Biðraðafólkið og landsliðið

DSCN0913 

Nú liggur fyrir að einungis áskrifendur einkarekinnar sjónvarpsstöðvar geta fylgst með leikjum íslenska landsliðsins á næsta heimsmeistaramóti.

Sú tilhögun er athyglisverð.

Í fyrsta lagi er landslið Íslands á vissan hátt í eigu þjóðarinnar. Það nýtur opinberra styrkja og er starfrækt fyrir peninga frá þjóðinni allri.

Landsliðið er ennfremur þjóðarstolt Íslendinga og gersemi. Leikir þess á stórmótum eru stórviðburðir í þjóðlífinu.

Við eigum að setja lög sem banna að einungis hluti þjóðarinnar eigi þess kost að fylgjast með slíkum stórviðburðum í sjónvarpi.

Þannig lög eru víða í nágrannalöndum okkar.

Handboltalandsliðið er Íslands en ekki bara þeirra sem hafa efni á Stöð 2.

Í öðru lagi er fróðlegt að rifja upp sögu sjónvarpsstöðvarinnar sem ætlar að selja hluta landsmanna leiki landsliðsins á HM.

Samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hrundu íslensku bankarnir vegna þess að þeir voru tæmdir innan frá, af eigendum sínum.

Stöð 2 er hluti af fjölmiðlaveldi eins þeirra.

Skömmu eftir hrun lánaði einn af bönkunum sem fóru á hausinn eiganda stöðvarinnar á fimmta milljarð króna til að hann héldi eign sinni.

Fyrr á þessu ári þurfti að bæta einum milljarði við lánið til að tryggja eignarhaldið.

Þá hefur komið fram að allt árið 2009 borgaði fjölmiðlafyrirtækið ekki af lánum sínum. Hafði ekki efni á því, að sögn forsvarsmanna þess.

Þegar sjónvarp allra landsmanna reynir að kaupa sýningarréttinn á leikjum liðs landsmanna af fyrirtækinu svarar forstjórinn:

Ég hef persónulega meiri áhyggjur af fólkinu hér á Íslandi sem á ekki fyrir mat. Við erum að tala um þannig upphæðir að ríkið gæti með þessum fjármunum sem verið er að tala um án þess að tekjur komið á móti, hæglega eytt að minnsta kosti helmingi af biðröðunum sem hafa verið eftir mat hér í höfuðborginni.

Fólkið í biðröðunum hefur trúlega ekki efni á að kaupa sér áskrift að Stöð 2.

Þó á það ekki minni hlut í íslenska landsliðinu en forstjóri 365.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fínn pistill. Því má við bæta að 365 á sýningarréttinn á HM 2013 líka. Verst er þetta fyrir handboltann á Íslandi. það er svo mikilvægt fyrir útbreiðslu íþróttarinnar og áhuga hjá ungu fólki að sem flestir eigi kost á að sjá liðið keppa. Las áreiðanlega einhver staðar að sjónvarpsstöðin hafi 10% útbreiðslu.

Þórgnýr (IP-tala skráð) 8.1.2011 kl. 20:39

2 identicon

"Við eigum að setja lög sem banna að einungis hluti þjóðarinnar eigi þess kost að fylgjast með slíkum stórviðburðum í sjónvarpi."

Það verður þá væntanlega að hafa ákvæði í þessum lögum um að allir skuli hafa aðgang að sjónvarpstæki.

Aðgangur að umræddri sjónvarpsstöð kostar 6400 kr. í einn mánuð.  Leikirnir sem sýndir verða eru 30.  Það gerir 213 kr. á hvern leik.  Hver leikur kostar því töluvert minna en ein ferð með strætó.  Sjálfsagt er til fólk sem hefur ekki efni á þessu, en þeir eru örugglega ekki margir.

Gísli (IP-tala skráð) 8.1.2011 kl. 22:54

3 identicon

Þvílík þvæla í þessum Gísla sem er augljóslega málsvari 365.. eða það vona ég allavega hans vegna, að öðrum kosti biði ég ekki í hvað væri í gangi í hausnum á honum.

Ætli það séu margir íslendingar sem ekki hafi aðgang að sjónvarpstæki? Ef fólk á ekki sjónvarp eru yfirgnæfandi líkur á að það þekki einhvern sem á þesslags. Undantekningar á því finndist mér líklegt að væri hægt að telja á fingrum annarrar handar.

Einnig set ég athugasemd við fullyrðingu hans að "margir" hafi ekki efni á 6400 króna áskrift í janúar. Það er fullt af fólki sem getur ekki samvisku sinnar vegna eytt slíkri fjárhæð í sjónvarpsstöð.

Þó eru þessi hæpnu rök Gísla algjört aukaatriði og mjög kjánaleg viðbrögð við pistli Gísla sem fjallar einmitt um það að þetta er PRINSIPP mál að við fáum að horfa á þessa leiki án þess að moka enn meiri fjármunum í stórglæpóninn Jón Ásgeir.

Hallveig (IP-tala skráð) 9.1.2011 kl. 00:47

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Mér finnst að setja eigi Pál Magnússon af, vegna klúðurs hans í þessu máli.  Auðvitað eiga allir landsleikir sem spilaðir eru af landsliðum okkar að vera sýndir á RÚV sjónvarpi allra landsmanna, sem við erum skikkuð til þess að borga....

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 9.1.2011 kl. 00:57

5 identicon

Sæl, Hallveig, og þakka þér fyrir falleg orð í minn garð.

Því miður er ég ekki málsvari 365 svo það er víst illa fyrir mér komið.

 

Ég er enn þeirrar skoðunar að það séu ekki margir sem hafa ekki efni á að horfa á handboldaleiki fyrir 213 krónur hvern leik.

 

Ef fólk hefur það prinsipp að eiga ekki viðskipti við 365 þá verður það bara að eiga það við sjálft sig í stað þess að krefjast þess að allt það sem það langar að horfa á sé sýnt á RÚV.  Þeir sem vilja horfa á Spaugstofuna, ensku knattspyrnuna, Meistaradeild Evrópu og HM í handbolta verða bara að kaupa sér áskrift.

 

Gísli (IP-tala skráð) 9.1.2011 kl. 03:55

6 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Ég veit ekki hvort það er kominn mótmælahópur vegna þessa máls á facebook, en ef ekki,veitti ekki af að stofna einn slíkan.

Það þarf líka að fá upplýsingar um þau fyrirtæki sem hafa keypt auglýsingar af stöð tvö vegna HM svo hægt sé að hvetja til sniðgöngu á þeim. -

Svo þarf að berja bumbur til að mótmæla þessu við húskynni stöðvar tvö. -

Og hvaða fólk hefur keypt sér áskrift bara til að geta horft á HM og orðið þannig að ginningafíflum bankaræningjans?

Þarna kom loksins mál sem sameinað getur þjóðina.

Um að gera að láta það happ sér ekki úr hendi sleppa, ónýtt.

Svanur Gísli Þorkelsson, 9.1.2011 kl. 07:19

7 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Dekur samfylkingarfólksins við 365-miðla nær nýjum hæðum eftir því sem lengra líður á stjórnartímabil Jóhönnustjórnarinnar. Það máttu allir vita að of seint væri að bjóða í þegar mótið er að byrja.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 9.1.2011 kl. 09:17

8 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Mæl þú manna heilastur, Svanur Gísli, það er óþolandi, hve eiganda þessarar stöðvar er hossað og sérstaklega af banka allra landsmanna ?

Kveðja, KPG.



Kristján P. Gudmundsson, 9.1.2011 kl. 10:30

9 identicon

Ég er mikill unnandi handboltans og vill að honum verði ávallt gerð góð skil. Ég er ekki áskrifandi að 365 miðlum. En mér finnst fólk ansi blint í hatri sínu eða vanlíðan gagnvart fyrirtækinu ef það á að kenna þeim um stöðu mála í þessu HM máli handboltans. Ég man ekki betur en að RÚV hafi ekki viljað borgað uppsetta fjárhæð og því bauðst Stöð2 að taka við. RÚV var á þessum tíma að vorkenna sér svo mikið vegna niðurskurðar og fjárleysis. Þurftu að "missa" Spaugstofuna o.fl. Svo þegar óánægjan meðal handboltaáhugamanna heyrist meira, þá fyrst fer Páll falski Magnússon að setja sig á háan hest og bjóðast til að kaupa upp samning 365 að viðbættum 20 prósentum ofan á!!! Hvaðan koma peningarnir?

