Blessað Fréttablaðið

DSC_0152 

Í gamla daga höfðum við flokksblöð. Mogginn var íhaldskurfanna, kratarnir lásu Alþýðublaðið (og voru snöggir að því), Þjóðviljinn var borinn út til allaballa og mjólkurbíllinn ók Tímanum til framsóknarmannanna í sveitum landsins.

Stjórnmálastéttin stjórnaði fjölmiðlunum. Flokkarnir áttu blöðin og skipaði í æðstu stjórn ríkisútvarpsins.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis (Viðauka 1) er því vel lýst hvernig pólitíkusar landsins skiptu sér af störfum blaðamanna. Þar er meðal annars vitnað í fréttastjóra RÚV:

Stjórnmálamenn hringdu, hringdu strax eftir fréttir, kröfðust leiðréttingar, kröfðust þess að fá að koma að sínum sjónarmiðum. Og þeir, veit ég, beittu þáverandi fréttastjóra oftsinnis þrýstingi.

Í sömu skýrslu greinir sami fréttastjóri einnig frá því hvernig þessi afskiptaárátta færðist frá stjórnmálamönnunum yfir til fjármálageirans á árunum fyrir hrun. 

Þá voru það ekki lengur þingmenn og ráðherrar sem hringdu og hótuðu öllu illu heldur bankastjórar, auðmenn og blaðafulltrúar stórfyrirtækja.

Fyrir hrunið færðust völdin smám saman frá þingmönnum, fulltrúum fólksins, til viðskiptalífsins.

Í skýrslunni segir:

Vinnuhópur um siðferði hefur undir höndum gögn sem sýna ýmiss konar afskipti eigenda fjölmiðla af fréttum og annarri dagskrá. Fjölmiðlamenn veigra sér hins vegar við að fara út í einstök mál vegna hættu á starfsmissi eða meiðyrðamáli. Full ástæða er til að rannsaka sérstaklega samskipti eigenda fjölmiðla og fjölmiðlamanna.

Í dag las ég fjölmiðlapistil Sigurðar Einarssonar, fyrrum stjórnarformanns Kaupþings. Hann birtist í Fréttablaðinu.

Til upprifjunar:

Lesendur Fréttablaðsins borga ekkert fyrir blaðið. Samt kostar peninga að gefa það út. Það er prentað á pappír og bæði þarf að borga prenturunum og kaupa pappírinn. Blaðamennirnir sem skrifa í blaðið þurfa sitt kaup.

Fréttablaðið er kostað af mönnum sem eiga peninga. Þeir senda þér ekki þetta blað af góðmennskunni einni. Það er þeim mikils virði að þú lesir blaðið þeirra. Þess vegna eyða þeir peningunum sínum í það.

Fréttablaðið er ánægt með Sigurð Einarsson og auglýsir greinina hans á forsíðu.

Og sú ánægja er gagnkvæm.

Sigurður Einarsson kvartar sáran undan íslenskum fjölmiðlum. Þeir eru alltof grimmir.

Nema Fréttablaðið. Það er til fyrirmyndar, segir Sigurður Einarsson.

Eigendur Fréttablaðsins eru meðal þeirra sem tæmdu íslensku bankana innan frá. Til dæmis Landsbankann.

Þessa dagana nota eigendur Fréttablaðsins dágóðan hluta af hverju einasta tölublaði til að hræða íslenska þjóð til að taka á sig skuldir bankans sem þeir áttu þátt í að setja á hausinn.

Ég er ekki hissa á að margir segi nei takk.

Í fjölbýlishúsi einu hér í bæ sá ég þessi skilaboð á póstkassa:

Ekki Fréttablaðið eða annan ruslpóst.

Myndin: Framtíð Íslands er ekki síst í vistvænni orku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir pistilinn

Góða helgi

Sigríður Laufey Einarsdóttir (IP-tala skráð) 19.3.2011 kl. 09:01

2 identicon

God grein hja ther Svavar, eins og alltaf.

Bestu kvedjur

Islendingur (IP-tala skráð) 19.3.2011 kl. 09:33

3 identicon

Sæll, minn kæri.

"Lesendur Fréttablaðsins borga ekkert fyrir blaðið," segir í þinni ágætu grein. Það er ekki alveg rétt. Það er bara í stærri bæjum sem blaðið er ókeypis, aðrir þurfa að borga, aumingjarnir í "smápleisunum", eins og hér - a.m.k. síðast þegar ég gáði - eða að það einfaldlega kemur ekki þangað, er ekki í boði. Sem er auðvitað best.

Kveðja.
SÆ 

Sigurður Ægisson (IP-tala skráð) 19.3.2011 kl. 09:49

4 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Ég verð nú að segja að mér þykir Fréttablaðið miklu mun fagmannlegri fjölmiðill en til dæmis Morgunblaðið. 

Það er alveg með ólíkindum stundum ruglið sem dúkkar upp í greinum Moggans en móðursýkin og ofsóknaræðið í ritstjórapistlunum er náttúrulega sér á parti.

Munurinn á rekstri þessara tveggja blaða er sá að rekstur Fréttablaðsins þrælvirkar. Morgunblaðið var hinsvegar tekið upp og bjargað frá endalokum þess af hugsjónarástæðum (lesist áróðursástæðum) enda greinilegt að ófagmannlegri ritstjóra var ekki hægt að finna. Þú talar um Stjórnmálamenn að skipta sér af fréttaflutningi, það er nú eitt, en að setja umdeildasta stjórnmálamann Íslands beint í ritstjórastólinn ætti auðvitað að vekja mestu furðu.

Jón Gunnar Bjarkan, 19.3.2011 kl. 10:10

5 identicon

Síðasti ræðumaður segir að reksturinn á Fréttablaðinu þrælvirki - ekki hef ég tekið eftir því að upplýsingar um reksturinn á blaðinu liggi á lausu, fyrir utan þá staðreynd að reksturinn á móðurskipinu hefur farið fleiri kollhnísa en dæmi eru um. Rauðsól, Íslensk afþreying ehf, 365 miðlar, Sena, EFG ehf o.s.frv. o.s.frv. Alveg makalaust rugl bara.

Baldur (IP-tala skráð) 19.3.2011 kl. 11:15

6 Smámynd: Guðmundur Kristinn Þórðarson

Ráðning á þessum umdeilda ritsjórs svín virkar blaðið aldrei verið betra,þorir að taka á málum, er ekki tengdur útrásarvíkingum

Guðmundur Kristinn Þórðarson, 19.3.2011 kl. 13:04

7 Smámynd: Jóhann Elíasson

Takk fyrir góðan pistil.  Fólk má ekki láta "hræða" sig til óhæfuverka, að samþykkja ICES(L)AVE.

Jóhann Elíasson, 19.3.2011 kl. 16:38

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Góð og þörf ádrepa og glögg greining.  Auðvitað vilja þeir skelfa okkur lömbin til að ganga frá Isave fyrir sig til að losna við hættulegan eftirmála sem gæti falist í dómsmeðferðinni. Þar gætu spjótin loksins beinst að hinum seku og jafnvel komið þeim í tukthúsið.

Um þetta snýst jú spuninn allur þar á bæ. Samfylkingin vil hinsvegar taka þennan óutfyllta víxil til að komast í ESB. Allar hennar orð og gerðir snúast um það eitt og hafa gert frá byrjun.  Það eina sem auðrónarnir eiga skuldlaust er Samfylkingin sjálf.

Jón Steinar Ragnarsson, 20.3.2011 kl. 00:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband