15.3.2012 | 10:10
Lof og last
Um tungumálið gildir það sama og aðrar gjafir Gjafarans: Það má nota bæði til góðs og ills.
Málið getum við notað til að ljúga, rægja, móðga, niðurlægja og særa en með því má líka segja sannleikann, hrósa, byggja upp og lofa.
Það skiptir máli hvernig við beitum málinu. Undanfarnar vikur hefur til dæmis verið í umræðunni hvernig sumir leyfa sér að tala um konur á netinu. Sú goðsögn virðist ætla að vera lífseig, að einhverjar aðrar reglur um kurteisi og siðgæði eigi að gilda þar en í öðrum samskiptum manna á milli. Siðleysið á netinu, gífuryrðin þar, svívirðingarnar um nafngreindar manneskjur og þjóðfélagshópa, þetta hefur áhrif. Óhörðnuð börn eyða til dæmis miklum tíma á netinu og margir telja að sé siðferðisstuðullinn færður niður á einum miðli sé þess skammt að bíða að hann færist niður á öðrum líka.
Orð hafa áhrif og þá skiptir ekki höfuðmáli hvort þau eru sögð augliti til auglitis, hvort við heyrum þau í útvarpi, lesum þau í bók eða nemum þau af tölvuskjá.
Við skulum vera þakklát fyrir að búa við málfrelsi sem má nota til að gagnrýna, setja út á og vanda um.
Hinu megum við ekki gleyma, að það frelsi gefur okkur líka svigrúm til að vekja athygli á því sem vel er gert, hrósa, lofa og byggja upp. Það er reyndar ekki vel séð af öllum og stundum er gefið í skyn að nánast hallærislegt sé að hafa þá trú á því góða og bjarta, að vilja gefa því rúm í umræðunni. Bent er á að ævinlega sé áhætta fólgin í hrósinu því við gætum verið að hrósa einhverju slæmu.
Varð Hrunið ekki vegna þess að við vorum gagnrýnislaus?
Jú, vissulega getur verið hættulegt að vera of gagnrýnislaus og hrósa og lofa. Við gætum verið að lofa eitthvað sem í raun verður til bölvunar. En fylgja ekki nákvæmlega sömu hættur lastinu? Við gætum verið að lasta og rífa það niður sem er til blessunar.
Við skulum endilega halda áfram að vera gagnrýnin og efast um ágæti hlutanna. Eitt skulum við samt muna: Það er yfirleitt miklu auðveldara að lasta en lofa. Það er ekkert stórmál að finna eitthvað neikvætt við nánast hvað sem er.
Hitt getur verið undarlega erfitt, að finna björtu blettina. Stundum er hinn ásakandi vísifingur léttasti líkamsparturinn en vöðvarnir sem mynda brosið og opna faðminn stirðir og linir.
Við skulum halda áfram að benda á það sem betur má fara. Við skulum halda áfram að vera gagnrýnin. En við skulum umfram allt láta það sjást í máli okkar, að við viljum taka okkur stöðu með lífinu andspænis dauðanum, spilum í liði með elskunni gegn illskunni og höfum meiri trú á ljósinu en myrkrinu.
Myndin er úr Akureyrarkirkju
Athugasemdir
Godur pistill og vel skrifad, eins og thin er von og visa.
Islendingur (IP-tala skráð) 15.3.2012 kl. 10:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.