14.9.2011 | 00:02
Demanturinn í ormsbælinu
Ole Bull fæddist árið 1810 í Björgvin í Noregi. Hann var undrabarn, ekki orðinn fimm ára þegar hann gat spilað á fiðluna sína allt sem mamma hans kunni á hljóðfærið. Níu ára var hann fiðluleikari í hljómsveit borgarleikhússins í Björgvin. Tónlistarferill hans var glæstur. Tónleikarnir sem hann hélt skiptu þúsundum. Hann er talinn meðal mestu fiðlusnillinga sögunnar.
Bull var líka tónskáld. Frægasta verk hans er hið ljúfa lag, Sunnudagur selstúlkunnar (Sæterjentens søndag) sem oft heyrist við útfarir á Íslandi. Hér er það í flutningi Annar Follesø og hljómsveitar norska ríkisútvarpsins.
Listaverkið á myndbandinu er eftir franska málarann William-Adolphe Bouguereau (1825 - 1905) og sýnir stúlku hvíla sig eftir vinnu við uppskeruna. Ekki leynir sér að hún er ástfangin.
Til er kvæði við lagið. Íslenska þýðingu gerði Steingrímur Thorsteinsson og birtist hún í Skírni árið 1905.
Fyrsta erindið er svona:
Á dagsólar horfi ég hækkandi skeið,
að hámessu fer nú að líða:
Með kirkjufólkshópnum mér ljúf væri leið,
mig langar svo ákaft til tíða.
Þá sól yfir kambskarðið beint þarna ber,
það boðar mér fjalls upp í salinn,
í kirkjunni samhringt að klukkunum er,
svo kveður við hljómur um dalinn.
Lagið hans Ole, I ensomme stunde (La Mélancolie), er eitt það hjartnæmasta sem ég heyri. Hér er sú fagra depurð í flutningi sömu listamanna og spiluðu fyrir okkur Sunnudag selstúlkunnar. Listaverkið á myndbandinu þekki ég því miður ekki.
Ég hef verið að lesa kvæðabók eftir Benedikt Gröndal. Hún kom út í Reykjavík árið 1900 og er tileinkuð hinum lærða og skáldlega Íslands vini J. C. Poestion keisaralegum yfirbókaverði í Vínarborg í Austurríki" eins og tilkynnt er á upphafssíðum bókarinnar.
Benedikt heyrði Ole Bull spila í Kaupmannahöfn og orti skömmu síðar um hann ljóð sem er í bókinni. Í neðanmálsgrein er saga um fiðlusnillinginn sem skýrir ljóðið:
Hann var frægur um alla Evrópu og Norður-Ameríku. Hann lék og í Algier eða Túnis. Hann hafði látið festa demant í fiðlubogann, og gekk sú saga um hann þar í Afríku, að hann hefði náð demantinum úr ormsbæli, svæft orminn með fiðluhljóminum.
Ég efast ekki um demantinn í fiðluboga Ole Bull. Hvernig sem sá steinn hefur verið fær enginn þroskað hæfileika sína án þess að taka sénsa og tefla fram sér sjálfum.
Hver snillingur þarf að sækja eðalstein ofan í holu nöðrunnar.
Myndin: Grímsey úr Vámúla
Athugasemdir
- takk fyrir þetta Svavar, - hugljúft og fallegt!
Myndin þín er heiðskýr og tær, - eins og loforð um nýja veröld, nýja sýn á tilveru okkar og sköpunamátt.
Vilborg Eggertsdóttir, 15.9.2011 kl. 01:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.