16.1.2011 | 20:01
Næsta kreppa í ofninum?
Gamli Moggaritstjórinn Styrmir Gunnarsson ritar athyglisverða grein í Sunnudagsmoggann. Þar varar hann við fólki sem hag hefur af því að umræður um orsakir hrunsins og afleiðingar verði felldar niður eða verði alla vega ekki jafn ráðandi og verið hefur".
Styrmir bendir á að enn sé mikið verk óunnið. Flórinn sé ekki nema hálfmokaður.
Hann nefnir mörg dæmi um verkefni. Enn eigi eftir að vinna skýrslu um sparisjóðina og lífeyrissjóðina. Háskólasamfélagið hafi ekki gert upp sinn hlut í aðdraganda Hrunsins. Fjölmiðlarnir ekki heldur. Lítið hafi verið rætt um þátt endurskoðenda.
Styrmir segir ennfremur:
Alþingi á mikið löggjafarstarf fyrir höndum að laga þá veikleika á samfélagsgerð okkar, sem hrunið afhjúpaði og skýrsla rannsóknarnefndar staðfesti. Það er eftir að setja nýja löggjöf um fjármálakerfið. Það er eftir að setja nýja lögjöf um viðskiptalífið. Hrunið afhjúpaði gífurlega og alvarlega veikleika í löggjöf um þessa veigamiklu þætti atvinnulífsins.
Um mitt síðasta ár kom út bókin Crisis Economics: A Crash Course in the Future of Finance. Höfundar eru hagfræðingurinn Nouriel Roubini og efnhagsblaðamaðurinn Stephen Mihm.
Roubini er einn umtalaðasti hagfræðingur okkar tíma. Hann kennir fag sitt við New York University og var einn af efnahagsráðgjöfum Bill Clinton, Bandaríkjaforseta. Hann var einn sárafárra hagfræðinga sem spáði efnahagskreppunni - og fékk fyrir vikið viðurnefnið Dr. Doom.
Í bókinni mótmælir Roubini því harðlega að kreppan hafi verið ófyrirséð. Þvert á móti hafi vel mátt búast við henni og auðvelt sé að skilja hana og útskýra.
Kreppan stafi af göllum í fjármálakerfi heimsins. Á því þurfi að gera gagngerar endurbætur. Annars sæki í sama farið á ný. Roubini mælir með meiri ríkisafskiptum af fjármálalífinu, umbyltingu á bónuskerfi bankafólks og því að matsfyrirtækin gjörbreyti starfsháttum sínum, svo nokkuð sé nefnt.
Styrmir og Roubini eru sammála að þessu leyti. Við þurfum að breyta kerfinu.
Dr. Doom segir að óbreytt ástand sé ávísun á næstu kreppu mjög fljótlega.
Skömmu eftir Hrun hafði ég áhyggjur af því að menn ætluðu sér að halda áfram sama leikritinu en skipta bara út leikurum.
Nú óttast ég að ekki eigi einu sinni að skipta um leikara.
Nöfnin í leikskránni hafa lítið breyst. Fyrirtækin, peningarnir og völdin virðast vera á sömu stöðum og fyrir Hrun.
Það sem breyst hefur eru flokkarnir í ríkisstjórn.
Með þeirri undantekningu þó að annar ríkisstjórnarflokkanna var helmingurinn af Hrunstjórninni.
Svona eru nú byltingarnar á Íslandi.
Myndina tók ég í dag fram Glerárdal.
Athugasemdir
Gleðilegt ár
Það er margt skrýtið í kýrhausnum. Ég er einmitt að benda á óræddan þátt í orsök bankahrunsins - veðsetningar aflaheimilda....
og ábyrgð gömlu bankana á því..... www.kristinnp.blog.is
Kristinn Pétursson, 16.1.2011 kl. 21:08
Svavar þetta er einstaklega falleg og rómantísk mynd.
Varðandi þennan ágæta mann " Dr. Doom " þá held ég að fyrrverandi menntamálaráðherra hefði verið fljót að senda hann í endurmenntun hefðu hún náð í hann.
Ég er nú alveg sammála honum og Styrmi enda er ég alltaf í endurmenntun
eða þannig. Kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 17.1.2011 kl. 18:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.