Lyktin af forsetanum

GDR_Stasi_Duftproben[1] 

Þegar þessar línur skrifast eru þýskir fjölmiðlar að tilkynna nýjan forseta þýska sambandslýðveldisins.

Sá heitir Joachim Gauck.

Gauck var borgari í gamla austur-þýska alþýðulýðveldinu og tók þátt í andófinu gegn því.

Þegar DDR varð gjaldþrota, efnahagslega og hugmyndafræðilega, var ákveðið að borgararnir gætu nálgast öll gögn um sig sem voru að finna í hirslum þýsku leyniþjónustunnar, STASI.  Eftir hrun múrsins var Gauck skipaður yfirmaður þessa gríðarlega gagnasafns en drjúgur hluti borgara hins sósíalíska alþýðulýðveldis var á mála hjá leyniþjónustu landsins við að njósna um samborgara sína.

Vorið 1994 var ég á ráðstefnu í Berlín og heimsótti STASI. Gauck tók á móti okkur. Hann er mjög eftirminnilegur maður.

Ég hef sagt frá þessari heimsókn minni áður hér á blogginu og endurbirti hér hluta þeirrar frásagnar.

Gauck sagði okkur sögu Stasi og leiddi okkur um húsakynni stofnunarinnar. Við sáum meðal annars deildina sem sá um að opna bréf til almennings.

Það eftirminnilegasta var samt risastór geymslusalur, fullur af vandlega lokuðum glerkrukkum. Hver þeirra var merkt mannsnafni og hafði að geyma klút. Við gestirnir vissum ekkert hvað þetta var en Gauck vissi af eigin raun hvað hér var um að ræða.

Á sínum tíma var Gauck æskulýðsprestur í borginni Rostock í gamla austurhlutanum. Margir prestar létu um sig muna í andófi gegn alræðinu og auk þess var kirkjan bakhjarl friðarhreyfinga sem voru stjórnvöldum mikill þyrnir í augum. Einu sinni sem oftar var Gauck færður til yfirheyrslu. Að henni lokinni var honum réttur klútur og hann beðinn að nudda honum við nára sér. Þar er víst mesta útstreymi lyktar á líkamanum og þess vegna hoppa hundar gjarnan í klof manna.

Klúturinn var svo gripinn með töng og settur ofan í krukku. Henni var lokað og síðan var hún merkt og komið til geymslu á vísum stað. Gauck var einn fjölmargra borgara sem þótti líklegur til að reyna flótta vestur yfir. Þess vegna fannst þeim vissara að eiga lykt hans til að geta sent hundana á eftir honum.

Stasi fylgdist vel með sínum, skráði hjá sér daglega hegðun fólks, hlustaði á það tala við sína nánustu við eldhúsborðið og elskast á kvöldin. Þar að auki átti ríkið lykt af þúsundum borgara sinna.

Myndin er fengin af Wikipedia.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mjög áhugavert. Joachim Gauck verður líklega forseti Þýskalands. Gauck er guðfræðingur, intellektueller, stórvel gefinn maður. Kannski ekki alveg af sama kalíber og Richard von Weizsäcker, en góður maður. En eins og flestir vita sagði Christian Wulff af sér fyrir nokkrum dögum, eftir að í ljós kom að hann var að skakklappast út um allar koppagrundir með þýskum auðkýfingum. Þó ekki með neinum þjófum og bófum eins og okkar forseti.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 19.2.2012 kl. 23:17

2 identicon

Der Spiegel.

 

Dann schließlich erschien Gauck: Er betrat den Kabinettssaal und war sichtlich ergriffen. "Er weinte", erinnert sich ein Teilnehmer - vor Rührung.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 20.2.2012 kl. 14:30

3 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Svavar.

Langt síðan ég hef kíkt á bloggið og eins og venjulega er fróðleikur og skemmtileg lesning á þinni síðu.

Þessi pistill er mjög góður.

Takk fyrir hann.

 Kveðja Kolla

Kolbrún Stefánsdóttir, 21.2.2012 kl. 19:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband