28.8.2011 | 17:04
Hinar skoðanirnar
Einn lærimeistara minna í guðfræði hélt því fram að það væri afleitur dómur um prédikun þegar áheyrendur þökkuðu fyrir hana með orðunum: Þetta var eins og talað úr mínu hjarta."
Ef ræðan væri eitthvað sem áheyrandinn hefði getað sagt sér sjálfur hefði hann getað sparað sér tímann sem fór í að hlusta á hana.
Í auglýsingasálfræði er því haldið fram að maðurinn heyri það sem hann vilji heyra. Hann vilji síður heyra eitthvað nýtt, eitthvað sem raskar heimsmynd hans, gildismati og þankagangi. Ef hann þurfi endurskoða sjálfan sig þýði það bara vesen.
Þess vegna hlustum við, meðvitað og ómeðvitað, best á það sem staðfestir okkur í skoðunum okkar og gildismati og lætur heimsmynd okkar standa óhaggaða.
Þetta er ástæða þess að hægri menn lesa Moggann, aðdáendur Evrópusambandsins Fréttablaðið, kratarnir Eyjuna og kjósendur Vinstri grænna Smuguna. Við viljum helst sjá það sem er eins og talað úr okkar eigin hjarta.
Á Íslandi er löng hefð fyrir því að láta ekki berast með straumnum en standa með sjálfum sér.
Það er reyndar rannsóknarefni að þrátt fyrir þessa ríku áherslu á einstaklinginn og hefð fyrir sjálfstæði hans er hjarðhegðun hér oft mikið þjóðarmein. Hjarðmennskan er talin vera ein af mörgum orsökum Hrunsins.
Það endar með ósköpum ef við tökum aldrei mark á neinu nema okkur sjálfum. Þá höfum við aldrei neitt að læra nema af okkur.
Ykkur er óhætt að trúa mér: Allt það mikilvægasta sem við getum lært, lærum við af einhverjum öðrum en okkur sjálfum.
Þar mæli ég af mikilli reynslu.
Við skulum vera þakklát fyrir fólkið sem er ekki á sömu skoðun og við. Það getur verið öflugt móteitur gegn forherðingu í okkar eigin skammsýni, heimsku og öfgum.
Myndin: Hvað væri fífillinn án býflugunnar eða hún án hans?
Athugasemdir
Sæll.
Já þetta er nú sko djúp og alvöru predikun í lagi hjá þér Svavar þó svo ég sé nú ekki strangtrúaðður !
Maður eiginlega vaknar samt við þetta !
Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 28.8.2011 kl. 20:44
Þér mættuð jú með sömu rökum vera þakklátur fjandanum sjálfum, því án hans hefðir þú ekkert fram að færa, er það ekki Svavar?
Annars er það þannig að þegar sannleikur opinberast fólki þá er það af því að hann á samhljóm við reynslu þeirra og hugleiðingar. Þessvegna hljómar hann oft einfaldur og sjálfsagður og eins og talaður úr hjarta þess sem við tekur.
Resonance Svavar, samhljómur, harmónía. Þú ættir því að taka því sem mesta hóli ef fólk segir að eitthvað sé eins og talað frá hjarta þess. Þá hefur þú snert á einhverju altæku en ekki bara tjáð eitthvað úr eigin hugskoti sem þú telur þig eiga patent á. Þannig er þetta bara ekki.
Vona að þetta sé eins og talað út frá þínu hjárta.
Jón Steinar Ragnarsson, 29.8.2011 kl. 06:40
Þetta eru áhugaverðar hugleiðingar hjá þér Svavar.
Ég, eins og flestir menn, get eingöngu tjáð mig út frá minni upplifun, en ég hef verið síhugsandi frá því ég man eftir mér og leitandi eftir sannleikanum.
Ef við byrjum á trúnni, þá leitaði ég víða áður en ég komst að besta sannleikanum, fyrir mig. Ég leitaði fanga hjá öllum söfnuðum landsins, hvítasunnumönnum, Vottum Jehóva osfrv.
Allir lásu þeir sömu biblíuna, en skildu hana ekki eins, þú þekkir það. Svo til að leita enn betur, þá skoðaði ég flest trúarbrögð heimsins. Að lokum komst ég að einfaldri niðurstöðu sem hentar mér vel.
Ég gæti skrifað heila bók um þetta, en ef ég á að draga saman mína niðurstöðu í trúmálunum, þá kristallast hún í orðum hinnar helgu bókar; "af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá".
Þar sem menn fylgja boðskap Nýja Testamentisins ríkir meiri friður en annarsstaðar, þess vegna tel ég það ansi gott og skilgreining boðenda kristinnar trúar varðandi kærleika og frið fellur mér vel.
Önnur trúarbrögð hafa ekki getið af sér eins friðsöm samfélög, þannig að me´r finnst boðskapur Jesús henta hvað best, varðandi friðinn og kærleikann.
Þótt kristnir menn hafi háð stríð, í nafni trúarinnar, þá er það löngu liðin tíð, en múslimar drepa enn í nafni trúarinnar. Samt eru margir fylgjendur Múhameðs friðsamir og góðir, en munurinn á sýnilegri birtingarmynd er sláandi, þar sem kristni ræður ríkjum er meiri friður.
Svo er það pólitíkin, ég les annað slagið síður allra flokka til að tékka mig af. Því meira sem ég les um vinstri flokkana, því harðari sjálfstæðismaður verð ég.
Það er vegna þess, að ég reyni að einfalda hlutina, hægt er að finna rök bæði með og á móti öllu.
Það sem eftir stendur og er óumdeilt, að mesta hagsældin hefur verið þegar Sjálfstæðisflokkurinn ræður ríkjum.
En ég er háður þeim annmörkum að vera maður af holdi og blóði, þess vegna er ég stöðugt að leita, en hugur minn takmarkast af mínum persónuleika.
Ég get ekki orðið vinstri maður og ég get hvorki orðið múslimi né búddisti.
Sjálfstæðisstefnan og kristnin hljómar við mitt hjartalag, en svo er það stóra spurningin, hef ég hjartalag sannleikans?
Það efast ég um, en ég verð samt sem áður að fylgja minni sannfæringu og það sem hljómar við hana, það finnst mér gott.
Við erum öll limir á líkama Krists, ólíkar skoðanir okkar takast á, þannig þroskast heimurinn.
Við hefðum ekkert til að keppa að, ef engin væru átökin á milli ólíkra sjónarmiða. Ef við túlkum okkar sjónarmið, samkvæmt okkar skilningi, þá koma aðrir á eftir og mynda sér skoðanir á þeim.
Næstu kynslóðir koma kannski með ný og betri sjónarmið, en þær gætu það ekki ef við færðum þeim ekki efnivið, til að vega og meta.
Jón Ríkharðsson, 29.8.2011 kl. 10:42
- keep it simple, Svavar! - hlustum á hjartað, - á tilfinninguna!
~ með hjartans kv. vilborg ~
Vilborg Eggertsdóttir, 2.9.2011 kl. 19:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.