Allt almenningi að kenna

DSC_0588 

Á árunum fyrir Hrun kepptust fjölmiðlar og ráðandi öfl í þjóðfélaginu við að örva neyslu fólks. Fólk var hvatt til að kaupa. Dagblöð landsmanna voru dulbúnir auglýsingabæklingar, kostuð af þeim sem skenktu í glösin á neyslufylleríinu. Auðdýrkun og efnishyggja urðu meðal helstu dyggða þjóðarinnar.

Þegar svo allt þetta andstyggilega samfélag hrundi beindu margir vísifingrunum að fólkinu í landinu. „Þetta er ykkur að kenna," sögðu eigendur fjölmiðlanna sem um árabil spönuðu fólk upp í óhófið. „Ykkur var nær að taka þessi lán," sögðu bankarnir sem á árunum fyrir Hrun lögðu að fólki að taka þessi sömu lán. „Þetta er mátulegt á ykkur fyrst þið kusuð hina en ekki okkur," sögðu stjórnmálamennirnir.

Og á sama hátt og almenningi er kennt um  Hrunið á Íslandi vilja margir meina að þessi sami almenningur eigi sök á því hvernig umræðumenningin er að þróast á þessu landi. Hún er eins og hún er vegna þess að fólk er svo ofboðslega reitt.

Að sjálfsögðu er reiðin algjörlega tilefnislaus.

Elíta Íslands er saklaus í þessum efnum sem öðrum. Þar er aldrei við yfirvöld og helsta áhrifafólk samfélagsins að sakast.

Æðstu embættismenn þjóðarinnar mega halda áfram að ausa hver annan svívirðingum. Þingmenn eiga endilega að viðhalda þeim góða og þjóðlega sið að nota drjúgan part úr ræðutíma sínum á Alþingi til að kalla ráðamenn ónefnum. Fjölmiðlarnir mega ekkert gefa eftir í því að leggja menn í einelti og auðmennirnir og þeirra talsmenn mega ekki hlífa sér í því þjóðþrifaverki að moka undan réttarkerfinu.

En almenningur má ekki vera reiður og við skulum endilega hneykslast á því hvernig fólkið  í landinu leyfir sér að tala.

Orðbragðið sem líðst í ræðustóli Alþingis má ekki heyrast við eldhúsborð heimilanna eða í heitu pottum sundlauganna.

Og það er stórvarasöm þróun ef börn í íslenskum grunnskólum taka að stunda einelti á sama hátt og tíðkast hjá fullorðna fólkinu í íslenskum fjölmiðlum.

Myndin er af Fjörunni í akureyskum hauststillum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband