Ljósberinn

DSC_0202 

Við Akureyrarkirkju starfar líknarsjóðurinn Ljósberinn sem stofnaður var til minningar um sr. Þórhall Höskuldsson, fyrrverandi sóknarprest við kirkjuna.

Framlög koma í sjóðinn eftir ýmsum leiðum, allt árið um kring, en árlegir Ljósberatónleikar eru ein mikilvægasta fjáröflun hans.

Í ár voru þeir 14. desember og eins og venjulega hafði Björg Þórhallsdóttir, söngkona og dóttir sr. Þórhalls heitins, yfirumsjón með tónleikunum. Bróðir hennar, Höskuldur, var kynnir.  Tónleikarnir tókust frábærlega og full kirkja af fólki naut tónlistar einvala liðs listamanna.

Það kemur í hlut okkar presta Akureyrarkirkju að úthluta úr sjóðnum. Ég vil fyrir hönd styrkþega þakka öllum þeim sem gefið hafa í hann. Framlög úr sjóðnum eru alla jafna ekki há en munar svo sannarlega um þau.

Fleiri hafa beðið okkur prestana fyrir peninga til þeirra sem lítið eða ekkert eiga fyrir þessi jól, bæði einstaklingar og félög.  Þeim vil ég ennfremur þakka.

Samkvæmt vígsluheiti presta eiga þeir að vera málsvari fátækra og boðberar réttlætis.

Svo sannarlega eru fátækir á meðal okkar. Kreppur koma harðast niður á þeim sem veikastir eru fyrir. Kjör sumra þjóðfélagshópa eru þjóðarskömm.

Þó að margir hafi lapið dauðann úr skel í góðærinu svokallaða er mín tilfinning sú að kreppan hafi skerpt skilin á milli ríkra og fátækra í þessu landi. Þeir fátæku hafi enn minna á milli handanna en þeir ríkustu hafi jafnvel grætt á ástandinu.

Ef til vill ættu fleiri stéttir en prestar að heita því að tala máli fátæklinga og boða réttlæti?

Myndin: Desembersól í eyfirskum skógi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Taka prestar eitthvað mark á vígsluheitinu?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 19.12.2011 kl. 18:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband