Íslenskt múgræði

DSC_1022

Hrunið á Íslandi fæddi af sér víðtæka þjóðfélagsumræðu. Íslendingar hættu að grilla um helgar. Ópíumreykur kolanna steig ekki lengur upp af sólpöllum heldur barst pottaglamur frá Austurvelli. Í skírnarveislum skiptist fólk á skoðunum um það hvað hefði aflaga farið, hvaða gildi hefðu gleymst og hvernig það vildi sjá þjóðfélaginu háttað í framtíðinni. Netheimar loguðu af skiljanlegri reiði sem enn hefur ekki runnið til fulls.

Fólk sá að margt hafði brugðist og það var staðfest í rannóknarskýrslu Alþingis. Stjórnmálamenn, flokkar, eftirlit, allar helstu stofnanir samfélagsins, akademían, fjölmiðlar og síðast en ekki síst, fólkið sjálft. Allt brást.

Ef til vill er ein ástæða Hrunsins of mikið traust. Við létum nægja að setja krossa við stafi á kjörseðlum en aðrir urðu að taka ákvarðanirnar.

Allir aðrir en við áttu að „axla ábyrgð", svo gripið sé til vinsæls orðalags.

Ein krafa eftirhrunsáranna var um beinni þátttöku almennings í ákvarðanatökunni. Fólk sá fyrir sér fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur þar sem það fengi að segja sitt um hin ýmsu mál. Mörgum þótti reynslan af Icesave lofa góðu.

Ég er einn þeirra sem tel að fólki sé vel treystandi, bæði til að taka réttar ákvarðanir - og rangar. Í seinna tilvikinu hefur fólk þá ekki við neina aðra að sakast en sig sjálft.

Eitt gleymist þó gjarnan í þessu öllu: Ef samfélagið færir ábyrgðina á ákvarðanatöku til borgaranna sjálfra ber því skylda til að upplýsa þá um málin og gera þeim kleift að taka upplýstar ákvarðanir.

Beint lýðræði kallar á tvennt: Annars vegar vandaða fjölmiðla og hins vegar þroskaða umræðuhefð.

Í Grikklandi hinu forna, vöggu lýðræðisins, greindi sagnaritarinn Polybios á milli lýðræðis, demókratíu, annars vegar og hins vegar múgræðis, ochlóhkratíu.

Múgræði er það stjórnarform þar sem óupplýstur og æstur múgur hefur síðasta orðið.

Ef til vill ættum við að skoða hvort íslenskir fjölmiðlar og hérlend umræðuhefð ver okkur fyrir múgræði eða stuðlar beinlínis að því?

Myndin: „Moon River and me."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband