úti á Lönguskerjum, Hólmsheiði, Engey, Kapelluhruani og Álftanesi hafa verið slegnar út af borðinu og menn ekki til umræðu um annað en innanlandsvélarnar fái að lenda á Lækjargötunni. Þá er rétt a minna á að það er ekki Reykvíkinga eða borgarstjórnar Reykjavíkur að ákveða hvar nýr völlur á að vera. Það er mál samgönguyfirvalda. Það eina sem Reykvíkingar geta ákveði er að hann verði ekki í Vatnsmýrinni. Sú ákvörðun var tekin í kosningum fyrir 10 árum síðan þegar kosið var um hvort flugvöllurinn ætti að vera eða fara. Í 10 ár hefur það staðið skýr á aðalskipulagi Reykjavíkur að flugvöllurinn ætti að fara 2016, þ.e. eftir 5 ár.

Það er rétt að það eru miklir hagsmunir fólgnir í því að góðar samgöngur séu á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Engin er að gera lítið úr því.

En það eru líka miklir hagsmunir fólgnir í því að höfuðborg landsins fái að þróast eins og aðrar borgir og geti boðið upp á sömu valkosti í búsetu og þær. Meðan höfuðborg Ísland býður ekki upp á alvöru miðborg með strætum og torgum, iðandi mannlífi þar sem blandast saman verslanir, skrifstofur og íbúðabyggð, þá er höfuðborg Íslands ekki að rækja skyldur sínar sem höfuðborg. Þá er höfuðborg Íslands ekki að rækja skyldur sínar við unga fólkið okkar, komandi kynslóðir Íslendinga sem munu frekar kjósa að búa í miðborg en í hinum dreifðu úthverfum höfuðborgarsvæðisins.

En á meðan landsbyggðin vill ekki ræða aðra staðsetningu á vellinum og vill ekki skoða neinar aðrar lausnir á staðsetningu vallarins þá getur aldrei náðst sátt um þetta mál.

Gleymum því ekki að verðmæti Vatnsmýrarinnar, mælt í lóðum, er aldrei undir 70 milljörðum, þ.e. eftir 3 til 4 ár þegar við erum komin út úr þessari kreppu. Reykjavík á 60% í Vatnsmýrinni og ríkið 40%.  Nýr völlur á Hólmsheiði kostar 5 - 7 milljarða.

Fyrir Reykjavík að nýta þetta land á næstu árum, fá sinn hluta af þessum 70 milljörðum  og fá í framhaldi 30.000 til 60.000 manns inn í borgina og álíka mörg störf, auðvita er það ekki spurning.

Á næstu 10 árum koma stærstu árgangar Íslandssögunnar, (90 árgangurinn +/- 5 ár), um 45.000 manns, inn á fasteignamarkaðinn. Hvar vilt þú koma þessu fólki fyrir? Í blokkum í hrauninu við hliðina á álverinu í Straumsvík, uppi í Mosfellsbæ eða í Vatnsmýrinni?

Vilt þú gera allt þetta unga fólk að 100 km fjölskyldum? Fjölskyldum sem aka daglega meira en 100 km á dag hér á Höfuðborgarsvæðinu? Er þær fjölskyldur ekki þegar orðnar nægilega margar? Eða vilt þá minnka umfang akstursins og byggja borgina inn á við og stuðla að minni akstri, minni útblæstri og auknum lífgæðum þar sem fólk eyðir minni tíma í bílnum sínum og meiri tíma með fjölskyldunni eða við að sinna áhugamálum?

Auðvita eigum við að bjóða þessu unga fólki til sætis á besta stað í bænum um leið og við aukum samkeppnishæfni þjóðarinnar með því að bjóða hér upp á miðborgarbyggð sem jafnast á við það besta í Evrópu.

Slíka byggð er hvergi hægt að búa til nema með því að stækka núverandi miðbæ Reykjavíkur út í Vatnsmýrina og breyta þessum miðbæ Reykjavíkur í miðborg Höfuðborgarsvæðisins.

Og loksins eru komin hér borgaryfirvöld sem ætla sér að gera þetta að veruleika.

Það sem ég hef aldrei skilið í þessari umræðu er af hverju er þessi harka. Af hverju má ekki skoða aðra valkosti með staðsetningu?

Þetta er líka ykkar höfuðborg. Það er líka ykkar hagsmunir að borgin blómstri. Hún verið hagkvæm í rekstri og fólki líði vel í henni og unga fólkið vilji búa í henni og reka þar sín fyrirtæki frekar en flytja til útlanda.

Það sem er gott fyrir höfuðborgina, það er gott fyrir allt landið.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 29.11.2010 kl. 11:28

4 Smámynd: Gunnar Waage

Þótt ég virði sum af þínum rökum Svavar, þá er það nú svo að það tíðkast ekki að byggja stóra flugvelli í borgum af augljósum ástæðum, þar á meðal af öryggisástæðum. Í þeim tilfellum þar sem þessir vellir eru inn í borgum þá eru það gamlir vellir sem borgin hefur náð utan um á endanum.

Það væri ekkert skemmtilegt að fá 1. stk. fokker niður í Grjótaþorpið sem dæmi þar sem hún frænka mín býr.

Það þarf síðan ekki þennan völl til að sinna sjúkraflugi.

Flugvöllurinn tekur upp stóran hluta af okkar fallegast landssvæði og þykir mér eftirsjá í því. Mér þætti mjög eðlilegt að þessi umferð færi um Keflavíkurflugvöll, það er stutt keyrsla á milli.

Gunnar Waage, 29.11.2010 kl. 14:32

5 Smámynd: Kommentarinn

AMEN Friðrik. Mjög góð útlistun á ástandinu.

Og fyrir þá landsbyggðarmenn sem kalla það hroka í Reykvíkingum að vilja hafa áhrif á það hvernig borgin þróast þá ætti þeir að prófa að búa í Reykjavík í smá stund til að skilja hvernig þetta er. Fólk sem býr í smáþorpum úti á landi og er aldrei lengur en 5 mínútur að keyra í vinnuna skilur ekki að þessi flugvöllur veldur því að tugir þúsunda einstaklinga þurfa að keyra tugum kílómetra lengur á hverjum degi en þeir þyrftu ef borgin hefði getað þróast eins og evrópskar borgir. Byggðin er of dreifð til að almenningsamgöngur geti þrifist. Of dreifð fyrir smáverslanir og of dreifð fyrir mannlíf. Úthverfin eru eins og eyðimmörk.

Svo er ekki eins og allt sem landsbyggðarfólkið sækir til Reykjavíkur sé við tjörnina. Það eru góðar líkur á að það þurfi hvort eð er að keyra í hálftíma til að komast eitthvert innanbæjar.

Og hvað varðar sjúkraflugið þá ætti að flytja þennan spítala upp á höfða. Þetta nýja hátekni ferlíki er algjört skipulagsslys m.a. af því að það má ekki vera hærra en 4 hæðir vegna nálægðar við völlinn.

Kommentarinn, 29.11.2010 kl. 15:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband