Hið kerfisbundna taumleysi

Flateyjardalur 010

Daginn út og inn er verið að útmála fyrir okkur það sem við þurfum. Það er ekkert smáræði. Nauðsynlegt er að rækta með okkur sterka þarfatilfinningu til þess að gera okkur að duglegum neytendum og ala okkur upp sem kaupendur.

Sífellt þarf að örva neysluna í samfélaginu. Það er forsenda þess að hagkerfið gangi upp. Því meira sem við teljum okkur þurfa, þeim mun meiri peningum eyðum við og það eru góðar fréttir fyrir hagvöxtinn.

Samkvæmt neyslutrú samtímans þarf maðurinn mikið. Í þeirri menningu sem hefur mótað okkur er hófsemi hallærisleg og gamaldags - auk þess að virka hamlandi á hagvöxtinn. Og hér eru ekki einungis einhverjar siðaprédikanir á ferðinni. Óhófið er til umfjöllunar í hinni vönduðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis en þar segir á einum stað:

Skortur á hófsemi og ráðdeild í íslensku samfélagi, ásamt með ógagnrýninni sjálfsánægju meðal þjóðarinnar, bjuggu á sinn hátt í haginn fyrir þá atburðarás sem hér varð í bankahruninu.

Öll kerfi eru til þess að mæta mannlegum þörfum. Mjög oft hætta þau að snúast um manninn en hafa engan annan tilgang en að viðhalda sér sjálfum. Hagkerfi sem byggist á hófleysi og græðgi er ekki í þágu mannsins. Þar er maðurinn þvert á móti til fyrir kerfið. Hann verður þræll þess. Kerfið krefst sífelldrar neysluaukningar. Nú þegar sjáum við ýmis merki þess að vistkerfið þoli ekki þessar lífshætti okkar.

Maðurinn hefur gengið freklega á auðlindir jarðarinnar til að viðhalda þessu kerfi græðgi og taumleysis.

Til þess að breyta því, til þess að snúa við þróuninni, er ekki nóg að breyta lögum og reglum eða grípa til tæknilegra aðgerða. Við þurfum að horfa inn á við. Mestu og sönnustu byltingarnar í veraldarsögunni byrja þar. Hjá mér og þér.

Myndin er úr Flateyjardal.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband