10.7.2011 | 00:22
Gestgjafinn og Jónas
Biðstofur eru þannig nefndar vegna þess að þar bíður fólk. Nýlega reyndi ég það á eigin skinni. Á borðinu fyrir framan mig var stafli af eldgömlum blöðum. Ég hafði lesið mig langt niður í hann og var kominn aftur á síðasta árþúsund þegar bið minni lauk.
Meðal annars fletti ég snjáðum, fingrafitugum og lítt kræsilegum Gestgjafa. Gaman var að lesa úr hverju menn voru að elda á síðasta áratug aldarinnar. Nú tíðkast töluvert öðruvísi matur.
Nýlega átti ég líka dvöl í orlofshúsi sem var álíka róleg og á biðstofunni en ólíkt ánægjulegri. Í bókasafni hússins fann ég bókina Lífsviðhorf mitt sem út kom í Reykjavík árið 1991. Þar eru viðtöl við átta landsþekkta Íslendinga um mótun þeirra og lífsgildi.
Einn þeirra þekktu manna er Jónas Kristjánsson sem á sínum tíma ritstýrði víðlesnum dagblöðum.
Nú ritstýrir Jónas sjálfum sér í vinsælu bloggi sem margir vitna í og læka á feisinu.
Jónas hefur miklar og sterkar skoðanir á efnahagshruninu. Vandar hann hvorki frjálshyggjupostulum né gróðapungum kveðjurnar og telur þá bera mikla ábyrgð á því hvernig fór.
Í viðtalinu segir Jónas Kvennalistann af hinu góða. Hann sinni mjúkum gildum. Þó vanti karlalista sem leggi áherslu á hörð gildi eða eins og ritstjórinn þáverandi orðaði það:
Flokkur hinna hörðu gilda ætti að stefna að strangri markaðshyggju og gróðahyggju með miskunnarlausu úrvali fyrirtækja, sem hafi næga rekstrarlega þjálfun til að standast samkeppni við umheiminn, meira eða minna frjáls af fjötrum embættis- og stjórnmálamanna. Flokkur hinna hörðu gilda á að geta sagt með töluverðum rétti, að afrakstur hans aðferða sé meðal annars besta leiðin til að kosta hin mjúku gildi á þann hátt, að atvinnulífið sé ekki þess vegna reyrt í viðjar skattheimtu, reglugerða og kvóta.
Jónasi varð að ósk sinni. Um þetta leyti varð gróðahyggjan alls ráðandi á Íslandi og græðgisvæðing þess hófst. Atvinnulífið var leyst úr viðjum skattheimtu og reglugerða og "frelsað úr fjötrum embættismanna" eins og hægt er að nefna eftirlitsleysið sem smám saman varð ríkjandi.
Sú þróun varð meðal annars vegna skrifa og áhrifa talsmanna hinna hörðu gilda.
Þegar gróðapungar karlalistans hans Jónasar höfðu siglt þjóðarskútunni í strand byrjaði hann að blogga um strandið.
Kveður þar óneitanlega við annan tón en í viðtalinu og svo sannarlega breytist fleira í þessum heimi en mataruppskriftir Gestgjafans.
Myndina tók ég á föstudagskvöldið við Þingvallavatn.
Athugasemdir
Nei Jónasi varð ekki að ósk sinni, því þessur aular sem settu ísland á kaldan klaka voru kaldrifjaðir peningaplokkarar en ekki fjármálamenn.. menn sem soguðu út innviði traustra fyrirtækja til þess eins að komast yfir hagnaðinn sem síðan var fluttur til tortóla.. Jónas er að tala um alvöru bissness karla í svipuðum dúr og Kjell Inge Rökke og Hagen í noregi sem er harður bissnesskarlar en ekki ótíndir glæpamenn eins og hrunastjórnin hans Davíðs Oddsonar kom til valda í bönkunum. Það kom talsvert á óvart að sjá hvernig þú lest út úr þessum orðum Jónasar..
Óskar Þorkelsson, 10.7.2011 kl. 07:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.