Áfram Þýskaland!

DSC_0587 

Að þessu sinni er sumarfrísbókin mín Germania eftir breska rithöfundinn Simon Winder.

Hún fjallar um Þýskaland og Þjóðverja og er framúrskarandi skemmtileg. Gagnrýnandi Sunday Times sagðist hafa hlegið svo mikið undir lestri hennar að konan hans hafi ekki getað sofið.

Þegar Þýskaland ber á góma er hlátur ef til vill ekki það fyrsta sem manni dettur í hug. Þessi bók sýnir að vel er hægt að skrifa fyndna bók um Þjóðverja. Auk þess er hún fræðandi og skrifuð af mikilli elsku til efnisins. Betri meðmæli með bók er varla hægt að hugsa sér.

Sumir elska Breta og eru anglófíl. Aðrir kunna vel að Frakkland og eru frankófíl. Ég þekki marga ítalófíla sem dá allt ítalskt. Sjálfur er ég mjög svag fyrir hinni dásamlegu Ítalíu. Þar er svo sannarlega gott að dvelja, borða góða matinn og  drekka rauðvínið, söguna og menninguna.

Germanófílar eru á hinn bóginn fremur fágætir en ég er einn þeirra og er enn staðfastari eftir lestur ofangreindrar bókar. Mér finnst Þýskaland frábært. Hvergi finnst mér betra að vera ferðamaður en þar enda eru ferðir mínar þangað orðnar ótalmargar.

Ég elska snitsel, bratvúrst, súrkál, bratkartoffeln, bjór, móselvín, spergil og súkkulaðileyndarmálið hennar ömmu.

Ótalmargt annað mætti nefna sem er aðlaðandi við Þýskaland og þýska þjóð. Eitt af því er einlæg lýðræðisást en Þjóðverjar þekkja vel hvernig er að búa í samfélagi þar sem lýðræðið ríkir ekki.

Mjög gott er að vera Íslendingur í Þýskalandi en auk þess að hafa ferðast um landið hef ég tvisvar búið í því. Ég efast um að Íslendingar eigi betri vini en Þjóðverja.

Ég mæli með Germania eftir Simon Winder.

Þjóðin sem bókin fjallar um fær ennfremur mín bestu meðmæli.

Myndin er af fossi í Lögmannshlíðinni. Hana tók ég fyrr í kvöld. Í haust fer ég til Þýskalands með fossana mína og sýni þá þar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Germanía er eitt allra besta ferðamannaland í evrópu ef ekki í heiminum..

Óskar Þorkelsson, 13.7.2011 kl. 17:27

2 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Svavar. Einhverra hluta vegna hef ég það á tilfinningunni að Þjóðverjar séu leiðinlegt fólk. Ég hef aldrei ferðast um landið en hitt allt of marga þjóðverja á sólarströndum og jafnvel í skíðabrekkum Ítalíu. Það er ekki til að örva áhuga fólks á landi og þjóð. Frekja og yfirgangur kallast það á íslensku. Þetta er auðvitað ekkert að marka og það veit ég svosem og ætti því að lesa bókina og heimsækja þá síðan. Gangi þér vel með sýningu og eigðu gott frí þarna úti. Kveðja Kolla  

Kolbrún Stefánsdóttir, 14.7.2011 kl. 19:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband