4.2.2011 | 16:00
Nýr samningur er þjóðinni að þakka
Verulegur hluti Sjálfstæðismanna á þingi hyggst styðja nýjan Icesave-samning.
Þá fer af stað hinn venjulegi spuni íslenskra stjórnmála. Fylkingarnar reyna að spinna úr þræðinum garn í brækur sínar sem ekki tókst að bjarga.
Annars vegar eru þeir sem segja afstöðu Sjálfstæðismannanna kúvendingu. Það var t. d. gert í Fréttablaði dagsins.
Þá kúvendingu finna menn út með því að halda því fram að samningurinn nýi sé nánast eins og sá gamli. Fyrst þeir sem höfnuðu þeim gamla styðji þann nýja hljóti að vera um algjöra breytingu á afstöðu að ræða.
Einmitt það verður trúlega næsti spuni þessarar fylkingar:
Þjóðinni verður talin trú um að enginn munur sé á gamla og nýja Icesave-samningnum. Þess vegna séu þeir blásaklausir sem hömuðust við að neyða gamla samningnum upp á þjóðina meðan lífsandinnn hökti í nösum þeirra.
Samningurinn nýi sé ekkert betri en sá gamli. Þjóðin hafi bara verið svona sérvitur.
Hins vegar er því haldið fram að landsmenn hafi hafnað öllum Icesave-samningum í þjóðaratkvæðagreiðslunni í fyrra.
Samkvæmt kjörseðli úr þeim kosningum var þar kosið um þetta:
Lög nr. 1/2010 kveða á um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innistæðueigenda frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. Alþingi samþykkti lög nr. 1/2010 en forseti synjaði þeim staðfestingar. Eiga lög nr. 1/2010 að halda gildi?" Á kjörseðli eru gefnir tveir möguleikar á svari, þ.e. Já, þau eiga að halda gildi" og Nei, þau eiga að falla úr gildi".
Skýrt var tekið fram að ef lögin yrðu felld úr gildi væri uppgjör innistæðutrygginga vegna Icesave-reikninganna óútkljáð viðfangsefni stjórnvalda á Íslandi, í Bretlandi og Hollandi.
Þjóðin hefur aldrei hafnað því að reynt verði að semja um Icesave. Í atkvæðagreiðslunni kom fram að hún sætti sig ekki við þá samninga sem fyrir lágu á þeim tíma.
Nú hefur verið reynt að útkljá þetta viðfangsefni með nýjum samningum.
Telji þingmenn þá betri og viðunandi samþykkja þeir þá og eru sjálfum sér engu að síður samkvæmir án allra kúvendinga.
Ef til vill væri samt réttast að bera þá undir þjóðina. Það er þjóðinni að þakka að nýir og betri samningar fengu að líta dagsins ljós.
Myndin er úr Krossanesborgum.
Athugasemdir
Ég vissi og líkast til flestir Íslendingar um hvað kosningarnar snérus,t enda réðum við landslíður ekki textanum. Það breytir því hinsvegar ekki að ég ásamt mörgum öðrum töldum þá og teljum en að okkur beri ekki að greiða þetta lán sem Bretar tóku hjá sjáfum sér til að bjarga eigin skinni en ætla okkur að borga. Hafi firri Icesave kröfur Breta ekki haft lagastoð, þá hafa núverandi kröfur þeirra það ekki heldur, nema kannski fyrir dómstólum götunnar í Evrópusambandinu.
Það hafa verið færð rök fyrir því að það sem Bretar kalla okkar skuld sé tilkomin vegna þeirra eigin axarskafta framleiðslu. Eftir því sem rökin gegn þeirri fullyrðingu að okkur Íslenskum almenningi beri að greiða Icesave hafa þroskast, þá hafa ríkisstjórnarflokkarnir og stuðningsmenn hennar, menntaðir og ómenntaðir sveigst til að halda því fram að þó eingin lög segi að við eigum að greiða, þá verðum við samt að borga þeim fyrir að bjarga þeirra eigin bönkum.
Sniðugt, en ef það er svoleiðis þá vitum við hvar við eigum heima, og hverjir eru nágranar okkar, en það vantar rök fyrir því hvers vegna við eigum að borga það sem okkur ekki ber. Ef það er vegna þess að við erum svo lítil og forustulaus en þeir stór og stæðileg hrekkjusvín nú þá á að segja það.
Varðandi lágkúrulega athugasemd þess efnis að þjóðin hafi aldrei hafnað því að semja um Icesave, þá er að benda á að henni hefur aldrei verið boðið uppá það, frekar en að óska eftir því.
Hrólfur Þ Hraundal, 5.2.2011 kl. 16:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.