22.11.2011 | 14:59
Jólagjöf ársins
Við Háskólann á Bifröst starfar svonefnt Rannsóknasetur verslunarinnar. Það er samstarfsverkefni háskólans þar, efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, Samtaka verslunar og þjónustu, Bílgreinasambandsins og Kaupmannasamtaka Íslands.
Meðal viðfangsefna á Rannsóknasetri verslunarinnar eru jólagjafir. Nú flytja fjölmiðlar fréttir af rannsóknum setursins á þeirri venju landsmanna að kaupa jólagjafir og annað jólagóss.
Samkvæmt þeim fréttum munu Íslendingar kaupa 2,5% meira fyrir þessi jól en þeir keyptu fyrir þau síðustu. Þegar tekið hefur verið tillit til verðhækkana er þó um samdrátt upp á 2% að ræða.
Þá segir setrið okkur að hver Íslendingur muni að meðaltali eyða 38.000 krónum í neyslu vegna jólahaldsins.
Þetta eru merkilegar tölur.
Enn meiri tíðindum sætir þó sú niðurstaða vísindamannanna á Bifröst, að jólagjöf ársins 2011 sé spjaldtölva.
Ég hef reyndar lengi haft það á tilfinningunni en mikið er nú gott að vita að sá grunur var á rökum reistur.
Nú get ég hafið undirbúning jólanna í ljósi þessarar vísindalegu niðurstöðu rannsóknarfólks akademíunnar.
Öllum vafa hefur verið eytt og hægt er að anda léttar.
Listaskáldið góða sagði, að vísindin efldu alla dáð.
Nú flytja fjölmiðlar landsmönnum boð frá vísindunum um hvað skuli gefa ástvinum í jólagjöf, eigi gjöfin að standa undir nafni.
Hver vill lenda í því eftir jól að vera spurður með fyrirlitningu: Hvað segirðu, fékkstu ekki jólagjöf ársins?"
Þess má geta að verð á spjaldtölvu er um það bil helmingi hærra en sú upphæð sem hver Íslendingur eyðir að meðaltali í öll sín jólainnkaup, samkvæmt niðurstöðum rannsóknasetursins.
Það segir okkur að aðeins sáralítill hluti landsmanna hefur efni á jólagjöf ársins.
Þeir sem hyggjast hafa að engu tilmæli vísindamanna um jólagjafir og gefa ástvinum sínum ekki spjaldtölvu geta farið hálfa leið og gefið spjald - enda er í tísku að mótmæla og ekki vanþörf á.
Það mætti til dæmis byrja á því að mótmæla misnotkun á vísindum og gagnrýnislausum fréttaflutningi fjölmiðla.
Svo má líka vera rausnarlegur og gefa spjöld í stað spjalds. Hvenær voru kerti og spil jólagjafir ársins?
Og hvaða rannsóknir ætli hafi legið þar að baki?
Myndin: Akureyri og hennar helsta tákn.
Athugasemdir
Tek undir með séranum. Hér er ein skýringin á þessari "vísindalegu" niðurstöðu.
Jón Steinar Ragnarsson, 22.11.2011 kl. 20:25
Hahaha. Ísland 2011 er smám saman að verða Ísland 2007.
Svavar Alfreð Jónsson, 22.11.2011 kl. 22:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.