Mér finnst skítt að geta ekki séð mótið, en ég hef möguleika: ég gæti keypt áskrift. En ég ætla ekki að gera það. En RÚV í þessu máli er falskt, Páll Magnússon var með hrikalegan afleik þegar hann kom með þetta tilboð 7 dögum fyrir keppni. Bara til þess eins að kasta rýrð á samskeppnisaðilann, sem þarf ekki að kasta rýrð á (sér alveg um það sjálfur :) ) -- En RÚV má fá sinn skerf af óánægju frá fólkinu hér.

Doddi (IP-tala skráð) 9.1.2011 kl. 13:03

10 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ekki er ég viss um að þú munir rétt, Doddi, þegar þú segir að RUV hafi ekki viljað borga uppsetta fjárhæð og því hafi Stöð 2 boðist að taka við. Páll Magnússon lýsir þessu svona í frétt Morgunblaðsins nú um helgina:

"Að sögn Páls Magnússonar útvarpsstjóra hafði UFA-Sports fyrst samband við RÚV í byrjun síðasta árs og tilkynnti að fyrirtækið væri komið með sýningarrétt frá keppninni og ætlaði að selja áfram Íslandsréttinn. Páll segir málið hafa gengið í nokkra mánuði með samtölum, send hafi verið inn óformleg og formleg tilboð og RÚV hækkað sig í tvígang eftir að hafa verið tilkynnt að tilboðin væru of lág. Hinn 13. júlí hafi RÚV svo sent síðasta endurskoðaða tilboðið.  

»Við töldum það tilboð geta tryggt okkur réttinn og vorum rólegir með þetta. Síðan fengum við tilkynningu frá fyrirtækinu hinn 3. ágúst um að það væri búið að semja við 365,« segir Páll sem er ósáttur við vinnubrögð UFA-Sports. RÚV hafi ekki verið gefinn kostur á að koma með lokatilboð, líkt og tíðkist jafnan í útboðum á íþróttaefni þar sem reynt sé að hámarka söluvirðið og gefa öllum færi á lokatilboði. Þess vegna neitar Páll því alfarið að RÚV hafi sofnað á verðinum í málinu. Hann segir það sína skoðun að íslensk landslið í alþjóðlegri keppni eigi að vera í opinni dagskrá, hvort sem 365 eða RÚV hafi sýningarréttinn, og vísar m.a. til reglna í Noregi um útsendingar á leikjum norskra landsliða."

Ég tek undir með Páli. Hér eiga að vera sömu reglur og víða í nágrannalöndum okkar um landslið: Leiki með þeim á stórmótum á að sýna í opinni dagskrá.

Það er mergurinn málsins.

Íslenska þjóðin hefur ekki stutt síður við bakið á landsliði sínu í handboltanum en til að mynda Norðmenn.

Svavar Alfreð Jónsson, 9.1.2011 kl. 13:43

11 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Vegna athugasemdar Dodda og Jónu Kolbrúnar er upplýsandi að skoða eftirfarandi ummæli Páls úr sömu frétt:

"Tilboðið til 365 hafi verið lokatilraun eftir að ljóst varð í vikunni að menntamálaráðuneytið taldi sig ekki geta tryggt það með reglugerð að sýna þyrfti frá þessu sem öðrum stórmótum í opinni dagskrá."

RÚV var að bíða eftir niðurstöðu menntamálaráðuneytisins sem hefði getað skyldað Stöð 2 til að sýna leiki landsliðsins í opinni dagskrá. Það gerðist ekki og þess vegna gerði RÚV 365 tilboðið.

Ekki veit ég hvar RÚV ætlaði að taka peningana til að standa við tilboðið en hitt er ekki síður forvitnilegt að vita hvaðan 365 fékk peningana til að yfirbjóða Ríkisútvarpið, nýbúið að fá milljarða að láni úr ríkisbanka og gat ekki borgað af lánum vegna blankheita nokkrum mánuðum áður en sýningarrétturinn var keyptur.

Svavar Alfreð Jónsson, 9.1.2011 kl. 14:03

12 Smámynd: ThoR-E

Skiljanlegt að Stöð 2 Sorp vilji ekki láta sýningarréttinn eftir að hafa selt áskriftir í marga mánuði að viðburðinum og eru búnir að byggja mikla umgjörð í kringum keppnina.

Spurning hvort RÚV og Stöð 2 sorp gætu komist að einhverju samkomulagi að aðeins leikir íslenska liðsins yrðu sýndir á RÚV, eða þá að menntamálaráðuneytið semdi við Stöð 2 sport að leikir ísl liðsins yrðu sýndir í opinni dagskrá.

Þá yrði þetta aðeins hluti keppninnar sem þannig yrði staðið að málum og Stöð 2 sport gætu haldið áfram með sýna dagskrá með mótið.

Ég ætla mér ekki að kaupa aðgang að stöð 2 sorp þótt ég sé mikill handbolta áhugamaður.. finnst virkilega dapurlegt að geta ekki fylgst með HM á RÚV eins og venjan hefur verið.

ThoR-E, 9.1.2011 kl. 16:01

13 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Svavar. Ég er búin að fjasa mikið út af þessu og er sammála þér. Þetta er alveg ómögulegt mál. Ég las einmitt skýringar Páls og trúi þeim.

Auðvitað á stöð 2 eða 365 miðlar næga peninga en RÚV ekki enda færi afnotagjaldið sem nú er skylduáskrift upp í hæstu hæðir ef keppa ætti við þá sem fá peninga á færibandi eins og þú bendir á.

Mér finnst menntamálaráðherrann, sem ég hélt að væri svo mikið fyrir ríkisrekstur og löggjörning allan, vera langt úti á túni að láta hjá líða að setja lög um rétt þjóðarinnar til að horfa á landsleiki í opinni dagskrá hver sem sýnir. Þannig er það í Noregi hef ég heyrt.

kveðja Kolla. 

Kolbrún Stefánsdóttir, 9.1.2011 kl. 21:53

14 identicon

Ég ætla að leyfa mér að koma með uppástungu; Páll gefi hreinlega þessa sport-peninga í hjálparstarf... það er mikilvægara en að horfa á menn elta bolta.

doctore (IP-tala skráð) 10.1.2011 kl. 13:17

15 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

- mæli eindregið með að við horfum inn á við, því allt annað gláp

er út í bláinn

Myndin falleg hjá þér Svavar ........

Vilborg Eggertsdóttir, 10.1.2011 kl. 21:41

16 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Já myndirnar þínar eru flottar Svavar.

Varðandi doctore og hans komment vil ég segja það að það er alveg nóg hjálparstarf í gangi. Biðraðir upp á marga metra á hverjum miðvikudegi hjá Mæðrastyrksnefnd ofl. eftir einhverju smávegis í plastpoka.

Nú ætlar fulltrúi frá Hjálparstarfi kirkjunnar, Valborg Oddsdóttir, að breyta því fyrirkomulagi sem nú er og styð ég hana heilshugar í því. ( like)

Fjölskylduhjálpin auglýsti um daginn eftirfarandi" þeir sem þunga og kaunum eru hlaðnir eru velkomnir til okkar "   ( þetta er satt)

Ætli þetta sé tekið beint úr gamla testamentinu eða er komin upp holdsveiki hjá okkur Íslendingum

Boltinn sameinar þjóðina og nærir þjóðarstoltinu og það er alveg bráðnauðsynlegt um þessar mundir. Bestu kveðjur Kolla

Kolbrún Stefánsdóttir, 11.1.2011 kl. 22:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband