16.10.2011 | 22:15
Þjóðkirkjuþankar
Samband ríkis og kirkju
Ég tel að tengsl Þjóðkirkjunnar við ríkið eigi að mótast af hagsmunum íslensku þjóðarinnar. Þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag í tengslum við ríkið. Síðustu árin hefur verið unnið að því að minnka þau tengsl og endurskoða. Ekkert er því til fyrirstöðu að ríkið eigi áfram gott samstarf við Þjóðkirkjuna ef það kýs svo og telur það vera í þágu borgaranna. Ef ríkistengsl kirkjunnar torvelda henni að starfa fyrir þjóðina eða að sinna erindi sínu þarf að endurskoða tengslin. Prestar Þjóðkirkjunnar eiga að vera embættismenn kirkjunnar en ekki ríkisins.
Samband skóla og kirkju
Starfsfólk kirkjunnar á ekki að heimsækja skólana nema að ósk þeirra og á þeirra forsendum.
Að sjálfsögðu þurfa íslensk grunnskólabörn að þekkja Biblíuna og þá ekki síst Nýja testamentið. Engin bók hefur mótað vestræn samfélög meira en Biblían og enginn getur skilið vestræna menningararfleifð án lágmarksþekkingar á henni. Engin evrópsk þjóð getur kallað sig bókaþjóð ef hún kann ekki skil á Biblíunni.
Fjölmenning setur sífellt meiri svip á íslenskt samfélag. Þess vegna hefur aldrei verið meiri þörf en nú fyrir markvissa uppfræðslu um mismunandi trúarbrögð, viðhorf og siði. Umburðarlyndi og tillitssemi vex ekki í jarðvegi fáfræði, skilningsleysis og fordóma.
Kirkjan og kynferðisofbeldi
Enginn líður meira fyrir kynferðisofbeldi en þau sem fyrir því verða. Þó eru fórnarlömbin fleiri í slíkum málum. Þeir sem nota kirkjuna og embætti hennar sem skálkaskjól fyrir ofbeldi eru líka að níðast á þeirri stofnun sem þeir eiga að þjóna. Þjóðin öll er í sjokki eftir það sem á hefur gengið í kirkjunni og röngum viðbrögðum kirkjunnar við því. Kirkjan þarf að læra af mistökum sínum, rangindum og valdníðslu. Hún endurheimtir ekki traust og tiltrú þjóðarinnar nema hún sýni að iðrun hennar sé einlæg og hafi áþreifanlegar afleiðingar.
Kirkjan og lýðræðið
Efla þarf lýðræði innan Þjóðkirkjunnar og leikmenn eiga þar að fá aukna ábyrgð. Þjóðkirkan á ekki að taka sér stöðu með valdinu. Hún stendur ekki undir nafni nema hún sé með fólkinu og í þágu þess. Hún á að vera samfélag jafningja.
Staða biskups
Þjóðkirkjan hefur lent í mörgum erfiðum málum á embættistíma þess biskups sem nú situr. Hann er ekki valdur að þeim en ber ábyrgð á mistökum sem gerð voru þegar við þeim var brugðist. Hann hefur líka gert margt vel þótt ekki sé hann óskeikull frekar en páfinn. Að minni hyggju er ekki skynsamlegt að biskupar sitji of lengi í embættum.
Framtíð kirkjunnar
Ég er bjartsýnn á framtíð kirkjunnar. Þrátt fyrir allt er víða uppgangur í kirkjulegu starfi. Það finn ég til dæmis í kirkjunni minni, Akureyrarkirkju, en þar þekki ég best til.
Það, að fólk hafi orðið fyrir vonbrigðum með Þjóðkirkjuna, segir okkur að það hafi haft til hennar væntingar. Mörgum fannst kirkjan bregðast þegar síst skyldi, á einhverjum mestu átakatímum í sögu lýðveldisins.
Þjóðkirkjan er sögð njóta forréttinda sem henni eru tryggð í stjórnarskrá. Mestu forréttindi Þjóðkirkjunnar eru þó væntumþykja og traust íslensku þjóðarinnar.
Það eru einu forréttindin sem Þjóðkirkjan á að reyna að halda í.
Myndin: Sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir talar við nemendur fermingarskólans á Vestmannsvatni.
Athugasemdir
Ríkiskirkjan er ekki "sjálfstætt trúfélag", t.d. setur Alþingi sérstakar reglur um innra skipulag kirkjunnnar, hin svokölluðu þjóðkirkjulög.
Hjalti Rúnar Ómarsson, 17.10.2011 kl. 09:18
Hjalti, hér bendir þú á lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar 78/1997 en 1. grein þeirra laga hljóðar þannig:
„Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni."
Svavar Alfreð Jónsson, 17.10.2011 kl. 10:01
Svavar, já, en þetta er einfaldlega ekki satt. Skoðaðu bara afganginn af lögunum til að sjá það. Alþingi er þarna að ákveða hvernig innra skipulag þessa meinta sjálfstæða trúfélags er.
Hjalti Rúnar Ómarsson, 17.10.2011 kl. 10:14
Kastaðu hempu þinni og gakk Svavar; Þú ert upplýsur maður, þú veist að þjóðkirkjan og allt sem hún stendur fyrir er byggt á lygum, já og allt þitt líf sem og allra þeirra sem láta blekkjast af rugli kirkjunnar og trúarsöfnuða.
Þetta er eins og að hætta að reykja Svavar.. ekkert er verra fyrir heilsu einstaklings, já fyrir heilbrigði heimsins en það að draga að sér "Holy smoke".
Hætta, strax í dag!!
DoctorE (IP-tala skráð) 17.10.2011 kl. 10:24
Hjalti, þú ættir ef til vill að lesa lögin og kynna þér tilurð þeirra. Þau eru samin og samþykkt af kirkjuþingi áður en Alþingi lagði blessun sína yfir þau. Fyrirkomulagið er því raun kirkjunnar en ekki Alþingis. Með þessum lögum er Alþingi að samþykkja og tryggja sjálfstæði kirkjunnar, sbr. III. kaflann, sem hefst á orðunum: "Þjóðkirkjan ræður starfi sínu innan lögmæltra marka."
Svavar Alfreð Jónsson, 17.10.2011 kl. 10:42
Svavar, ég veit allt um innihald laganna og tilurð þeirra. Kirkjuþing samþykkir einhverjar tillögur og biður Innanríkisráðherra að leggja það fram á Alþingi, en það er ekki eins og Alþingi þurfi að samþykkja það eða geti ekki breytt þessum lögum algerlega í óþökk Kirkjuþings. Og já, Þjóðkirkjan ræður starfi sínu innan lögmæltra marka, það er að segja, að því miklu leyti sem að Alþingi hefur ákveðið í þessum lögum.
Hjalti Rúnar Ómarsson, 17.10.2011 kl. 11:16
Góðir punktar, þarft innlegg í umræðuna eins og oft áður. Takk fyrir það. Það er mikilvægt að vita hvar kirkjan á að staðsetja sig, og taka svo stefnuna þaðan. Meira lýðræði, já, og það kemur með góðra manna hjálp. Og svo leggja áherslu á uppbyggingu og gott starf. Með kærri kveðju, Guðni
Guðni (IP-tala skráð) 19.10.2011 kl. 10:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.