13.12.2010 | 09:48
Ógnarstjórn og spuni
Icesave er ein erfiðasta milliríkjadeila sem Íslendingar hafa staðið í. Þar voru gríðarlegur hagsmunir í húfi. Leggja átti stjarnfræðilegar upphæðir á herðar íslenskrar alþýðu. Sú alþýða átti sér talsmenn. Þeir talsmenn komu heim með samning sem þeir sögðu glæsilegan og sú besta niðurstaða sem hægt væri að hugsa sér.
Svo glæsilegur var þessi samningur að talsmenn þjóðarinnar þurftu að beita öllum brögðum til að neyða honum upp á hana. Þjóðinni var hótað öllu illu. Sverði stjórnarslita var sveiflað yfir óþægum stjórnarþingmönnum.
Í stað raka og upplýstrar umræðu ríkti andrúmsloft ógnarstjórna á Íslandi. Beygja átti alþýðu þessa lands undir ísklafann með svipu óttans. Hér færi allt fjandans til ef glæsilegi samningurinn besti yrði ekki samþykktur.
Nánast daglega fluttu fjölmiðlar landsins fréttir af öllum þeim skelfingum sem biðu þjóðarinnar ella.
Fræðimenn úr háskólasamfélaginu lýstu Íslandi sem Kúbu norðursins og Norður-Kóreu Evrópu ef þjóðin tæki ekki á sig þessar skuldir.
Forystumenn atvinnulífs og verkalýðs vöruðu við afleiðingum þess að samþykkja ekki samninginn góða. Hér frysi allt. Nánast enginn fengi vinnu lengur og nánast allir færu á hausinn.
Þegar hinn óháði Seðlabanki datt úr takti við stjórnvöld í málinu var hann sendur heim til að búa til nýjar og hagstæðari skýrslur.
En þjóðin lét talsmenn sína ekki hræða sig. Afdráttarlaust hafnaði hún hinum glæsilega samningi þeirra.
Nú er komið í ljós að samningurinn var hvorki glæsilegur né bestur. Þjóðin með forsetann í fararbroddi tók stjórnina af stjórnmálamönnunum og reyndist hafa rétt fyrir sér.
Þá byrjar næsti spuni.
Samningurinn besti sem reynt var að þröngva upp á þjóðina á að hafa verið glæsilegur „á sínum tíma", eins og það er orðað.
Samningurinn sem fyrir tæpu ári var besta niðurstaðan fyrir þjóðina var bestur „miðað við aðstæður þá" eða „samkvæmt því sem menn vissu", svo notað sé orðfæri spunameistaranna.
En þannig er það nú gjarnan með mistökin.
Þegar menn gera mistök er það sjaldnast ásetningur. Þá segja menn ekki:
„Jæja. Nú er kominn tíma til að gera einhverja vitleysu."
Mistök gera menn yfirleitt í góðri trú.
Og ef íslenskum stjórnmálamönnum mistekst þá er það að sjálfsögðu ekkert tiltökumál því miðað við þáverandi aðstæður var eiginlega ekki annað hægt en að gera sig sekan um afglöp.
Nema náttúrlega að um pólitískan andstæðing sé að ræða.
Þá ber að höfða sakamál.
Myndina tók ég nýlega fram Skíðadalinn.
Athugasemdir
Icesave samningurinn er erfiður, en ekki er hægt að segja að hann sé erfiðasta milliríkjadeila okkar Íslendinga við aðrar þjóðir. Það voru þorskastríðin.
Það sem gerir þessa deilu svo erfiða sem raun er, er fyrst og fremst ósamstaða og kjarkleysi stjórnmálamanna. Við getum ímyndað okkur hvernig farið hefði með útfærslu landhelginnar ef þessir heiglar sem nú sitja á þingi hefðu verið við stjórnvölinn þá.
Ef þingmenn allra flokka tækju saman höndum og fylktu sér bak við þjóðina, væri auðveldara fyrir okkur að hrinda þessari árás.
Ekki má gleima hlut fjölmiðlanna, en þeir hafa skipað sér á sess með þeim sem vilja svíkja þjóðina!!
Gunnar Heiðarsson, 13.12.2010 kl. 13:35
Sæll Svavar. Þú ert aldeilis beittur þarna
. Fínn pistill, vel skrifaður og því miður alveg sannur. Stjórnin hefur verið með refsi-og ógnarvöndinn á lofti í þessu Icesavemáli sem og öðrum.
Þegar þekkingarleysi, eins og ég held að hafi verið í gangi þegar fyrsti samningurinn var á borðinu, er ráðandi þá er ekki von á góðu. Það á bara að skúbba málinu út af borðinu og takast á við afleiðingarnar síðar og segja að þetta hafi verið best þá . m.v os.frv.
Sama er í gangi með aðildarumsókn að ESB það á að keyra það í gegn með illu eða góðu. Þar kemur háskólaelítan sterk inn því það er eins og það henti þeim vel. Sama var með útrásarvíkingana á sínum tíma. Þeir heimtuðu evruna og helst strax. Það man ég vel.
Fjölmiðum er bara stjórnað og þeir fá sín fyrirmæli sem og margir bloggarar. Þetta þurfum við að muna og ekki láta matreiða ofan í okkur meiri vitleysu en boðið hefur verið uppá hingað til.
Bestu kveðjur Kolla
Kolbrún Stefánsdóttir, 18.12.2010 kl. 21:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.