3.2.2011 | 08:59
Hagsmunir og hugsjónir
Þegar því er haldið fram að á Íslandi takist á hagsmunir og hugsjónir er verið að gefa í skyn að þar sé um andstæður að ræða.
Hagsmunagæsla hefur á sér frekar neikvæðan blæ sem skerpist enn frekar þegar viðkvæðinu sér- er skeytt fram við.
Svo er stundum talað um sérhagsmunaklíkur ef mikið liggur við.
Þó er í sjálfu sér ekki neikvætt að berjast fyrir hagsmunum sínum. Hér á Íslandi höfum við alls konar hagsmunasamtök sem beita sér í þágu hagsmuna tiltekinna þjóðfélagshópa, hagsmuna síns fólks, sem yfirleitt eru þá tilteknir sérhagsmunir eða sérstakir hagsmunir þeirra sem í hlut eiga.
Öryrkjabandalagið hefur það hlutverk að standa vörð um hagsmuni öryrkja en ekki útgerðarmanna. Alþýðusambandið á að gæta hagsmuna sinna umbjóðenda en ekki tiltekinna stjórnmálaflokka.
Sama gildir um Bændasamtökin og Samtökin 78.
Hópar fela forystumönnum sínum það hlutverk að vinna að hagsmunum sínum. Við skulum taka ofan af fyrir þeim sem standa sig í stykkinu og sinna þeim skyldum sínum dyggilega og af skilningi á sérhagsmunum annarra þjóðfélagshópa.
Hagsmunir eins hóps fara ekki alltaf saman við hagsmuni fjöldans. Hagsmunir eins geta ógnað hagsmunum annarra. Komið getur til hagsmunaárekstra. Þá þarf að setjast niður og finna sanngjarnar lausnir og málamiðlanir.
Lausnin er ekki sú að banna fólki að gæta hagsmuna sinna.
Hagsmunagæsla er alls ekki endilega eitthvað neikvætt þótt hún geti orðið það eins og dæmin sanna.
Á sama hátt eru hugsjónir ekki alltaf jákvæðar.
Sagan sýnir að menn geta náð ótrúlega langt í baráttu fyrir skelfilegum og mannfjandsamlegum hugsjónum.
Hugsjónafólk hefur ekki síður orðið til bölvunar en hagsmunagæslufólk til blessunar.
Samspil hugsjóna og hagsmuna getur birst í mörgum myndum.
Mér finnst það til dæmis góð hugsjón að vilja minnka skaðlegan útblástur frá bílum. Þess vegna get ég fagnað nýlegum breytingum á bifreiðagjöldum.
Nú borga þeir mest sem menga mest.
Nýir bílar menga minna en gamlir. Þess vegna hafa þessar breytingar það í för með sér að þeir sem hafa efni á nýjum bílum fá lækkun gjalda sinna.
Einstæðu mæðurnar sem varla hafa efni á bíldruslunum sínum þurfa á hinn bóginn að taka á sig auknar álögur.
Þannig geta góðar hugsjónir bitnað á hagsmunum þeirra sem minna mega sín.
Myndin er tekin af skýjaglóp.
Athugasemdir
Ég ýtti á vilausan stað og hafnaði eftirfarandi athugasemd sem ég ætlaði að samþykkja. Ég biðst innilega afsökunar. Athugasemdin var svo hljóðandi:
"Athugasemd:
Ágætisvangaveltur um mismunandi "hagsmunagæslu"
Þannig er í raun allt afstætt og fer eftir mismunandi sýn eða huglægri mælistiku samfélags hvers tíma.
Það hefur verið sett meira göfgvi í "hugsjónir", t.d. gæti ég átt mér þá hugsjón að fleiri vöknuðu til meðvitundar um það, hverjir þeir væru í raun og veru?
Aðrir, svo einhverjar allt aðrar, sem teldust misgöfugar. -auðvitað bara spurning um merkimiða.......
Ef við göngum svo út frá því að við höfum lifað í heimi andstæðanna eða third
dimension, þar sem allt hefur verið merkt jákvætt eða neikvætt, sem eru auðvitað óendanlega teygjanleg hugtök en værum að komast að því að í raun höfum við verið algjörir - SKÝJAGLÓPAR - fram til þessa!
Settu myndirnar þínar í fallega bók á prent.
~ kær kveðja ~
Vilborg Eggertsdóttir
Svavar Alfreð Jónsson, 4.2.2011 kl. 08:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.