20.2.2011 | 21:40
Dansinn kringum gullkálfinn
Dansinn kringum gullkálfinn er tákn efnishyggju, þess lífsviðhorfs að efnisgæði tryggi hamingju manna og að hún sé föl fyrir nógu mikla peninga.
Meira er þó fólgið í þessum fræga dansi.
Á það hefur verið bent að kálfsdýrkunin sé systir þeirrar nautsdýrkunar sem margar heimildir eru um í sögu trúarbragðanna.
Nautsdýrkunin fólst í aðdáun og upphafningu karllægra gilda.
Fólk tignaði styrk nautsins, árásargirni þess og hugrekki.
Sá gullkálfsdans sem við Íslendingar stigum og erum enn að stíga lýsti sér ekki einungis í dýrkun efnisgæða á dansgólfum molla og kauphalla þar sem það rétta og heilbrigða var troðið undir dansandi fótum, þessi dans var ekki bara þannig að engum væri boðið upp nema það borgaði sig og hann þekktist ekki bara á því að hann væri dansaður í takti græðginnar.
Við dönsuðum ekki bara kringum kálf heldur var nautið þar líka. Við tilbáðum það karllæga.
Sá sterki var settur í hásætið. Hugrekki var dyggð undir heitinu „áhættusækni". Harka, samkeppni og ójöfnuður urðu kennileiti samfélagsins.
Eigindin mýkt, samstarf, varkárni og tilfinningagreind þóttu ekki góð vísindi því þau voru ekki nógu karlmannleg.
Þetta er hollt að rifja upp á konudegi, þessum „sólbjarta sunnudegi" sem forsetanum varð tíðrætt um á blaðamannafundinum á Bessastöðum í dag.
Myndin: Það er að verða pínulítið vorlegt þótt enn eigi eftir að koma öflug hret.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.