13.5.2012 | 12:41
Að hengja bónda fyrir auðmann
Í 2. kafla 1. bindis skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eru dregnar saman helstu niðurstöður þess mikla og þarfa verks. Fyrsta skýringin sem nefnd er á falli íslensku bankanna er ör vöxtur þeirra.
Efnahagur og útlán bankanna uxu fram úr því sem innviðir þeirra þoldu. Utanumhald og eftirlit með útlánum fylgdi ekki eftir útlánavextinum,
segir í skýrslunni.
Ein forsenda þessa ofvaxtar bankanna er var greiður aðgangur þeirra að alþjóðlegum fjármálamörkuðum, m.a. vegna góðs lánshæfismats sem þeir fengu í arf frá íslenska ríkinu eins og skýrsluhöfundar benda á. Einnig gerði EES-samningurinn bönkunum kleift að sækja sér peninga til útlanda. Á árinu 2005 sóttu íslensku bankarnir 14 milljarða evra á erlenda skuldabréfamarkaði sem var rúm landsframleiðsla Íslands sama ár.
Stjórnvöld hefðu þurft að grípa inn í þennan alltof hraða vöxt en gerðu það ekki eða eins og skýrsluhöfundar orða það:
Þvert á móti var það stefna ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar samkvæmt stjórnarsáttmála frá 23. maí 2007 að tryggja að fjármálastarfsemi gæti áfram vaxið hér á landi og sótt inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði. Það var einnig stefna ríkisstjórnarinnar að útrásarfyrirtæki sæju sér áfram hag í að hafa höfuðstöðvar á Íslandi.
Í þessum meginniðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis er ennfremur nefnd sú staðreynd, að þeir sem helst fengu peninga að láni úr þessum nýríku bönkum, voru eigendur þeirra.
Stærstu lántakendur hjá Glitni voru Baugur og félög honum tengd. Við fall Glitnis skulduðu þeir aðilar bankanum 250 milljarða króna eða 70% af eiginfjárgrunni bankans.
Mesti skuldunautur Kaupþings var Robert Tschenguiz en sá næststærsti Exista sem skuldaði bankanum 200 milljarða króna þegar bankinn fór á hausinn.
Feðgarnir Björgólfur Thor og Björgólfur Guðmundsson voru með stærstu skuldirnar í Landsbankanum og átti bankinn inni hjá þeim vel yfir 200 milljarða króna.
Margt fleira er nefnt í skýrslunni, m. a. skortur á eftirliti og mistök í hagstjórn.
Töluvert vatn hefur runnið til sjávar síðan skýrslan kom út árið 2010 en nú berast þær fréttir, að helstu skuldunautar íslensku bankanna frá því fyrir Hrun hyggi á endurkomu. Þannig er það orðað í leiðara DV frá 27. apríl síðastliðnum:
Við eigum að virkja útrásarvíkingana fyrrverandi í endurreisn samfélagsins í stað þess að halda þeim í útlegð. Ekki er vanþörf á því að kalla til verka alla þá sem hafa vit og þekkingu sem nýtast kann endurreisn Íslands.
Á sama tíma er umræðan í samfélaginu þannig, að manni skilst að helstu óvinir íslenskrar alþýðu séu annarsvegar bændur og hinsvegar útgerðarmenn - og sjómennirnir fyrir að kyssa vönd þeirra síðarnefndu. Bændur eiga að vera afætur og útgerðarmenn hrægammar.
Á árunum fyrir Hrun, þegar bankarnir og auðmennirnir óðu í peningum, var þenslan fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu. Bankar vildu helst ekki lána peninga langt norður fyrir Hvalfjörðinn. Peningarnir fóru í skynsamlegri" fjárfestingar og íslenska þjóðin sýpur nú seiðið af þeirri stefnu.
Nú eru helstu atvinnuvegir landsbyggðarinnar sagðir mestu skaðvaldarnir en þeir sem ryksuguðu peningana úr bönkunum boða endurkomu undir lúðrablæstri fjölmiðla og álitsgjafa. Fyrirgefning er boðuð - án þess að játuð hafi verið mistök eða sekt.
Í rannsóknarskýrslunni er einnig fjallað um þátt fjölmiðla í Hruninu (8. bindi). Í lokaorðum þeirrar umfjöllunar segir:
Færa má rök fyrir því að fjölmiðlar hér hafi einnig rammað inn umræðu um fjármálalíf á forsendum fjármálafyrirtækja og fjárfesta fremur en almennings. Stór hluti umfjöllunarinnar virðist runninn undan rifjum fyrirtækjanna sjálfra og það hversu jákvæð hún var bendir ekki til þess að efasemdir um grundvallaratriði í stefnu eða rekstri fjármálafyrirtækja hafi verið miklar.
Stundum er sagt að lítið hafi breyst á þessu landi frá því að bankarnir hrundu. Ég held að enn geti maður spurt sig, á hvaða forsendum umræðan í þessu þjóðfélagi sé og undan hvaða rifjum hún renni.
Myndin er af klukkum Þorgeirskirkju við Ljósavatn.
Athugasemdir
Eitt af forgangsloforðum sitjandi stjórnar var að að aðskilja fjárfestingar (brask) og þjónustustarfsemi banka. Það hefur enn ekki verið efnt þótt frumvarp liggi frammi um það. Þetta frumvarp endar alltaf neðst í bunkanum og enginn vilji virðist vera fyrir að breyta þessu afar mikilvæga atriði, sem er einn af grunnþáttum hrunsins. Það þarf ekki nema þriggja málsgreina bréf frá Arion banka, sem mælir gegn þessu án nokkurra vitrænna raka, til að menn hætti við að afgreiða málið. Þetta er einn stæsti reginskandall af öllum regin sköndulum þessarar ríkistjórnar. Þjónkun hennar við auðrónaelítuna er ekki hægt að líkja við neitt annað en Fasisma, sem samkvæmt skilgreiningu er samruni auðvalds og ríkisvalds.
Jón Steinar Ragnarsson, 13.5.2012 kl. 15:22
Mjog god grein hja ther Svavar, eins og alltaf.
Og athugasemdin hja Joni Steinar er god.
Islendingur (IP-tala skráð) 13.5.2012 kl. 21:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.