Afglöp stjórnmálanna

DSC_0716 

Þótt ég sé lýðræðissinni sé ég galla á slíku stjórnarfari. Sá ljóður er til dæmis á þingbundnu lýðræði að þar freistast stjórnmálamenn til að kaupa sér atkvæði kjósendanna og veigra sér við að taka óvinsælar ákvarðanir því þær eru ódrjúgar til atkvæðaveiða.

Ég er þeirrar skoðunar að á síðustu áratugum hafi myndugleika vestrænna kjósenda hrakað. Þeir eru sífellt verr að sér. Með hverju árinu sem líður verða þeir ónæmari á þjóðfélagið sem þeir lifa í en um leið er markvisst unnið að því að gera þá að öflugum og helst óseðjandi neytendum. Kjósendurnir verða því stöðugt auðkeyptari og þann veikleika hafa stjórnmálamennirnir nýtt sér.

Þýski viðskiptablaðamaðurinn Thomas Tuma vekur máls á þessu í nýjasta tölublaði þýska tímaritsins Der Spiegel (nr. 43. 2011 bls. 82). Þar segir hann að enda þótt hin alþjóðlegu mótmæli síðustu vikna gegn bönkum og fjármálafyrirtækjum séu skiljanleg megi ekki gleymast að fleiri beri ábyrgð á ástandinu. Tuma bendir á að hagfræðingar hafi brugðist. Þeir hafi hvorki séð fyrir kreppuna 2007 né 2011 og séu ofan í hugmyndafræðilegum skotgröfum.  Að mati Tuma bera fjölmiðlarnir ennfremur sök. Þeim hafi mistekist að greina og útskýra kreppuna.

Mestu sökina er þó að finna hjá stjórnmálamönnunum, staðhæfir blaðamaðurinn. Um áratuga skeið hafi þeir eytt meiru en aflað var, vítt og breitt um heiminn. Skiptir engu máli hvaða stjórnmálaflokkar voru við völd í löndunum. Í Þýskalandi hafi skuldasöfnunin t. d. byrjað fyrir alvöru í stjórnartíð jafnaðarmannsins Helmut Schmidt.

Skuldasöfnunin sé gríðarleg. Fyrir gjaldþrot Lehman haustið 2008 uppfylltu 11 af 18 ESB-ríkjum ekki skilyrði Maastricht samkomulagsins um stöðugleika.

Mörgum finnst endurreisnin á Íslandi ganga hægt. Ein skýringin á þeim hægagangi kann að vera sú að hreinsunin, sem er forsenda endurreisnarinnar, hefur ekki farið fram. Enn eru leiddir fram sömu hagfræðingarnir og töluðu fyrir Hrun, af sömu blaðamönnunum sem skrifa illa um  sömu suma og vel um sömu aðra. Þeir sem áttu eiga enn og hinir halda áfram að skulda sem skulduðu.

Og enn sitjum við uppi með sömu gömlu stjórnmálamennina ofan í sömu gömlu skotgröfunum. Þeir beita gömlu klækjunum á okkur auðkeypta kjósendur með dyggri hjálp sauðtryggra blaðamanna.

Stjórnmálamennirnir halda áfram að lofa okkur gulli og grænum skógum. Þeir viðurkenna aldrei mistök og ástandið er annað hvort fólkinu í hinum flokkunum að kenna eða einhverjum öðrum.

Mér segir svo hugur að margir stjórnmálamenn taki því fegins hendi að mótmælin nú beinist að bönkum og fjármálastofnunum - en ekki að þeim sem áttu að setja þeim reglur og skorður.

Myndin er af fjalli einu svarfdælsku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Antonsson

Fallegar fossamyndir á síðunni þinni. Næstum of fagurbláar en samt er þessi blái litur einstakur. Þegar hann kemur með þeim djúpgræna og hvíta verður mikið samspil. Er sýningin opin um helgar?

Þá tek ég undir með þér í grein þinni. Við lifum á miklum glans tímum sem enda svo í svart-hvítu. Partur af því að vera stjórnmálamaður er að lofa upp í ermina. Ef það væri í lögum að við mættum ekki eyða um efni frm væri hér stöndug króna. Á síðasta þingi var fellt ákvæði um að takmarka skuldasöfnun sveitafélaga.

Sigurður Antonsson, 26.10.2011 kl. 23:50

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Takk, Sigurður. Sýningin er opin á meðan bókasafnið er opið.

Svavar Alfreð Jónsson, 27.10.2011 kl. 00:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband