28.4.2011 | 23:54
Þjóðremba og þakklæti
Nú árar vel fyrir neikvæðnina og skapast hafa kjöraðstæður fyrir niðurrif.
Íslendingar eru ómögulegir. Þeir gera ekkert rétt og allt vitlaust. Landið er vonlaust. Þjóðin er siðlaus. Stjórnmálastéttin gjörspillt. Alþingi vanhæft. Dómstólar ekki marktækir. Fjömiðlarnir ekki á vetur setjandi.
Íslendingar eru upp til hópa heimóttarlegir einangrunarsinnar sem er í nöp við útlendinga.
Í gamla daga voru helvítisprédikanir notaðar til að hotta fólki inn í guðsríkið.
Nú brúka menn sömu ræðurnar til að reka þjóðina í Evrópusambandið. Og kalla það upplýsta umræðu".
Þegar síðasti lífskjaralisti Sameinuðu þjóðanna birtist var því slegið upp að Ísland hefði dottið þar niður um heil fjórtán sæti.
Aumingja við.
Minna fór fyrir þeirri staðreynd að þrátt fyrir efnahagshrun er Ísland enn í sautjánda sæti á þessum lista. Belgía, Spánn og Danmörk eru t. d. í næstu sætum fyrir neðan okkur.
Reyndar eru meira en 150 lönd neðar en við á þessum lista.
Þjóðremba felst í því að telja sér það til ágætis að vera af ákveðnu þjóðerni. Það eitt og sér geri mann jafnvel öðrum fremri.
Hér á landi tíðkast héraðshroki og um hann má finna mörg dæmi.
Sama máli gegnir um ættardrambið en á Íslandi og víðar hefur löngum verið til siðs að telja sumar ættir merkilegri en aðrar.
Þjóðremban er héraðshroki og ættardramb í örlítið víðtækari mynd.
Héraðshroka fyrirbyggjum við ekki með því að útmála eins og hægt er alla hugsanlega galla heimaslóða fyrir íbúunum.
Ættardramb verður heldur ekki læknað með því að sverta helstu ættfeður og formæður á ættarmótum.
Þvert á móti: Hroki, dramb og remba eru gjarnan fylgifiskar vanmetakenndar.
Það er engin þjóðremba að gera sér grein fyrir því að Ísland er gott og fallegt land.
Annað væri vanþakklæti.
Hér hefur tekist að byggja upp öflugt velferðarkerfi sem er þess virði að það sé varið með kjafti og klóm.
Við erum lánsöm þjóð. Okkur er ótalmargt gefið sem við megum þiggja í auðmýkt og þakklæti.
Myndin: Vorflug yfir Krossanesborgum.
Athugasemdir
Þetta er alveg hárrétt hjá þér Svavar.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.4.2011 kl. 11:41
Mikið djöfull góður pistill ... loksins
Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 29.4.2011 kl. 15:09
Sæll Svavar. Þetta er einn af betri pistlunum sem ég hef lesið. Fólk virðist oft vera að rugla þjóðernishroka saman við ást á landi og þjóð. Þó mér finnist við oft öfgafull og jafnvel hrokafull þá er það rétt að við búum við gott félagskerfi sem þarf reyndar að uppfæra aðeins núna.
kveðja Kolla
Kolbrún Stefánsdóttir, 1.5.2011 kl. 20:40
Góður pistill Svavar - takk fyrir. Við þurfum að minna okkur og alla í kring um okkur á það hvað við erum í raun gæfusamt fólk. Þótt margt megi betur fara þá höfum við burðina til að byggja hið fullkomna þjóðfélag.
Dagný, 2.5.2011 kl. 14:12
Ég fæ ekki betur séð á umræðunni um ESB að við sem teljum Íslandi best borgið í ESB séum kallaðir landráðamenn, lygarar og aumingjar.
Þú getur ekki sagt að þeir sem vilja ganga í ESB eru að gera lítið úr sögunni. Stundum verður að taka stöðutékk. Það er ekki hægt að horfa á sjálfstæðisbaráttu Íslendinga fyrr á öldum og setja samasemmerki við andstöðu við ESB.
Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 3.5.2011 kl. 07:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.