Pravda ríkisstjórnarinnar

 DSC_0374

Síðastliðinn fimmtudag mætti nýráðinn upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar í viðtal í útvarp ríkisins til að kynna sig, hlutverk sitt og draum sinn um samfélagið. Orðrétt sagði hann:

„Ég mun halda mig við staðreyndir, það er minn draumur að búa í samfélagi sem byggir umræðuna meira og minna á köldum staðreyndum en minna á svona, þið vitið, umræðuhefð sem að við þekkjum mjög vel þar sem skoðunum er haldið á lofti og jafnvel brestur út í einhvern svona einhvern hráskinnaleik, bara segja svona skrum jafnvel. Ég kann því æ verr með aldrinum, þessháttar umræðu."

Upplýsingafulltrúinn greindi okkur ennfremur frá því að mikið offramboð væri af upplýsingum á Íslandi. Þess vegna væri sífellt erfiðara að skilja meginatriði og sjá mál í samhengi. Hann ræddi um nýútkomna skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands en um hana hafa verið skiptar skoðanir. Upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar sagði að það yrði hlutverk sitt „að paufast í gegnum svona mál" og segja þjóðinni hvað sé satt og hvað sé  rétt.

Samkvæmt þessu hefur ríkisstjórnin ekki ráðið sér upplýsingafulltrúa til að dreifa upplýsingum. Ríkisstjórnin hefur nú á sínum snærum starfsmann sem mun segja þjóðinni hvað sé rétt og satt í öllu því mikla upplýsingaflóði sem á henni skellur á degi hverjum. Þessi starfsmaður ríkisstjórnarinnar mun halda sig við kaldar staðreyndir og því þarf ekki að efast um neitt sem frá honum kemur. Ríkisstjórnin hefur ennfremur ráðið sér talsmann sem síður kýs umræðuhefð „þar sem skoðunum er haldið á lofti".

Þar eiga einungis að vera hinar jökulköldu staðreyndir fulltrúans. Skrum líðst ekki.

Lýðræðismenning er meðal annars í því fólgin, að þar fá ólík og stundum andstæð viðhorf að takast á.  Við stuðlum að öflugri og þroskaðri lýðræðismenningu með því annars vegar að tryggja borgurunum aðgang að fjölbreytilegum skoðunum og viðhorfum. Hins vegar hlúum við að lýðræðismenningu með því að hjálpa fólki að tileinka sér gagnrýna hugsun og grundvallarreglur lýðræðislegrar umræðu.

Í alræðisríkjum er ekki rými fyrir margar skoðanir. Þar leyfist helst ekki nema ein skoðun, hin viðurkennda ríkisskoðun. Hún er bláköld staðreynd og um staðreyndir þarf ekki að ræða frekar. Alræðisríki eiga helst ekki nema einn Sannleika, Prövduna.

Það setti því að mér örlítinn hroll eftir viðtalið við hinn nýráðna upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar.

Þó gat ég ekki varist brosi þegar upplýsingafulltrúinn sagði að ráðning hans væri í takti við áherslur ríkisstjórnarinnar á gagnsæi því ekki verður betur séð en að ríkisstjórnin hafi beitt ógagnsærri aðferð við ráðningu þessa gagnsæisstarfsmanns síns:

Fyrr á árinu var staðan auglýst laus til umsóknar. Umsækjendur skiptu tugum enda atvinnuleysi meðal íslenskra blaðamanna. Enginn var ráðinn þá en nú er ráðið í stöðuna án auglýsingar.

Upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar benti einnig á að ríkisstjórnin hefði á stefnuskrá sinni betri upplýsingagjöf til almennings. Jafnframt fannst honum ekki nema sjálfsagt að forsætisráðherrann vildi láta lítið fyrir sér fara í fjölmiðlum.

Sennilega er það mjög í anda þeirrar stefnu ríkisstjórnarinnar, að bæta upplýsingagjöf til almennings og auka gagnsæi, að æðsti ráðamaður þjóðarinnar vilji helst sem minnst við þjóðina tala.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Góður pistill.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 11.2.2012 kl. 04:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband