23.2.2011 | 00:15
en...
Íslensk þjóðmálaumræða veldur heilabrotum
og í henni er ótalmargt sem maður skilur ekki.
Hér eru nokkur dæmi:
I
Sumarið 2004 vísaði forseti Íslands fjölmiðlalögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá var málskotsrétturinn leið til að færa valdið í hendur fólksins"...
en...
næst þegar sami forseti vísaði lögum í þjóðaratkvæðagreiðslu er forsetinn sagður athyglissjúkt ólíkindatól sem sé að fara gegn þinginu.
II
Sumarið 2004 þegar forseti Íslands vísaði fjölmiðlalögum í þjóðaratkvæðagreiðslu sagði ákveðinn maður að forsetinn væri að fara gegn þinginu"...
en...
þegar forsetinn sjö árum síðar vísaði öðrum lögum í þjóðaratkvæðagreiðslu segir sami maður að forsetinn sé að skipa sér í sveit með þjóðinni gegn nokkrum flokksforingjum" eins og það er orðað í nýlegum leiðara Morgunblaðsins.
III
Í lok ársins 2008 sagði íslenskur stjórnmálamaður það lýðræðislegan rétt kjósenda að fá að ráða því" hvort Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Í lok ársins 2009 kvaðst sami maður fullviss um að Íslendingar eigi að standa utan Evrópusambandsins"...
en...
sami maður sótti um aðild að Evrópusambandinu að þjóðinni forspurðri og beitir sér nú fyrir aðildarferli Íslands að því.
IV
Á næstsíðasta degi ársins 2010 samþykkti Alþingi Íslendinga Icesave II. Það gerðu menn með góðri samvisku". Stjórnarliðar sögðu það hafa alvarlegar afleiðingar" fyrir allt atvinnulíf landsins og fjármálakerfi ef samningnum yrði hafnað...
en...
tæpir þrír mánuðir liðu og sama fólk flutti þjóðinni þau tíðindi að kominn væri svo miklu betri samningur á borðið" að þjóðaratkvæðagreiðsla um fyrri samninginn væri hráskinnaleikur".
V
Ef ráðamenn hefðu fengið að ráða hefðu þeir samþykkt samninginn sem var verri en sá sem þó lá á borðinu. Það gerðist ekki því þjóðin tók ráðin af ráðamönnum og hafnaði verri samningnum...
en...
nú er kominn betri samningur og þá skilja sömu ráðamenn ekkert í því að þjóðin vilji fá sitt að segja um samninginn sem er henni að þakka.
VI
Hæstiréttur landsins var harðlega gagnrýndur fyrir að gera of strangar kröfur um kosningar til stjórnlagaþings...
en...
skömmu síðar fór fram heilmikil undirskriftasöfnun og þá fannst sama fólki reglurnar um hana alls ekki nógu strangar.
VII
Þeir sem eru á móti umsókn Íslands að Evrópusambandinu fá þau svör að ekki sé hægt að vera á móti einhverju sem ekki sé vitað hvernig líti út. Aðeins sé hægt að taka afstöðu til aðildar út frá samningi sem enn eigi eftir að gera...
en...
sama fólk hefur á hinn bóginn tekið þá eindregnu afstöðu að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið.
VIII
Þeir sem eru hlynntir aðild Íslands að ESB segja andstæðinga ESB fulla af þjóðrembu...
en...
sömu aðildarsinnar nefna sín samtök Já Ísland!
Myndin: Bátar í Bótinni
Athugasemdir
Vilborg Eggertsdóttir, 23.2.2011 kl. 01:14
Góður!
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.2.2011 kl. 11:43
Sæll Svavar... vel samansettur pistill og rökvís í meira lagi. Íslensk stjórnmál eru að verða eins flókin og biblían og menn túlka mál bara út og suður.
Vona bara að þjóðin nenni að skoða þetta mál og leggja faglegt mat á það. kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 23.2.2011 kl. 12:33
Góður pistill Svavar, en gerir mann hringlandi vitlausan og argan.!!!
Eyjólfur G Svavarsson, 23.2.2011 kl. 21:04
Takk fyrir þessa frábæru samantekt Svavar minn, ég er kát með að vera komin á bloggið aftur.
Inga Sæland Ástvaldsdóttir, 25.2.2011 kl. 10:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.