2.6.2011 | 12:09
Gjaldþrota stjórnmálaflokkar
Ræða Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, sem hún flutti á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar 29. maí síðastliðinn, hefur vakið athygli.
Ekki síst hefur mönnum orðið tíðrætt um þennan kafla ræðunnar:
Breytt skipulag, nýtt nafn, ný forysta eða annað á ekki að standa í vegi fyrir því að þessi mikilvægu málefni fái kröftugan framgang og jafnaðarmenn í öllum flokkum geti sameinast á öflugum flokksvettvangi. Í þessum efnum má ekki standa á okkur í Samfylkingunni.
Þarna býður Jóhanna upp á að stofna nýjan flokk með nýrri forystu fyrir þau sem eiga sér sameiginlegar hugsjónir.
Og leggja niður eigin flokk í núverandi mynd.
Þetta tilboð getur haft tvær hliðar eins og flest annað.
Annars vegar geta menn litið á þetta sem gamla kennitöluflakkstrixið: Fyrirtækið er farið á hausinn, við stofnum nýtt og skiljum skuldirnar eftir í því gamla.
Samfylkingin er líka á vissan hátt gjaldþrota stjórnmálaafl. Hún var í ríkisstjórninni sem var á vaktinni þegar allt fór á hausinn. Síðan þá hafa forystumenn Samfylkingarinnar keppst við að sverja það af sér og bent á hinn flokkinn í ríkisstjórninni.
Vissulega ber Sjálfstæðisflokkurinn sína ábyrgð og ekki minni en Samfylkingin og þar er ekki síður þörf á að gaumgæfa gjaldþrota hugmyndafræði og starfshætti en hjá krötunum.
Samfylkingin getur samt ekki lýst sig saklausa. Flokkurinn fór með forræði í málefnum bankanna sem hrundu eins og spilaborgir og Jóhanna sjálf átti sæti í sérstakri ráðherranefnd um ríkisfjármál, ásamt þeim Geir Haarde, Árna Mathiesen og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, svo nokkuð sé nefnt.
Er Jóhanna að stinga upp á að stofna nýjan stjórnmálaflokk til að geta skilið gömlu syndirnar eftir í gömlu Samfylkingunni?
Hins vegar er hægt dást að þessu tilboði Jóhönnu og færa fyrir því rök að með þeim sýni hún aðdáunarverðan pólitískan þroska.
Stjórnmálaflokkar eru eins og önnur kerfi sem manneskjan býr sér til. Kerfin eru smíðuð utan um ákveðnar þarfir og eiga að þjóna þeim.
Síðan gerist það oft - sennilega oftast - að kerfin hætta að þjóna þessum þörfum mannsins en fara snúast um sig sjálf. Þeirra eina markmið verður að viðhalda sér sjálfum.
Þannig þróast gjarnan öll kerfi, hvort sem um er að ræða stjórnmálaflokka, þrýstihópa, grasrótarhreyfingar, líknarfélög eða kirkjur.
Þá er um tvennt að ræða: Annað hvort er reynt að stíga af kúplingunni og koma þörfunum aftur í tengsl við kerfið eða menn búa sér til ný kerfi.
Vaki það fyrir Jóhönnu óska ég henna góðs gengis í því verkefni. Þótt ég sé mjög efins um að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið deili ég með henni mörgum hugsjónum.
Íslenska flokkakerfið þarfnast endurskoðunar og um stjórnmálaflokkana á að gilda reglan sem siðbótarmennirnir settu kirkjunni: Ecclesia semper reformanda est."
Öll mannanna kerfi þarfnast stöðugrar siðbótar og endurmats.
Myndin er af bullandi leirhver í Námaskarði.
Athugasemdir
Mig langar til að gera nokkrar athugasemdir. 1. Jóhanna veit eins og flestir reyndar að jafnaðarmenn er ekki eingöngu að finna innan Samfylkingar. Þeir eru í VG, Framsókn, Hreyfingunni og Sjálfstæðisflokknum. Jóhanna horfir til þess að Evrópumálin eru eitt stærsta málið sem þjóðin þarf að taka afstöðu til. Hún er að hvetja til þess að aðildarsinnar fylki sér um einn flokk. Á því má hafa mismunandi skoðanir að sjálfsögðu. Þetta hefur hins vegar ekkert með gjaldþrot eða kennitöluflakk að gera. 2. Hrunið kom ekki einsog þruma úr heiðskíru lofti. Það á sér aðdraganda. Sá aðdragandi er langt valdaskeið Sjálfstæðisflokksins með Framsókn(aðallega).Bankarnir voru einkavæddir og markaðsöflunum var gefirð frítt spil. Árið 2006 var hrun bankanna og gjaldmiðils fyrirsjáanlegt og óhjákvæmilegt. Hægt var að gera skaðann eins lítill og mögulegt væri en það var ekki gert.Það er hafið yfir allan efa að höfuðábyrgð -pólitískt séð- er hjá Sjálfstæðisflokknum. Að sjálfsögðu bera Framsókn og Samfylking einnig ábyrgð. VG kom hins vegar hvergi nærri. 3. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis kom greinilega fram að þáverandi ráðherra bankamála, Björgvini Sigurðssyni, var haldið utan við alla ákvarðanatöku í hruninu. Geir Haarde hefur nú verið ákærður fyrir landsdómi. Opnuð hefur verið sérstök vefsíða sem sýnir allar upplýsingar um málið. Að mínu mati er það afar óheppilegt að geir skuli sitja einn á sakamannabekk. Alþingi bar að fara að tillögum Rannsóknarnefndar. Það sama gildir um Seðlabankastjórana.
Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 2.6.2011 kl. 12:54
Fyrirtæki lenda stundum í vandræðum. Auðveldasta og reyndar vinsælasta lausnin er að skipta um kennitölu, skilja vændræðin eftir og byrja frá "grunni".
Staðreyndin er að flestir sem nýta þessa aðferð lenda fljótlega í vandræðum aftur.
Þeir sem hins vegar ákveða að halda fyrirtækinu gangandi á sömu kennitölu, leitar róta vandans og lagar hann, eru oftast mun sterkari á eftir. Þessi aðferð er vissulega sársaukafull og erfið, en hún skilar árangri.
Hví skyldi þetta ekki einnig eiga við um stjórnmálaflokkana? Hví ætti það að vera réttara að leggja niður flokka og stofna aðra með sama fólki og sömu stefnu? Er ekki betra að flokkarnir skoði hvað er að hjá sér? Er það fólkið sem er í forsvari, er það stefnan eða kannski svolítið af báðu?
Þeir flokkar sem þora að fara þá leið og ganga hana til fulls verða sterkari á eftir.
Gunnar Heiðarsson, 2.6.2011 kl. 13:05
Sammála. Hrunið átti sér aðdraganda. Fróðlegt er að kynna sér söguna um einkavæðingu bankanna. Árið 1989 hafði einn þingmaður Samfylkingarinnar og nú forseti Alþingis þetta að segja um dreifða eignaraðild:
„Það held ég að verði mjög erfitt og nánast ekki hægt. Verðbréfamarkaðurinn á Íslandi er frjáls og tilraunir til að tryggja dreifða eignaraðild eða aðrar hömlur í þá veru myndu leiða til þess, að hlutur ríkisins, það er almennings í fjármálafyrirtækjum eins og til dæmis Fjárfestingarbanka atvinnulífsins myndi lækka stórlega í verði.”
Og sama ár var haft eftir leiðtoga jafnaðarmanna:
„Ég hef ekki trú á því, að gerlegt sé að setja lög til að tryggja dreifða eignaraðild, sem halda þegar fram í sækir."
Þetta og ýmislegt fleira má lesa hér: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1942573
Svavar Alfreð Jónsson, 2.6.2011 kl. 13:12
Með fullri virðingu fyrir leiðurum Morgunblaðsins þá er ljóst að enginn sagnfræðingur myndi halda því fram að þeir séu áreiðanleg söguleg heimild. Það mætti skrifa langt mál um einkavæðingu bankanna(og reyndar um einkavæðingu fjölmargra einkafyrirtækja áður) en ljóst er að lokaákvarðanir voru teknar af þröngum hópi ráðamanna í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Þeirra er ábyrgðin. Það sem síðar gerist er á ábyrgð stjórnenda bankanna, eigenda þeirra og eigenda/stjórnenda nokkurra lykilfyrirtækja í ísslensku viðskiptalífi. þessir menn sæta nú allir rannsókn Sérstaks saksóknara..
Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 2.6.2011 kl. 13:38
Ertu að meina að leiðarahöfundar Morgunblaðsins hafi falsað ofangreindar tilvitnanir í forystumenn jafnaðarmanna? Ekki ætla ég að gera lítið úr ábyrgð D og B en jafnaðarmenn bera líka sína ábyrgð í ljósi ofangreindra ummæla forystumanna þeirra, séu þau ófölsuð.
Svavar Alfreð Jónsson, 2.6.2011 kl. 14:08
Auðvitað er leiðarahöfundurinn ekki að falsa. Ég vona að þér sé það ljóst. Hins vegar vísar þú í heimild sem reynist vera leiðari Morgunblaðsins. Ég geri ráð fyrir að umræddir þingmenn hafi látið þessi orð falla á Alþingi og þess vegna væri eðlilegt að vísa í þingræður og skjöl. það er frumheimild. Ábyrgð er alfarið á hendi D og B. Þeir tóku ákvörðun. Það skiptir engu í þessu sambandi hvaða skoðanir þingmenn annarra flokka höfðu. Þeir höfðu ekki valdið og tóku engar ákvarðanir.
Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 2.6.2011 kl. 14:43
Í leiðaranum er vísað í blaðaviðtöl. Auðvitað skipta skoðanir þingmanna máli hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.
Svavar Alfreð Jónsson, 2.6.2011 kl. 19:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.