Brosandi fólk með rauð nef í ryðguðum smábíl með bilaða miðstöð

DSC_0504 

Núna rétt fyrir jólin sá ég bíl hossast eftir illa mokaðri Glerárgötunni. Þetta var gamall bíl, ryðgaður og pínulítill en fleytifullur af fólki og góssi. Plássið aftan við aftursætin var yfirfullt af innkaupapokum og á toppinn á þessu agnarsmáa farartæki var búið að binda eitthvert stærsta jólatré sem ég hef augum litið. Það var auðvitað enn stærra þegar það dúaði þarna á þessum smábíl svo greinarnar slettust niður fyrir hliðargluggana. Og inn á milli grenigreinanna sem nánast þöktu bifreiðina glitti í bros á vörum, roða í kinnum og prjónahúfur á höfðum því sennilega hefur miðstöðin verið biluð í þessum gamla bíl og það var kalt.

Í öllum önnum jólanna koma stundum augnablik sem sanna manni að jólin séu að koma. Það gerist eitthvað ekta sem fær mann til að skynja jólin og það sem þau snúast um; andi jólanna hellist yfir mann og einmitt það gerðist þessi andartök þegar ég sá grænt jólatréð bylgjast á þaki japansks smábíls sem var fullur af jólagóssi og brosandi fólki með prjónahúfur og rauð nef.

Í vetur hef ég stundað spinning en sú íþrótt er í því fólgin að fólk safnast saman og hjólar eins og það eigi lífið að leysa án þess að hreyfast spönn úr rassi. Þetta eru með öðrum orðum tilgangslausar hjólreiðar. Eftir síðasta spinningtímann minn fyrir jól hitti ég mann í sturtunni sem sagði það eiginlega stórfurðulegt að enn væri boðið upp á spinning í líkamsræktarstöðvum. Þar væri alltaf verið að bjóða upp á einhverjar nýjungar og hann kunni ekki einu sinni að nefna þær allar. Flestar eru gleymdar - en spinning hefur lifað af í marga áratugi. „Sennilega vegna þess að spinning hefur reynst vel," sagði maðurinn undir sturtunni og bætti við „já, eins og jólin, þau eru búin að duga margar aldir, eru alltaf jafn vinsæl þótt þau séu í raun og veru gamlar lummur."

Þetta var auðvitað hárrétt hjá manninum. Ýmsar atlögur hafa verið gerðar að jólunum og eru enn gerðar. Reynt hefur verið að telja þjóðinni trú um að jólin gangi bara út á verslun og neyslu. Fullyrðingar hafa verið settar fram um að jólin séu heiðin hátíð en ekki kristin og snúist um gang himintunglanna. Gerð hefur verið tilraun til að banna jólaguðspjallið innan 16 ára.

 Jólin hafa staðist þessar atlögur allar.

Og ár eftir ár koma þessi augnablik og andartök þegar við finnum fyrir nálægð heilagra jóla. Ef til vill komumst við aldrei nær þeim en þegar við heyrum jólaguðspjallið og við sjáum fyrir okkur þau Maríu og Jósef, Jesúbarnið í jötunni, fjárhirða á völlunum og englana á himninum. Þá kemur upp andartakið þegar jólaandinn gagntekur okkur.

Og nú erum við komin hingað í kirkjuna. Undirbúningi er lokið. Og þó að ekki hafi náðst að klára allt verður ekki meira gert því nú láta jólin ekki bíða lengur eftir sér. Þau eru komin. Þrátt fyrir allar hindranirnar og allt það ótalmarga sem ógnar tilvist jólanna eru þau hér, rétt eina ferðina, og þrátt fyrir allt sem gæti hafa afvegaleitt okkur á leið okkar til jólanna og þrátt fyrir allt það ótalmarga sem gæti hafi truflað jólin á leið þeirra til okkar eru þau hér eitt árið enn.

