Gleðileg jól án upphrópunarmerkis

DSC_0016

Þegar þessar línur skrifast er ég farinn að leggja drög að jólakortunum sem eiga að vera dottin inn um bréfalúgur hjá vinum og vandamönnum áður en hátíðin gengur í garð.

Frumleg jólakort eru orðin svo algeng að þessi gömlu og góðu með jólasveinum og jesúbörnum fara smám saman að skara fram úr hvað frumleika áhrærir. Eitt hefur þó haldist á velflestum jólakortum landsmanna, frumlegum sem hefðbundnum, kveðjan góða:

„Gleðileg jól!"

Ég hef stundum verið að hugsa um þetta upphrópunarmerki. Það er þarna af því að um kveðju er að ræða. En kannski virkar upphrópunarmerkið dálítið frekjulega. Sumir gætu skilið það sem skipun.

Haltu gleðileg jól og hananú!

Og ef til vill upplifum við jólin sem eitt stórt upphrópunarmerki, bunka af verkefnum sem þarf að vinna, heilan helling af vandamálum sem þarf að leysa. Jólaundirbúningurinn er þegar hafinn og hann er fólginn í skipunum sem berast úr öllum áttum.  Gerðu þetta og gerðu hitt! Þú þarft að kaupa þetta!

Sé því þannig farið er kominn tími til að setja spurningarmerki aftan við upphrópunarmerkið og endurskoða afstöðuna til jólanna.

Vissulega þarf að gera heilmikið fyrir jólin. Þau geta verið kröfuhörð og menn gera sér ekki dagamun öðruvísi en að leggja eitthvað á sig. En vikurnar framundan eiga ekki bara að kosta orku. Þær eiga líka að gefa okkur kraft. Það getur þessi tími svo sannarlega gert.

Þá eigum við samfélag við það fólk sem er okkur nánast.

Næstu vikurnar syngjum við meira en á öðrum tímum ársins. Söngur er vanmetin heilsurækt. Hann er á við hressilegan sundsprett.

Aðventan og jólin eru tími listanna. Við lesum bækur, horfum á myndir og hlustum á tónlist. Það er gefandi.

Og ekki megum við gleyma því, í öllum önnunum og erlinum, að aðventan er fasta, tími íhugunar, kyrrðar og hvíldar. Sé söngurinn vanmetin heilsurækt er hvíldin það enn frekar.

Og síðast en ekki síst er orkuuppsprettu komandi daga að finna í helgihaldi þeirra, hvort sem kveikt er á kerti heima í stofunni eða farið á aðventustund í kirkjunni.

Megi aðventan færa þér blessun og gleðileg jól.

Myndin: Klettur með jólasveinaskegg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband