Lömbin gagna

DSC_0478 

Guðspjall dagsins er sagan um hórseku konuna sem átti að fara að grýta (Jóhannes 8, 2 - 11). Þar er að finna hin frægu orð Jesú:

Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.

Sagan hefst á því að það er komið með hina hórseku konu. Hún kemur ekki sjálf heldur er hún færð inn á sögusviðið af faríseum og fræðimönnum. Þeir stilla þessari konu upp í ákveðnum tilgangi, sem innleggi í rökræður. Henni er beitt sem vopni og gildru í hugmyndafræðilegum átökum; farísearnir og fræðimennirnir spurðu Jesú um konuna til að reyna hann „svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir", eins og það er orðað í guðspjallinu.

Konan hafði verið staðin að verki þar sem hún drýgði hór. Ruðst hafði verið inn í einkalíf hennar, í athöfn þar sem manneskjan er viðkvæmust og berskjölduðust. Nú var hún leidd inn á samræðuvettvang áður en farið var með hana inn á blóðvöllinn.

Samkvæmt lögmálinu átti að grýta hana. Grýting fór þannig fram að fórnarlambinu var hrundið ofan í gryfju. Sá sem orðið hafði vitni að syndinni eða dauðasökinni gekk fram á barm gryfjunnar, hrækti á manneskjuna sem þar lá áður en hann kastaði fyrsta steininum. Síðan henti fólk grjóti í hana þangað til hún dó.

Þessi örlög blöstu við konunni. Áður en þau urðu að veruleika var komið með hana og hún notuð sem peð á skákborði og barefli í átökum. Þannig hefur heimurinn gjarnan nýtt sér fórnarlömb. Menn nýta sér þau í þágu eigin málstaðar. Þá er þeim iðulega teflt fram gegn sér sjálfum.

Þótt grýtingar tíðkist ekki í okkar heimshluta hafa menn haldið áfram að nýta sér fórnarlömbin sjálfum sér til framdráttar og til að ná höggi á andstæðinga sína. Það er gömul saga og ný.

Stundum á valdastéttin engin vopn beittari en fórnarlömbin og stundum eru fórnarlömbin öflugasta límið til að halda henni í stólunum.

Myndin: Eyfirskt sólarlag


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Hvað? Var  konan þá ekki grýtt eins og lögmálið mælti fyrir um? Er einhver stigs munur á mönnum, í þá daga, og núna?

Í dag virðist enginn skortur á mönnum sem telja sig gersamlega syndlausa og syndleysið virðist aukast því auðugri sem þeir eru - af fé annarra.

Konan hefði pottþétt verið grýtt í dag.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 17.7.2011 kl. 15:45

2 identicon

Góð færsla hjá þér, og góð mynd.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 17.7.2011 kl. 15:48

3 identicon

Þú sem prestur átt að vita að þessi setning var sett í biblíu MÖRGUM öldum eftir meintan dauða meints frelsara. Þetta var skáldað upp, líklega af einum þýðanda biblíu.
Þú átt líka að vita að NT er falsað að stórum hluta, þar með talið er hann Jesú karlinn.

Sko, ég veit meira um þessi mál en þú karlinn minn, samt er ég bara leikmaður í þessu :)
Ég nefndi þetta með "Sá yðar sem syndlaus er..." við hann JVJ, augljóslega þá vissi hann líka að þetta er seinni tíma atriði, en sagði svo að líklega hefðu menn fundið gamlan miða með þessu á.. og því sé þetta satt og rétt :)

DoctorE (IP-tala skráð) 17.7.2011 kl. 16:06

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ef þetta er varnarræða fyrir kirkjuna og klerka hennar í þeirri rimmu sem stendur í dag, þá verð ég að segja að þetta er sú al-ósmekklegasta af öllum ósmekklegum varnarræðum.  Ég vona að ég sé að lesa rangt í þetta hjá þér.

Þú virðist vera að segja að fórnarlömbum kirkjunnar, sé beitt gegn henni í pólitísku valdatafli. Er það virkilega tilfellið Svavar?  Segðu mér að svo sé ekki.

Annars er þetta rétt hjá DoctorE. Þessi saga er ekki til í handritum fyrr en nálgast 8. -9. öld eða svo.  Líklega sett inn til varnar kirkjunnar þjónum líka sem lágu undir ákúrum fyrir stóðlífi og peningagræðgi. Fátt hefur breyst virðist vera.

Jón Steinar Ragnarsson, 17.7.2011 kl. 16:27

5 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ágæti doktor, það er tekið fram í textanum, sem ég vísa á á síðu Biblíufélagsins, að þessa sögu vanti í sum handrit (ef þú ferð með bendilinn yfir 1 í hornklofanum síðast í sögunni). Uppáhaldskommentarinn minn (The Gospel According to St John e. C. K. Barrett) telur öruggt að sagan hafi ekki verið í upphaflegri útgáfu guðspjallsins en segir jafnframt illmögulegt að staðhæfa um sagnfræðilegt gildi hennar. Um söguna hefur Barrett m. a. þetta að segja: "It may be that stories on this theme were current in several forms at an early date but did not attain canonical status because they seemed inconsistent with the strict disciplinary treatment of adultery then customary." (Bls. 590) Hvað sem segja má um söguna er hún góð, með hollan boðskap og á fullt erindi inn í okkar samtíð.

Svavar Alfreð Jónsson, 17.7.2011 kl. 16:43

6 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég var nú ekki með kirkjuna sérstaklega í huga þegar ég skrifaði þennan pistil en þar eru auðvitað sömu lögmál að verki og á öðrum stöðum þegar um völd er að tefla, Jón Steinar.

Svavar Alfreð Jónsson, 17.7.2011 kl. 16:55

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Segðu mér nú alveg eins og er Svavar, hvert er tilefnið og hvatinn til þessarar greinar? Ekki er hún bara svona pæling út í loftið.

Þú ert að segja að Kirkjan sé fórnalamb fórnarlamba sinna. Það skín út úr greininni. Hvað annað kveikir þessa vangaveltu?

Þú ferð svo undarlegar leiðir með þessa sögu og kreistir út úr henni meiningu sem er ekki þar, bara svo þú getir sveigt þig að æskilegri niðurstöðu og innihaldi.

Hvar í ósköpunum er svo mikið sem íað að því að: " Áður en þau urðu að veruleika var komið með hana og hún notuð sem peð á skákborði og barefli í átökum"

Eða:" Henni er beitt sem vopni og gildru í hugmyndafræðilegum átökum;"

Hallelúja Svavar minn!

"Þannig hefur heimurinn gjarnan nýtt sér fórnarlömb. Menn nýta sér þau í þágu eigin málstaðar. Þá er þeim iðulega teflt fram gegn sér sjálfum."

Geturðu nefnt einhver sérstök dæmi um þetta, sem heimurinn gerir svo iðulega?

Það hlýtur að vera eitthvað sem ýtti þér til þessara skrifa og túlkunarloftfimleika, ef þetta er þá ekki bara eitthvað innihaldslaust blaður.

Fórnar lömb eru það fólk, sem verður fyrir ógæfu, misrétti eða ofbeldi. Hér ert þú að segja að "aðrir"séu fórnarlömb þessara fórnarlamba og þá líklegast gerendurnir sjálfir. 

Þú hlýtur að sjá hversu hrikalega ósvífið þetta er. Ef þú telur mig miskilja eða draga of beinar ályktanir, þá endilega komdu með tilefnið og meininguna til að leiðrétta mig.

Þetta er nefnilega heldur  loðið ef önnur tilvísun liggur að baki og meira í anda kerlingarinnar fjórdrepnu, eins og ykkar er einatt siður.

Ef sumir væru við suma eins og sumir eru við suma þegar sumir eru frá, þá væru ekki sumir við suma eins og sumir eru við suma þegar sumir eru hjá.

Sýndu karakter séra minn og segðu það hreint út sem þú meinar. Ég skora á þig.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.7.2011 kl. 00:11

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Lömbin Gagna!

Viltu að þau þegi?

 Ja, hérna hér og Jesús Pétur Svavar. Hérna hefurðu sannarlega farið yfir strikið.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.7.2011 kl. 00:24

9 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Það sem ýtti mér til þessara skrifa, Jón Steinar, er guðspjall dagsins, sagan um hórseku konuna úr Jóhannesarguðspjalli. Pistillinn er unnin upp úr prédikun semn ég flutti fyrr í dag. Samkvæmt sögunni koma farísear og fræðimenn með þessa konu og beita henni sem nokkurs konar gildru í viðræðum við Jesú til að geta ákært hann. Þeir reyndu með öðrum orðum að nota konuna sem vopn í deilu. Þannig hafa fórnarlömb gjarnan verið notuð valdastéttum til framdráttar. Að mínu mati þarf ekki að leita lengi að dæmum um að menn notfæri sér neyð fólks en auðvitað ræður þú hvernig þú vilt skilja þennan pistil og lesa inn í hann. Góða nótt.

Svavar Alfreð Jónsson, 18.7.2011 kl. 00:38

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Komdu með dæmi Svavar fyrst þau eru svona augljós.  Ef þú ert ekki að vísa til þess sem ég segi þig gera, þá er prédíkunin og túkunin marklaus þvæla, án ástæðu og grunns.

Á meðan þú skýrir ekki ástæðu þessa "lærdóms" þíns og hvað þú ert að leitast við að boða, þá ertu bara að bulla í vinnunni þinni um ekkert. 

Ég er alveg hundrað prósent viss um að þú ert að vísa í kirkjumálefni líðandi stundar og mála hana sem fórnarlamb á sögulega ósmekklegan máta. Það er engin leið að lesa annað í þetta og ég er viss um að það hafa safnaðarlömbin þín líka skilið.  Ef ekki, þá gengu þau út og voru ekki nokkru nær um hvern fjandan þú varst að fara. Ef það er svo aftur tilfellið, þá ert þú algerlega óhæfur og óbrúklegur í embætti þínu.

Þetta er ekki eitthvað liggaliggalá hjá þér. Vertu maður til að viðurkenna það.

Koma svo Svavar. Sýndu smá heiðarleika og stattu við meiningar þínar í stað þess að víkjast undan eins og heigull. 

Jón Steinar Ragnarsson, 18.7.2011 kl. 02:24

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Svo þessi stjarnfræðilega túlkun þín... Hver er fórnarlambið í nefdri sögu? Konan? Hún er sek við lögmálið. Brotleg. Farísear reikna með að Jesú fyrirgefi henni og verði sekur um guðlast samkvæmt lögmálinu. Sjái í gegnum fingur sér með hórdóm.

Er hún fórnarlamb, sem beitt er gegn Jesú? Hvernig í ósköpunum færðu þetta út?

Er þetta sambærilegt við konur og börn sem hafa þurft að þola kynferðislegt ofbeldi af kirkjunnar þjónum?  Ertu að segja að þeir sem ásaki kirkjuna séu sekir um sömu hluti? Ég botna bara ekkert í hvað þú ert að fara, en þú setur þetta hér fram fyrir allra augu að lesa, svo það væri lágmark að útskýra til hvers þú ert að vísa.

Ertu að drulla yfir fórnarlömb kirkjunnar eina ferðina enn? Er ekki að verða komið gott hjá ykkur?  

Það er einmitt svona málflutningur og blygðunarleysi, sem fær fólk til að flýja þennan steingerving sem kirkjan er. Þið grafið ykkar eigin gröf fyrir hrokann og siðblinduna. 

Haltu endilega áfram. Þið þurfið enga hjálp fórnarlamba til að ljúka málinu.

Ég hélt þig sveimér meiri mann en þetta þó.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.7.2011 kl. 03:00

12 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Fólk sem enn sækir kirkju til að iðka sína trú eða sækja fró þarf nú undantekningarlaust að sitja undir langlokum til varnar stofnuninni og hlusta á húmanistum og trúlausum úthúðað sem illmennum og níðingum. Guðsorðið er misnotað eins og manneskjurnar í þessu markmiði. Sjálfhverfa stofnunarinnar og þjóna hennar er alger.

Finnst þér einhver furða Svavar að það sé tómlegt um að litast á bekkjunum? Veltu því aðeins fyrir þér. Pældu svolítið í þessu með flísina og bjálkann.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.7.2011 kl. 03:06

13 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Það er ekki mikið mál að finna dæmi um að menn nýti sér neyð annarra, Jón Steinar: Fólkið sem stendur í biðröð eftir mat og verður pólitískt áróðurstæki, innistæðieigendurnir í Icesave, bresku og hollensku ellilífeyrisþegarnir, sem notaðir voru sem svipa á íslenskan almenning, þegar pólitíkusar taka málstað lítilmagnans til að ná sér í atkvæði en gleyma honum um leið og þeir hafa komist í valdastóla og talandi um kirkjumálefni líðandi stundar, þegar fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis í kirkjunni eru notuð í kirkjupólitískum tilgangi sem kemur hagsmunum þeirra ekkert við.

Svavar Alfreð Jónsson, 18.7.2011 kl. 08:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband