Til hvers allar þessar kirkjur?

Ingjadshóll (6) 

Maður skilur þá útlendu ferðamenn sem á ferðum sínum um landið velta því fyrir sér til hvers allar þessar kirkjur séu. Þeir vita að á Íslandi býr alveg ótrúlega fátt fólk; íbúafjöldinn á öllu landinu er eins og í smáborg í heimalöndum þessara erlendu ferðamanna. Sumstaðar á landinu býr varla nokkur lifandi maður en samt er þar snotur kirkjan, eins og ekkert hafi í skorist, jafnvel nýmáluð.

Það er undarlegt að koma inn í margar af þessum kirkjum. Þær eru örsmáar. Rúma kannski ekki nema örfáa tugi. Manni finnst að varla hafi tekið því að byggja þær. Um þær eru gjarnan talað óvirðulega. Þær séu ekki til neins. Standi tómar. Hafi engan tilgang lengur.

Stundum er því haldið fram að Íslendingar séu ekki lengur kristnir. Þeir hafi tamið sér önnur trúarbrögð - eða þá gefist upp á Guði og gengið trúleysinu á hönd.

Sé það rétt hafa kirkjurnar varla nokkurt trúarlegt gildi lengur. Þá eru þær einungis hluti af sögunni. Arfur þess liðna. Einskonar söfn. Fólk umgengst kirkjurnar líka oft þannig. Kemur í þær til að skoða og er í sjálfu sér ekkert athugavert við það. Margar kirkjur anga hreinlega af sögu. Margar eru fögur dæmi um byggingalist. Margar eiga fagra listgripi.

Kirkjur eru vinsælar meðal ferðafólks og þrátt fyrir allt sem sagt er um hnignun trúar og kristindóms hafa kirkjur ennþá það hlutverk að vera bænahús. Þær eru afdrep. Skjól. Þeir sem leita þangað inn hafa á vissan hátt yfirgefið þennan venjulega veruleika og horfið inn í annan.

Við þekkjum þetta af okkur sjálfum þegar við erum í útlöndum. Þá komum við gjarnan í kirkjur. Helgir staðir, tilbeiðslustaðir, hafa aðdráttarafl, og þá skiptir ekki höfuðmáli hverrar trúar fólk er. Og við finnum að það er eitthvað öðruvísi við andrúmsloftið á þessum stöðum. Kirkjurnar í útlöndum eru margar risastórar. Þær fylla mann lotningu og jafnvel óttablandinni virðingu.

Bænahús heimsins segja okkur ákveðna sögu. Þau eru reist til að mæta ákveðnum þörfum mannsins. Þau lýsa eiginleikum mannsins og eðli. Maðurinn biður. Hann leitar út fyrir sig. Hann leitar þess sem er æðra og meira en hann. Hann á sér staði sem eru tileinkaðir þessari leit mannsins og þessari áráttu hans að biðja.

Á hverjum einasta degi streymir fólk til slíkra staða vítt og breitt um veröldina. Það segir okkur að maður sé andleg vera. Hann hefur andlegar þarfir. Kannski er maðurinn er aldrei meiri manneskja en þegar hann sinnir þeim?

Þess vegna eru bænahús um veröld víða, hvert með sínu sniði. Alls staðar er manneskjan að reyna að gangast við sér sjálfri.

Þess vegna höfum við kirkjur og helgidóma.

Myndin er af kirkjunni á Ingjaldshóli á Snæfellsnesi. Hún mun vera fyrsta steinsteypta kirkja heimsins, hvorki meira né minna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það var ekki neinn friður fyrir ykkur prestunum, útrásarhoppogskopp er nú einnig að hverfa; Ekki vera síðasta Krissaeðlan Svavar minn; Kastaðu kufli þínum og gakk inn í raunveruleikann.

DoctorE (IP-tala skráð) 4.7.2011 kl. 07:49

2 identicon

Sæll Svavar, ég kom einu sinni inn í kirkju í New Mexico þar sem ég var á ferðalagi með foreldrum mínum. Ég held að þetta hafi verið kaþólikka kirkja gömul og margir ferðamenn komu til að sjá hana en einnig voru þarna innfæddir á bæn og voru að kveikja á kertum. Einhversstaðar stóð silencio minnir mig, allavega vissum við að það ætti að vera ekki með skarkala. Pabbi lætur svolítið hátt rómur og var nýbúinn að hitta gamlan vin sinn sem heitir Guðni og var að vestan eins og pabbi. Við settums og þeir fóru að spjalla saman um gamla daga og sjóinn. Við létum þá vita að það yrði að vera þögn. Þá segir pabbi við Guðna, "Það á víst að vera þögn hérna." Með ansi háum róm, Já það er víst svarar Guðni ekki lægri röddu. Áður en við vissum af, þá voru komnar tvær nunnur sem fylgdu þeim út úr kirkjunni.

Okkur þótti þetta svolítið skondið að þeim skyldi takast að láta henda sér út úr Kirkju og það í fjarlægu landi.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 4.7.2011 kl. 20:27

3 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Góður Svavar...Ég hef undanfarið látið það pirra mig svolítið þegar ég sé kirkjur sem standa hátt uppi og gnæfa yfir tilheyrandi pláss. Ingjaldshólskirkja, elsta steinkirkja landsins, er ein þeirra þó hún, eins og menn vita standi ein og sér á milli Hellissands og Rifs. Hún sést langt að. Þannig vildu menn hafa það áður fyrr og lögðu þannig áherslu á yfirgnæfandi vald kirkjunnar. Sjá má á þessari mynd að safnaðarheimilið er fellt inn í hólinn til að spilla ekki ímynd kirkjunnar. Það hefur ekki fengist leyfi til að hafa það "jafnfætis" kirkjunni. Ég hef líka verið í barnalegri uppreisn og neitað að standa á fætur við athafnir sem eru til þess eins að sýna kirkjunni virðing þar sem hálfur salurinn veit ekki af hverju þeir eru að rísa á fætur,,, nema jú presturinn skipar svo fyrir. Ég var í Helsingi í fyrra og skoðaði Maríukirkjuna ( Russneska rétttrúnaðar eða eitthvað þessháttar ) og tók ekki af mér húfuna. Þá kom kuflklæddur klerkur og skipaði mér að taka ofan... ég setti upp svip og gekk út :) Mér finnst þessi merkilegheit í regluverki orðin ofboðslega gamaldags.... verð að segja það..en auðvitað leitar fólk leiða til að fá frið í hjarta sitt og hvergi er ró eins og í kaþólskum kirkjum. Sjálf hef ég beðist fyrir í Péturskirkjunni í Róm um úrlausn máls. Klukkutíma seinna var hringt í mig og mér tjáð að málið hefði farið mun betur en ég hafði vonað. Mér fannst "Guð" hafa hringt í mig en það var reyndar bara lögmaður sem fylgdist með málinu :) Allt gott um það ;) en hverju breytir ein húfa fyrir helgidóminn eða hvort maður situr eða stendur? ha Kveðja Kolla

Kolbrún Stefánsdóttir, 6.7.2011 kl. 00:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband