ÁTVR og heimilisfriðurinn

DSC_0574

Nýlega komst úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála að þeirri niðurstöðu að ÁTVR væri heimilt að stækka vínbúð sína við Hólabraut á Akureyri. Íbúar í næstu götum við verslunina höfðu kært þær ákvarðanir bæjaryfirvalda á Akureyri að leyfa framkvæmdina.

Ein vinsælasta verslunin í höfuðstað Norðurlands er þessi vínbúð ríkisins. Hún er staðsett í gömlu íbúðahverfi með þvengmjóum götum. Bílastæði eru af skornum skammti.

Á álagstímum er vitlaust að gera í þessari einu áfengisverslun í mesta þéttbýliskjarna utan suðvesturhornsins. Búðin er svo lítil, að stundum verður að hleypa inn í hana í hópum. Oft nær biðröðin frá dyrum verslunarinnar út á götu. Þá verða bæjarbúar og aðkomumenn  að standa úti  í kulda og trekki uns þeim er hleypt inn í dýrðina og hlýjuna - þótt yfirleitt sé gott veður á Akureyri eins og alþjóð veit.

Heyrt hef ég af fólki sem komið hefur í verslunina svo troðna af kúnnum, að ekki var um annað að ræða en láta berast með straumnum milli flöskurekkanna og freista þess að sópa einhverjum guðaveigum ofan í körfuna áður en komið var að afgreiðslukössunum.

Á slíkum dögum eru bílastæðin við verslunina fljót að fyllast. Bifreiðum viðskiptavinanna er þá troðið á ólíklegustu staði. Þær standa á öllum gangstéttum í kringum búðina, húsbílum er lagt fyrir innkeyrslur íbúanna og vambsíðir pallbílar með fellihýsi standa malandi við eldhúsgluggana. Umferðargnýrinn er stöðugur og olíubræla liggur yfir hverfinu. Börn eru í stórhættu þar sem þau skjótast út á götuna á milli bílanna í þessum þröngu götum.

Lengi hefur forráðamönnum ÁTVR verið ljóst, að vínbúðin á Akureyri er of lítil og aðkoma ófullnægjandi, bæði fyrir viðskiptavini og aðdrætti. Árið 2007 auglýsti fyrirtækið eftir húsnæði sem það hugðist taka á leigu. Þar voru skilyrðin meðal annars þau, að góð aðkoma væri fyrir viðskiptavini, flutningabíla og lyftara, nóg væri af bílastæðum og ennfremur þyrfti húsnæðið að vera á skilgreindu verslunarsvæði.

Ekki fannst hentugt húsnæði þá - enda 2007. Nú er öldin önnur. Fjöldi verslana í bænum er annaðhvort farinn á hausinn eða hefur flutt í minna húsnæði. Sú þörf sem lýsir sér í auglýsingu ÁTVR hefur á hinn bóginn ekki breyst. Verslun ÁTVR við Hólabraut er enn sú sama og einnig umhverfið. Hvort tveggja taldist ófullnægjandi árið 2007 og ekki drekka landsmenn minna af göróttum drykkjum nú en þá.

Því á maður erfitt með að skilja þá ráðstöfun ÁTVR, að hætta við að flytja verslun sína úr Hólabrautinni. Þess í stað vill fyrirtækið byggja við hina aðþrengdu búð sem þar er. Mannvirkið á að vera 126 fm að grunnfleti og jafnhátt núverandi húsnæði.

Íbúar í hverfinu eru ekki sáttir við þessi áform og erfitt er að sjá hvaða vanda ÁTVR er að leysa með þeim. Fyrir fimm árum taldi fyrirtækið hvorki aðkomu viðskiptavina að versluninni nógu góða né bílastæðin. Mun 126 fm nýtt hús á þessu þrönga plássi laga það eða bæta athafnarými flutningabíla og lyftara?

Og er hverfið nú orðið að skilgreindu verslunarsvæði?

Ég er enginn sérstakur áhugamaður um vínbúðir og mér er heldur ekki í nöp við þær en ég hef áhyggjur af íbúunum, fólkinu sem býr í nágrenni við þessa verslun. Oft hefur mér verið hugsað til þess þegar ég hef átt leið um Hólabrautina og séð örtröðina í kringum búðina.

Heimili á að vera griðastaður. Ein frumskylda yfirvalda í hverju sveitarfélagi er að verja það hlutverk heimilanna. Of lengi hafa íbúar í nágrenni vínbúðarinnar við Hólabraut þurft að búa við skert lífsgæði vegna nábýlisins við verslunina.

Bær sem auglýsir sig undir slagorðinu „Öll lífsins gæði" getur ekki látið viðgangast, að hluti borgaranna sé sviptur réttinum til öruggra heimila.

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hlýtur að vilja bjóða viðskiptavinum sínum í höfuðstað Norðurlands upp á sómasamlega aðstöðu til innkaupa. Þetta ríkisfyrirtæki getur ekki haft áhuga á að reka verslun sína þannig, að lífsgæði fólks skerðist og heimilisfriður þess spillist.

Myndin: Umrædd verslun er í grænu byggingunni sem glittir í á milli húsanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alveg er ég sammála þessu, og hef ég margoft nefnt að verslunarmiðstöðin í Sunnuhlíð stendur nánast tóm. Þar er fullt af bílastæðum og allt sem þarf til að ágætis vínbúð geti verið með starfssemi þar, það myndi þá líka verða til þess að fleiri verslanir myndu opna þar og þetta draugahús öðlast líf að nýju :)

Jokka (IP-tala skráð) 3.3.2012 kl. 18:20

2 identicon

Sæll Svavar

Ég átti fyrir nokkrum árum eitt húsanna sem sjást á myndinni (þetta með rauða þakinu) og má til með að hnýta aðeins í umfjöllun þína, ekki endilega af því að ég sé ósammála þér, heldur af því að þú ert ónákvæmur í umfjöllun þinni.

Það fer mjög lítið fyrir umferðargný í þessu hverfi einfaldlega af því að umferðarhraðinn er svo lítill þarna að það verður engin hávaðamengun. Ég fann aldrei fyrir því að bílastæðið væri smekkfullt fyrr en ég leit út um gluggann og sá fjöldann með eigin augum og olíubræla á engan veginn við heldur - en ég var líka yfirleitt upptekin við að dáðst að því skemmtilega mannlífi sem fyrir utan gluggann var því ég var meðvituð um nálægð verslunarinnar þegar ég keypti húsið mitt og leitaði eftir því að láta sambýlið ganga upp frekar en hitt.

Þetta var virkilega skemmtilegur blettur til að búa á í bænum og hafði ég persónulega ekkert nema gott að segja um nábýli ríkisins þótt ég verslaði ekki við þá sjálf nema tvisvar á þriggja ára tímabili.

Hins vegar hugsaði ég oft um það að það væri synd að verslunin væri svona útúrdúr inni í litlu íbúðarhverfi því það gat myndast svo skemmtilegt mannlíf í kringum hana. Mér finnst persónulega að hún ætti að vera inni í miðbæ - til að lífga upp á mannlífið þar. Ég mæli því með jákvæðari nálgun á málinu hjá þér og að þú skáldir ekki upp upplifun okkar íbúanna. Ummæli þín um umferðargný og olíubrælu fá mig til að efast um raunverulegt samráð við íbúana. Hús mitt var alveg við ríkið og aldrei nokkurn tímann átti ég samræður við aðra íbúa hússins míns eða við nágranna mína um umferðargný eða olíumengun.

Auðvitað var stundum lagt í bílastæðið mitt sem gat verið bagalegt því ég var með tvö lítil börn en það var líka merkilega oft ekki lagt þar þó mjög mikil örtröð væri í ríkinu. En ég pirraði mig sjaldnast á því að þurfa að leggja örlítið framar eða aftar því ég hafði svo gaman af lífinu í kringum þetta.

En endilega hvettu áfram til flutnings, til að hin skemmtilega stemmning sem skapast í kringum verslunina þegar líður á vikuna geti lífgað upp á t.d. daufan miðbæ eða úthverfaverslunarmiðstöð.

Kristín Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 4.3.2012 kl. 12:48

3 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Kæra Kristín!

Þakka þér fyrir að deila með okkur þinni upplifun af nábýlinu við verslun ÁTVR við Hólabraut.

Því miður virðist stór hluti fyrrum nágranna þinna ekki vera þér sammála eins og sjá má t. d.  hér og hér.

Ég er nokkuð viss um að kvartanir og kærur þessa fólks eru ekki til komnar vegna óvildar í garð verslunarinnar heldur telur þetta fólk sig verða fyrir ýmsum óþægindum vegna staðsetningar vínbúðarinnar. Þær upplifanir eru enginn skáldskapur.

Þú þarft heldur ekki að efast um samráð mitt við íbúana. Til dæmis las ég ofangreindan pistil minn fyrir einn þeirra þótt vissulega sé hann á mína ábyrgð.

Bestu kveðjur,

Svavar Alfreð Jónsson, 4.3.2012 kl. 18:10

4 identicon

Áhugaverðar fréttir, þær höfðu alveg farið fram hjá mér - en ég bý reyndar ekki á Akureyri lengur. En það stendur samt að hvorki er umferðargnýr né olíubræla fylgjandi nábýlinu við ríkið. En það eru auðvitað þrengsli og örtröð sem greinilega ekki öllum líkar.

Og svo er ég sammála því að ríkið ætti að staðsetja annars staðar þó það sé af öðrum ástæðum en þú tiltekur.

Kristín Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 5.3.2012 kl. 12:07

5 identicon

Mér skilst að Ríkið hafi reyndar gert samning um leigu á húsnæði sem til stóð að byggja við hornið á Glerárgötu og Tryggvabraut en það hús var aldrei byggt.

Vilhjálmur Árnason (IP-tala skráð) 7.3.2012 kl. 17:11

6 identicon

Mér finnst það óásættanlegt að hagsmunir ÁTVR séu teknir fram yfir hagsmuni íbúanna. - Trúi því að /ATVR sjái að sér og flytji vínbúðina.  Þarna er fallegt lítið hverfi, sem við höfum alist upp með og viljum hlúa að. Flestir fullorðnir Akureyringar eru á móti því að hafa ríkið á þessum stað áfram (sbr. könnun HA). Vonandi á íbúunum  í þessu hverfi eftir að líða vel og  vonandi fá  þeir að vera í friði.

Sigurbjörg Pálsdóttir (IP-tala skráð) 13.3.2012 kl. 15:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband