Orustan um Ísland

Fjordur2006 003 

Við heyrum að nú standi yfir orusta um Ísland.

Vissulega hefur þjóðin fundið að hér eru mögnuð átök. Ég er samt ekki viss um að allir geri sér grein fyrir hverjar fylkingarnar séu sem á takast.

Eins er held ég á reiki um hvað nákvæmlega orustan stendur.

Þess vegna er nú unnið að því að stilla upp fylkingum og átakaefnum. Búnir eru til óvinir og vinir. Vinir vígbúast en reynt er að afvopna hina. Gömul vinkona þjóðarinnar er kölluð heim úr stuttri útlegð.

Hún heitir Þöggun.

Hér á að vera friður. Hér á ekki að rífast heldur eiga allir að vera sammála og þá um fleira en handboltalandsliðið.

Og talandi um þá kappa. Handboltamenn eru reknir inn í sturtuklefana ef þeir eru með múður og beðnir um að  vera ekki að „tjá sig mikið um Ísland og Evrópusambandið", eins og það er orðað.

Þeir sem dirfast að vera með vesen eru að þvælast fyrir eða í órólegu deildinni.

Maður sér fyrir sér róandi lyf, spennitreyjur og raflost.

Við höfum ekkert lært og erum búin að gleyma skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Þann 14. apríl í fyrra er þetta haft eftir nefndarmönnum: 

Í viðtali Morgunblaðsins við rannsóknarnefndarmenn segir Tryggvi Gunnarsson það staðreynd að samfélagið hafi ekki veitt það aðhald sem þurfti að vera til staðar af hálfu ráðamanna, þátttakenda í viðskiptalífinu og almennings. Undir það tekur Páll Hreinsson, nefndarformaður. „Það var þessi þöggun. Það var veist að fólki. Þegar bankakerfið hefur náð stærð á við tífalda landsframleiðslu, þá er það farið að stjórna samfélaginu. Hvorki þingið né ríkisstjórnin hafði burði til að setja bönkunum skynsamleg mörk," segir hann.

Þó að ég sé fylgjandi breytingum á kvótakerfinu - og sé sammála flestu í t. d. þessum skrifum - er ég ekki sannfærður um að íslenskir útgerðarmenn séu nú um stundir helstu fjandmenn íslensku þjóðarinnar.

Og undarlegur þykir mér málstaður þeirra sem segjast berjast fyrir því að koma auðlind hafsins í eign þjóðarinnar - en vinna um leið markvisst að því að koma yfirráðum yfir þessu helsta bjargræði Íslendinga úr höndum þeirra suður til Belgíu.

Hér er ágæt og skýr greinargerð um fiskveiðistefnu ESB.

Myndin er úr fjörunni í Hvalvatnsfirði. Þar fá steinarnir að vera eins og þeir eru.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Egill Úlfarsson

Góð grein og tímabær. já frú Þöggun er nú búin að fá uppreisn æru og komin á sinn stað og það sem verra er að bróðir hennar tvískinnungur er sestur við hlið hennar. Allt sem heitir skynsemi og varfærni er gert útlægt.

Sveinn Egill Úlfarsson, 30.1.2011 kl. 18:03

2 Smámynd: Hörður Sigurðsson Diego

Góð grein. Stórkostleg mynd.

Hörður Sigurðsson Diego, 30.1.2011 kl. 23:26

3 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Svavar. Það er hverju orði sannara að það er ekki normal að vilja afhenda auðlindirnar. Lítið fer líka fyrir málfrelsinu. Meira að segja virtir menn eins og Alfreð sem kemur úr "eðalkrata fjölskyldu" má  ekki tjá sig um sína skoðun. 

 Í stuttu viðtali eins og vísað er til hjá Þórhalli er ekki hægt að fara nákvæmlega í alla hluti en eins og Alfreð benti á eru Tyrkir að koma inn og þeir eru langt á eftir öðrum i álfunni þegar kemur að mannréttindum oþh. og víst mun það hafa og hefur haft áhrif hér að allt fyllist af verkafólki.

Það sem Alfreð var að tala um að ef við gengjum inn í EU misstum við yfirráð yfir fyrirtækjum og þar með kvótanum og auðlindum öðrum og að stjórnmálamenn, sem hafa sýnt veikleika hvað varðar mútuþægni oþh, myndu kannski ekki standa sterkir gegn erlendum fjárfestum sem myndu síðan flytja inn ógn af verkamönnum.

Já undarlegt að vilja alltaf komast að borðinu  þó allir viti að eitt atkvæði segir ekki neitt og fórna þar með ákvörðunarréttiþjóðarinnar. Nei útgerðarmenn eru ekki óvinir þjóðarinnar þó þeir hafi sumir gamblað með gulleggið eins og við vitum.

Eins og sjá má af myndinni þinni er íslensk náttúra engu lík Kveðja Kolla

Kolbrún Stefánsdóttir, 31.1.2011 kl. 21:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband