2.10.2011 | 12:13
Ofbeldismenn Íslands
Ofbeldismenn gærdagsins grýttu eggjum í þingmenn og hrópuðu ókvæðisorð og svívirðingar að fólki.
Fórnarlömb þessara ofbeldismanna voru annarsvegar þau sem fengu yfir sig dembu af dónaskap og eggjum.
Hinsvegar leið meirihluti mótmælendanna sjálfra fyrir þetta ofríki hinna fáu úr þeirra röðum. Friðsamleg skilaboð þeirra köfnuðu því miður í óhróðri og eggjarauðum.
Ofbeldi er hægt að beita án þess að egg fljúgi eða gangstéttarhellur. Ofbeldismenn gærdagsins er ekki bara að finna í eggjakösturunum. Þegar eggin höfðu tvístrast og hrópin þagnað tóku hinir andlegu og pólitísku ofbeldisseggir við.
Þeir eru enn að og hamast á mótmælendum.
Frelsi til skoðana og tjáningar er ein meginstoð mannréttinda. Það frelsi þarf sínar reglur til að það virki, skrifaðar og óskrifaðar. Rétturinn til að mótmæla, til að láta óánægju sína í ljós og reiði, er hluti af þessu frelsi.
Þeir sem vilja þagga niður í mótmælendum eru ofbeldismenn sem vilja afnema þennan þátt frelsis og mannréttinda.
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að þöggunin hafi verið ein orsök þess að svo fór sem fór á Íslandi. Vegna þöggunarinnar veitti samfélagið ekki það aðhald sem þurfti. Nú kemur þessi þöggun berlega í ljós.
Það er veist að mótmælendum með ýmsum hætti. Nærtækasta vopnið til að þagga niður í þeim er að gera alla þessa mótmælendur að eggjakösturum og spellvirkjum, trylltum skríl sem ekki alls ekki má hlusta á.
Vopn þöggunarinnar eru fleiri. Ofbeldismenn þöggunarinnar beita líka því, að mótmæli eigi aldrei rétt á sér nema verið sé að mótmæla einhverju sérstöku og skýrt afmörkuðu.
Það er mikill misskilningur að mótmælaaðgerðir snúist alltaf um einhvern einn hlut eða beinist alltaf að einhverju einu. Oft beinast mótmæli að ástandi og ástand er gjarnan margbrotið og á sér margar orsakir.
Sú reiði sem kraumar í þjóðfélaginu á sér jafn margar orsakir og hrunið sem reiðinni olli. Ekki get ég lesið hug allra sem finna fyrir reiði eða óánægju og sjá ástæðu til að tjá það í mótmælum en ég held að það fólk sé í fyrsta lagi mjög þreytt á stjórnmálastéttinni og finnist hún hafa brugðist sér. Þó að þjóðin hafi mætt einhverri mestu ógn af mannavöldum í sögu lýðveldisins gátu stjórnmálamennirnir ekki snúið bökum saman til að vinna saman að heill almennings. Þess í stað héldu þeir áfram sama sandkassaleiknum. Fólk er óánægt með ríkisstjórnina og stjórnarandstöðuna og traust þess til Alþingis er í lágmarki eins og kannanir sýna.
Í öðru lagi finnst fólki finnst lítið hafa breyst. Enn virðast þeir ráða ferðinni sem réðu henni fyrir hrun. Enn sitja þeir að sínu sem mestu stálu. Enn eru þeir ósnertanlegir sem ekki mátti snerta. Enn stjórna þeir umræðunni sem stjórnuðu henni.
Í þriðja lagi horfir fólk upp á að byrðar kreppunnar leggjast misþungt á fólk. Sumir halda áfram að græða, hjá sumum hækka launin og sumir fá afskrifaðar skuldir. Aðrir horfa upp á lánin sín bólgna út, eignarhluta í húsnæði hverfa og sparifé brenna upp á meðan allar nauðsynjar stórhækka í verði. Aðrir missa vinnuna og eiga ekki fyrir mat. Það er ekkert nýtt að ranglæti og misskipting séu fylgifiskar kreppu.
Hið andlega og pólitíska ofbeldi gegn mótmælendunum felst líka í því að kalla mótmælendurna ónefnum og gera þeim upp skoðanir. Mótmælendurnir er vælukjóar, grenja yfir því að komast bara í eina sólarlandaferð á ári eða vegna þess að þeir þurftu að selja reinsinn og fá sér rav fjóra. Dregin er upp mynd af mótmælendunum sem nautnasjúkum eyðslufíklum. Slík ofbeldisummæli miða að því að þagga niður í fólki: Þú mátt ekki mótmæla ranglæti og misskiptingu því þar með ertu orðinn hluti af þessu óráðsíuliði sem keypti sér of stór hús og of dýra bíla.
Enn ein ofbeldisþöggunin felst í því að gera mótmælendurna hluta af samsæri pólitískra andstæðinga. Einstæða móðirin - sem mótmælir því að hafa þurft að betla mat reglulega alveg frá hruni - þessi móðir er allt í einu orðin þáttur í yfirvofandi valdaráni og stórhættulegt fyrirbæri. Konan sem hefur skriðið betlandi á milli góðgerðarstofnana til að hafa mat handa börnunum sínum á meðan stjórnmálamennir sem áttu að gæta hagsmuna hennar voru uppteknir við að berja á andstæðingum sínum, þegar þessi kona loksins rís upp til að krefjast réttar síns og mannsæmandi lífs, þá er hún umsvifalaust gerð að barefli þessara sömu stjórnmálamanna til að þeir geti haldið áfram að slást.
Þeir stjórnmálamenn sem þjóðin þarfnast núna eru ekki þeir sem tala lengst. Heldur ekki þeir sem tala klúrast og virðist líða best þegar þeir geta nítt andstæðinginn mest og niðurlægt.
Þeir stjórnmálamenn sem þjóðin þarfnast núna eru vitrir, varkárir en staðfastir, réttsýnir, sanngjarnir, góðviljaðir, víðsýnir, hugrakkir og umfram allt, stjórnmálamenn sem kunna enn betur að hlusta en tala.
Myndin er af fossi í Fossá á Þelamörk.
Athugasemdir
Eins og talað út úr minu hjarta, frændi. Deili þessu á feisbók.
Edda Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 2.10.2011 kl. 12:25
Flottur!
Bloggofbeldismenn segja mótmælendur líka vera x - d.
Aðalsteinn Agnarsson, 2.10.2011 kl. 12:43
Alveg frábær færsla. Bestu þakkir.
Haraldur Hansson, 2.10.2011 kl. 22:35
Góður pistill vonandi að sem flestir lesi og skilji.
Ólafur Örn Jónsson, 3.10.2011 kl. 07:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.