Ekki hefur farið framhjá neinum að margir halda nú jól sín í skorti. Við hugsum til þeirra allra og ég vil leyfa mér hér að þakka fyrir þann mikla stuðning sem Líknarsjóðurinn Ljósberinn fékk núna fyrir jólin. Þær gjafir allir lýsa sönnum jólaanda og framlögin munu nýtast þeim sem fyrir þau hafa þörf. En þó að ég vilji ekki lofsyngja fátæktina eða skortinn vil ég benda á að jólin koma líka til þeirra sem ekki eiga mikið. Og það að fólk hafi nóg handanna á milli er engin trygging fyrir góðum og heilögum jólum.

Þó væri ég ekki að segja alveg satt ef ég staðhæfði hér að jólin snérust ekki um það ytra. Auðvitað gera þau það. Þau snúast um ákveðið útlit, myndir, ilm, bragð og hljóð. Jólamatur, jólakökur, jólaljós og jólalög, allt er þetta hluti jólanna. En kjarna þeirra er samt ekki að finna í neinu af því. Kjarni jólanna er nokkuð hreint, einfalt, óspillt, ekta.

Og hugsið ykkur: Þrátt fyrir alla þessa miklu umgjörð, sem við erum búin að smíða utan um jólin, alla þeirra miklu yfirbyggingu, allar sögurnar sem samdar hafa verið um jólin, öll jólaljóðin og jólalögin, þrátt fyrir allar annirnar, allan undirbúninginn og alla okkur miklu vinnu dag og nótt, þá er kjarna jólanna að finna í einfaldri sögu sem gerðist fyrir tvöþúsund árum, af fátækum foreldrum, fátæku barni sem fæddist í allsleysi, var lagt í jötu og var heilsað af fjárhirðum úr næsta haga.

Við leitum Guðs gjarnan í því stóra og háa og mikla. Guð er eilífðin, hann er almáttugur, hann er óendanlegur, hann á sér hvorki upphaf né endi, hann er óskiljanlegur. Slíkum Guði hæfir mikil hátíð og flókin og skrautleg.

Á kristnum jólum erum við leidd að jötunni og við okkur er sagt: Guð er ekki lengur einhvers staðar úti í ómælum himnanna, hann er ekki lengur óskiljanlegur og ósnertanlegur, hann er hér. Þú sérð hann í barninu sem sefur í hálmi jötunnar. Saga jólaguðspjallsins er saga þess Guðs. Guð finnum við ekki í mörgum bindum af frumspekilegum skilgreiningum. Guð finnum við með því að heyra söguna og horfa ofan í jötuna.

Guð er í barninu og þar er hann kominn að vitja þín.

Ekkert er saklausara, hreinna og óspilltara en sofandi nýfætt barn. Þess vegna er það ekki endilega það háa og tilkomumikla sem kemur okkur í snertingu við jólin heldur allt það sem er ekta og einlægt, saklaust og hreint.

Og þess vegna eru jólin ekki endilega fólgin í drunum flugeldasýninga heldur ekki síður í flökti kertis.

(Prédikun við aftansöng í Akureyrarkirkju á aðfangadagskvöld 2010)

Myndin er af glitskýjum yfir Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Veistu það Svavar, á meðan þú skrifaðir þessa væmni.. þá létu einhver hundruð barna lífið vegna hungurs og sjúkdóma... og þú talar um barnið í jötunni, son master of the universe.

Ég hef trú á því að þú náir þér út úr þessu Svavar, það er bara að taka sjálfan sig úr plottinu, þá fellur það um sjálft sig; Því þetta byggir allt á sjálfselsku, eins og þú veist, innst inni.

DoctorE (IP-tala skráð) 28.12.2011 kl. 09:19

2 Smámynd: Dagný

Kristin trú er falleg trú og siðferðisboðskapur hennar á alltaf við. Þótt sagan væri upplogin þá væri boðskapurinn samt þess virði að lifa eftir honum. Og jú - Jólin snerta í flestum innsta kjarnan - barnið sem horfir á ljósið.

Dagný, 5.1.2012 kl. 19:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband