2.9.2011 | 22:40
Malta á Fjöllum
Mikið er ég hrifinn af fyrirætlunum kínverska auðkýfingsins Huang Nubo um útivistarparadís, golfvöll og lúxushótel á Grímsstöðum á Fjöllum.
Þetta eru auðvitað geggjaðar hugmyndir: Alþjóðlegt djettsett liggjandi í heitum pottum í norðanbyl og skammt þaðan björgunarsveitin Stefán í Mývatnssveit að hjálpa íslenskum fjölskyldum sem fest hafa bíla sína í skafli.
Kannski er alltaf stutt á milli snilldar og brjálæðis?
Ég er sannfærður um að erlendir ferðamenn - eins og margir íslenskir - kunna vel að meta öræfin og óbyggðirnar, víðátturnar, kyrrðina og hreinleikann. Þeim finnst líka spennandi að upplifa sviptingar náttúrunnar, ofsann í íslenska veðrinu og kynnast umhverfi Fjalla-Bensa.
Við eigum að taka þeim fagnandi sem eru skapandi og hafa fjárhagslegt bolmagn til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Hvort sem þeir koma frá Kína eða Kópaskeri.
En þó að hugmyndin um hótel á Fjöllum sé góð er ekki þar með sagt að hana eigi að gleypa ótuggða.
Vinur minn úr lögfræðingastétt kenndi mér ágæta þumalputtareglu:
Ef þú færð tilboð sem þú átt að svara á staðnum er nánast undantekningarlaust eitthvað gruggugt við það.
Séu tilboðin virkilega góð þola þau umhugsun og nánari skoðun.
Í fréttum af hugsanlegri sölu Grímsstaða á Fjöllum hefur komið fram að ekki sé víst að stjórnvöld í Kína heimili gjörninginn vegna þess uppnáms sem málið hafi valdið" eins og það er orðað í fréttum Ríkisútvarpsins.
Ég er ekki viss um að þetta mál hafi valdið miklu uppnámi. Hitt er óumdeilanlegt að um það hefur verið allnokkur umræða og sýnist þar sitt hverjum. Innanríkisráðherra hefur sagst vilja skoða málið með hagsmuni Íslands að leiðarljósi eins og honum ber skylda til.
Enginn ætti að vera hissa á að þessi jarðarkaup veki umræðu og hugmyndin verði tilefni heilabrota - þó ekki væri nema vegna umfangs jarðarkaupanna. Sjálfsagt þarf lúxushótel stærra svæði undir sig en önnur gistihús. Ef til vill er meiri fyrirferð í milljarðamæringum en meðaljónum. Ábyggilega eru þeir sem geta pungað út háum upphæðum fyrir afþreyingu kröfuharðari á lífsrými en hinir sem elda á prímusunum á tjaldstæðinu í Reykjahlíð.
Venjulegum manni gengur samt illa að skilja að til séu svo höggþungir golfiðkendur að þeir þurfi 18 holu golfvöll á stærð við Möltu - en eyjan sú mun vera álíka stór og Grímsstaðir á Fjöllum í ferkílómetrum.
Á Möltu er sjálfstætt ríki, alþjóðaflugvöllur, sjúkrahús, skólar, baðstrendur, mörg hótel af öllum gerðum, 420.000 íbúar, mikill fjöldi ferðamanna og fleiri en einn golfvöllur, svo fátt eitt sé nefnt.
Grímsstaðir á Fjöllum munu vera um 0,3% af Íslandi. Ísland mun vera um 103.000 ferkílómetrar. Kína er töluvert stærra, 9,6 milljón ferkílómetrar.
Ef íslenskur fjárfestir gerði sig líklegan til að kaupa hlutfallslega jafn stóra sneið af kínverska alþýðulýðveldinu og Grímsstaðir eru af Íslandi yrði þar um væna spildu að ræða. Talnaglöggir menn geta reiknað út stærðina. Ég er ekki viss um að kaupin á henni gengju umræðulaust fyrir sig úti þar.
Hugmyndir hins kínverska ljóðskálds, útivistarmanns og auðkýfings um Grímsstaði á Fjöllum hafa vakið athygli í útlöndum eins og fram kemur áður tilgreindri frétt RÚV og sjá má til dæmis hér.
Hvorki hann né kínversk stjórnvöld geta ætlast til þess að Íslendingar hafi engar eða aðeins jákvæðar skoðanir á þessum fyrirætlunum.
Hugmyndin er djörf en sé hún góð þolir hún bæði nánari skoðun og umræðu.
Myndina tók ég á leiðinni í Möðrudal á Fjöllum.
Athugasemdir
Fín færsla hjá þér Svavar, málefnaleg.
Gunnar Waage, 3.9.2011 kl. 16:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.