2.4.2011 | 01:26
Munur á 2007 og 2011?
Ein helsta niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis var sú að íslensku bönkunum hafi ekki verið hægt að bjarga eftir árið 2006.
Um tíu ára skeið var Bjarni Ármannsson forstjóri Glitnis. Þegar hann lét af störfum árið 2007 var skrifað:
Í raun má segja að Bjarni sé einn af bestu sonum hins endurfædda íslenska fjármálageira, elskaður og dáður af flestum fyrir sína fáguðu og yfirlætislausu framgöngu.
Í fyrra komst í fréttir hér á landi að Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, væri eftirlýstur af Interpol og gefin yrði út alþjóðleg handtökuskipun á hendur honum. Í sömu fréttum kom fram að meðal þeirra æðstu stjórnenda bankans sem handteknir hefðu verið væri Hreiðar Már Sigurðsson. Kaupþing er í sérstakri rannsókn breskra fjármálaglæpalögreglu.
Árið 2007 var skrifað um þá Sigurð og Hreiðar Má:
Þó eflaust verði ég hjáróma rödd í þeim umræðum sem vafalaust munu nú gjósa upp um kaupréttarsamninga Hreiðars Más og Sigurðar hjá Kaupþingi, þá má ég til með að nota þetta tækifæri og óska þeim félögum til hamingju - bæði með hagnaðinn af kaupréttarsamningunum en ekki síður með þann frábæra árangur sem þeir hafa náð í uppbyggingu Kaupþings. Það er ekki lítils viðri fyrir Ísland, bæði efnahagslega og samfélagslega að slíkir afreksmenn í viðskiptum finni sér starfsvettang í íslensku atvinnulífi. Á örfáum árum hefur þeim tekist að breyta stöðnuðum og gamaldags banka og sjóðum úr ranni ríkisins í eithvert öflugasta viðskiptaveldi íslensks viðskiptalífs, viðskiptaveldi sem malar gull fyrir íslenskt samfélag.
Þessa dagana er tekist á um Icesave-reikninga Landsbankans. Árið 2007 var þetta skrifað um þá Björgólfsfeðga:
Það er ekki að spyrja að stórhug Björgólfs Thors - 600 milljónir í borgarsjóð og aðrar 200 til að endurbæta eitt fegursta hús miðbæjarins og glæða það lífi. Ekki síður finnst mér það vel til fundið að ætla húsinu það hlutverk að halda á lofti minningu og ævintýralegum ferli langafa Björgólfs, Thors Jensen en fá athafnaskáld íslensk hafa átt ævintýralegri feril í viðskiptum, nema ef vera skildu þeir feðgar, Björgóflur Thor og Björgólfur Guðmundsson.
Og sama ár var þetta skrifað:
Þegar haft er í huga að íslensku útrásarfyrirtækin standa andspænis stofnanavæddu "nýlenduskipulagi" bresks efnahagslífs er maður ekki undrandi á að "íslenski stjórnunarstíllinn" nái yfirhöndinni. Þessari staðreynd eru æ fleiri að átta sig á og þess vegna sækjast æ fleiri eftir samvinnu og viðskiptum við íslensku útrásarfyrirtækin. "Íslenski stjórnunarstíllinn" nýtur orðið trausts og vinsælda og mun sjálfsagt komast í tísku áður en langt um líður. Það má því með góðu móti halda því fram að nýjasta og mikilvægasta útflutningsvara okkar Íslendinga sé stjórnunarþekking.
Nú er komið 2011 og okkur er sagt að verið sé að endurreisa Ísland eftir hrun bankanna og hörmungar útrásarinnar.
Sá sem árið 2007 skrifaði allar ofangreindar útlistanir á ágæti íslenskra bankamanna og snilld útrásar er meðal þeirra sem árið 2009 hafa forystu í því verkefni að taka til eftir hrun sömu banka og hörmungar sömu útrásar.
Það er kannski ekki nema von að sumum finnist seint ganga?
Þjóðin upplifir 2007 nánast á hverjum degi. Hér er ein slík frétt sem maður vonaði að væri aprílgabb en er það sennilega ekki.
Um mitt ár 2006 skrifuðu tveir háskólaprófessorar skýrslu um stöðu íslenska fjármálakerfisins. Hér eru örfáar tilvitnanir í niðurstöður fræðimannanna:
In the last chapter we asked the question whether Iceland was going down traditional routes to financial crisis. The answer is definitely no....
Our assessment of Iceland's economy is that the fundamentals are, in general, quite strong.....
The analysis in this study suggests that although Iceland's economy does have imbalances that will eventually be reversed, financial fragility is not high and the likelihood of a financial meltdown is very low.
Ég endurtek: Samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var ekki hægt að bjarga bönkunum eftir 2006, sama ár og fræðimennirnir gáfu sömu bönkum gæðastimpilinn.
Rúm tvö ár liðu frá útkomu skýrslunnar og þá voru 90% íslenska bankakerfisins hrunin.
Skömmu síðar var annar höfundanna gerður að sérlegum efnahagsráðgjafa stjórnvalda og síðan kosinn á þing.
Þar hefur þingmaðurinn þá köllun helsta nú um stundir að sannfæra þjóðina um að hún verði að borga skuldir eins þeirra gjaldþrota banka sem hann tók þátt í að mæra skömmu áður en bankarnir allir fóru á hvínandi hausinn.
Svo eru menn hissa á því að þjóðin sé ennþá reið. Reiðin er sögð stafa af annarlegum hvötum. Sumir vilja banna hana.
En reiðin er skiljanleg og hún hverfur ekki fyrr en með ranglætinu og spillingunni.
Reið erum við vegna þess að við sjáum ekki allan muninn á árunum 2007 og 2011.
Myndin er af einum götukrummanna.
Athugasemdir
Flott hjá þér minn kæri!
Allar tilfinningar okkar eiga fullan rétta á sér, - no mattar what!
Reiðin getur verið bæði holl og góð, hún getur verið sá drifkraftur sem knýr okkur áfram.
Erum við ekki búin að fá nóg? - ef svo er þá erum við líka tilbúin til að breyta þessu samfélagi okkar.
- en hvernig var annars sagan um skulduga þjóninn? Hvað gerði hann eftir að hafa fengið allar sínar skuldir afskrifaðar?? :o)) Minnir dálítið á gömlu og nýju bankana.
~ kær kveðja ~
Vilborg Eggertsdóttir, 2.4.2011 kl. 02:48
Alltaf ertu flottur. Haltu áfram á sömu braut, að tala sannleikann og gera það á mannamáli.
Sigurður Ægisson (IP-tala skráð) 2.4.2011 kl. 20:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.