27.2.2011 | 23:34
Heimskra manna ráð
Árið 1932 sendi enski rithöfundurinn Aldous Huxley frá sér bókina Brave New World (Veröld ný og góð). Sautján árum síðar gaf landi hans George Orwell út bókina Nineteen Eighty-Four (1984). Báðar fjölluðu þær um þjóðfélag framtíðarinnar.
Nýlega rakst ég á skondinn samanburð á þessum bókum en spár beggja höfundanna hafa ræst, alla vega að hluta.
Þó voru þeir ósammála í rótinni.
Orwell taldi að í framtíðinni yrði fólki stjórnað af því sem það hataði.
Huxley var á hinn bóginn sannfærður um að lýðurinn myndi láta stjórnast af tilboðum um hamingju og sælu, af því sem við elskuðum.
Orwell óttaðist að í framtíðinni myndu yfirvöld aðeins leyfa bækur þeim þóknanlegar en banna aðrar.
Huxley var uggandi um að þegar fram liðu stundir þyrfti ekki að hafa fyrir því að banna neinar bækur; þeir fáu sem kynnu að lesa hefðu engan áhuga á þeim.
Orwell sá fyrir sér þá tíma er almenningur hefði ekki aðgang að nema örlitlu broti af upplýsingum. Hann hefði verið hrifinn af WikiLeaks.
Huxley óttaðist það gagnstæða, að okkur yrði svo gjörsamlega drekkt í upplýsingum að við sæjum ekki lengur muninn á þeim mikilvægu og hinum sem engu máli skipta.
Orwell var hræddur um að sannleikanum yrði haldið leyndum fyrir okkur.
Huxley spáði því að sannleikurinn hyrfi í öllum þeim skilaboðum og áreitum sem sífellt eru að berast okkur.
Ég held að Huxley hafi ekki síður verið framsýnn en Orwell.
Dag hvern, hverja klukkustund, hverja mínútu, er hellt yfir okkur þvílíku magni af upplýsingum, skilaboðum, auglýsingum, staðreyndum, fróðleik og tölum, að við höfum ekki minnstu möguleika að vinna úr því öllu.
Afleiðingin er sú að við könnumst við margt en vitum sífellt minna.
Bandaríski heimspekingurinn Harry Frankfurt er sérfræðingur í kjaftæði. Árið 2005 skrifaði hann bókina On Bullshit. Þar segir hann:
Kjaftæði er óumflýjanlegt hvenær sem aðstæður krefjast þess að einhver tali án þess að hann viti hvað hann er að tala um. (Bullshit is unavoidable whenever circumstances require someone to talk without knowing what he is talking about.)
Nákvæmlega þetta upplifir maður daglega í íslenskum fjölmiðlum - sem eiga þó hafa þann tilgang að upplýsa okkur.
Meira magn upplýsinga og betra aðgengi að þeim leiðir ekki til upplýstari þjóðar. Í Laxdæla sögu er sagt frá því er Ólafur pá villtist á sjó. Voru menn ekki á einu máli um hvert skyldi snúa stýrinu. Ólafur stóð með Erni stýrimanni þótt flestir vildu annað og mælti:
Það vil eg að þeir ráði sem hyggnari eru; því verr þykir mér sem oss muni duga heimskra manna ráð, er þau koma fleiri saman.
Mér heyrist góður samhljómur með þeim Aldous Huxley, Harry Frankfurt og Ólafi pá.
Ég vona að þessi pistill sé ekki enn ein sönnun þess að þeir hafi á réttu að standa.
Myndin er tekin í Naustaborgum.
Athugasemdir
Góður pistill takk fyrir mig.
Georg P Sveinbjörnsson, 27.2.2011 kl. 23:48
Ekki kannast ég við þessa lýsingu þína á Brave New World. Framtíðarsýn Huxleys var yfirborðsleg veröld, þar sem mannkynið var framleitt á færibandi sem glasabörn, þar sem yfirvöld ákváðu útlit og tilfinningar hvers einstaklings. Í þessu þjóðfélagi Huxleys var litið á allt sem var náttúrulegt sem eitthvað sóðalegt, ógeðslegt og hlægilegt. Það er ekkert jákvætt við þannig þjóðfélag. Og lítið betra en hið ógnvænlega þjóðfélag Orwells í 1984, Ingsoc, sem að sumra dómi líkist talsvert íslenzka Big-Brother-þjóðfélaginu í dag.
V, 28.2.2011 kl. 00:26
Skemmtilegt. Í bók Huxley er Ísland þriðji staðurinn:
úr kafla 6:
Even the thought of persecution left him undismayed, was rather tonic than depressing. He felt strong enough to meet and overcome affliction, strong enough to face even Iceland. And this confidence was the greater for his not for a moment really believing that he would be called upon to face anything at all. People simply weren't transferred for things like that. Iceland was just a threat.
Úr kafla 16
"You can't send me. I haven't done anything. lt was the others. I swear it was the others." He pointed accusingly to Helmholtz and the Savage. "Oh, please don't send me to Iceland. I promise I'll do what I ought to do. Give me another chance. Please give me another chance." The tears began to flow. "I tell you, it's their fault," he sobbed. "And not to Iceland.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 28.2.2011 kl. 14:14
Ég hef tekið eftir því, að í mörgum amerískum bíómyndum og þáttum, þá er Ísland yfirleitt staður sem fólk vill allra sízt fara til, staður sem er nánast á heimsenda og ennþá fjarlægari og einangraðri en Norður Kórea.
V, 28.2.2011 kl. 16:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.