Sannleikurinn og lýðræðið

DSC_0923 

Ef setningin „leyfum þjóðinni að segja álit sitt" er gúggluð fást um 53.000 niðurstöður. Orðið „þjóðaratkvæðagreiðsla" kemur 266.000 sinnum fyrir á netinu samkvæmt sömu leitarvél. Þetta eru gríðarlega umtöluð og vinsæl fyrirbæri.

Fólk finnur Alþingi Íslendinga allt til foráttu og traustið til þess hefur sjaldan verið minna en núna. Þingbundið lýðræði á undir högg að sækja en beint lýðræði þykir gott. „Valdið til fólksins!" er óumdeilanlega eitt af slagorðum nútímans.

Og um það er auðvitað ekki nema gott eitt að segja. Vel má færa fyrir því rök, að best sé að fólk ráði sér að mestu leyti sjálft og beri þá líka sjálft ábyrgð á mistökum sínum og axarsköftum. Sjálfræði lýðsins er þó ákveðnum vandkvæðum bundið. Ef við eigum sjálf að taka ákvarðanir um hin ýmsu mál sem varða okkur öll, verða ákvarðanir okkar að styðjast við þekkingu á þeim málum. Við verðum að vita um hvað málin snúast og út á hvað atkvæðagreiðslurnar ganga. Lýðræði hefur alltaf upplýsta borgara að forsendu. Lýðræði virkar ekki þar sem fólk kærir sig kollótt um mál sín.

Þess vegna eru fjölmiðlar svo mikilvægir í fyrirkomulagi lýðræðisins. Lýðræðið þrífst ekki nema þar ríki andi sannleikans og fólk hafi aðgang að áreiðanlegum upplýsingum. Það eru ekki síst fjölmiðlarnir, sem eiga að halda fólki upplýstu. Til þess að geta sinnt því hlutverki sínu verður fólk að geta treyst fjölmiðlum, að þær upplýsingar, sem þeir gefa, séu réttar.

Hvað er satt? Ef til vill er þetta grundvallarspurning lýðræðisins. Til að lýðræðið virki verða þegnarnir stöðugt að spyrja sig hennar. Þeir mega ekki láta aðra um að svara henni. Þegnarnir eiga ekki að láta stjórnmálaflokka segja sér hvað sé satt. Fjölmiðlarnir eiga heldur ekki að svara því fyrir okkur hvað sé satt. Vissulega er það hlutverk fjölmiðlanna að miðla okkur ábyggilegum upplýsingum. Þeir geta líka sett þær í samhengi og fengið álit manna á hvað þær þýða en það er okkar að draga ályktanir af því sem við vitum og tengja það okkar eigin upplifunum og lífi.         Enginn má taka af okkur það ómak að mynda okkur skoðanir. Þess vegna er sannleikurinn aldrei bara eitthvað þarna úti, eitthvað sem sérfræðingarnir finna fyrir okkur og okkar er að meðtaka og kyngja.

Sannleikurinn er andlegur. Hann er ekki síður fyrir innan augun en hitt sem á sjónhimnunum dynur. Viljinn á sinn þátt í að ákvarða sannleikann okkar. Þar er ekki einungis skynsemin að verki. Oft finnst okkur það satt sem við viljum að sé satt. Þess vegna er svo gott að geta skoðað það sem öðrum finnst satt og bera það saman við okkar eigin sannleika. Það er einmitt annað meginhlutverk fjölmiðlanna: Þeir eiga að tryggja okkur aðgang að mismundandi sjónarhornum á veruleikann. Þeir eiga að sýna okkur hinar fjölbreytilegu upplifanir manna af því hvernig sannleikurinn lítur út.

Við eigum ekki að vera hrædd við upplifanir annarra af sannleikanum. Sannleikur annarra getur þvert á móti auðgað, dýpkað og styrkt okkar eigin. Þetta hafa menn til dæmis fengið að reyna í samræðum á milli trúarbragða. Því ætti það ekki að geta gerst einnig í íslenskri þjóðmálaumræðu? Eða eins og heimspekingurinn Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands orðar það nýlega í viðtali í Fréttatímanum:

Þegar við komum saman og leyfum hverjum og einum að njóta sín verður til eitthvað nýtt og jafnvel eitthvað óvænt.

Myndin: Ég held að þessi myndarfugl sé sílamáfur en bið menn mér fróðari að leiðrétta ef rangt er með farið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mér finnst allta undarlegt að tala yfirlætislega um "sannleikann" í óendanlega víðu samhengi eins og hann sé einhvert náttúruaflanna.

Hvernig sem menn skilgreina þetta orð færir okkur ekkert nær neinum ákveðnum sannleik eða hvað er sannleikur og hvað ekki. Sömuleiðis segir það okkur ekkert um sannleika að tala um afstæðni hans í erinhverri póstmódernískri hugarleikfimi. Hugtakið segir okkur heldur ekkert um hvort eitthvað sé rétt eða rangt, vont eða gott.

Mér finnst öll svona heimspeki andvana fædd. Hún veitir engin svör né skýrir neitt.

Jón Steinar Ragnarsson, 20.5.2012 kl. 22:21

2 identicon

Mér sýnist þetta vera Múkki á myndinni, vinur sjómannsins  

Varðandi sannleikann og lýðræðið.

Mér finnst margir ekki vera samkvæmir sjálfum sér varðandi lýðræði fólksins. Sumir vilja senda mál í þjóðaratkvæðagreiðslu ef þeir eru nokkurn veginn vissir um að meirihlutinn kjósi það sem er viðkomandi þóknanlegt. Ef að hinsvegar menn óttast að þjóðin muni velja þann kost sem þeim er ekki hugnanlegur, þá finna þeir því allt til foráttu að vísa málinu til þjóðarinnar.

Sum mál eru talin allt of flókin fyrir fólkið í landinu. Vissulega geta mál verið flókin til að taka upplýsta afstöðu til þeirra. En ég held að þjóðin sé gáfaðri og skynsamari en margir halda.

En hverjum á að treysta til að segja satt og rétt frá og upplýsa okkur ? Eru ekki flestir fjölmiðlar tengdir hagsmunaaðilum eða flokkum og velta málum ekki fyrir sér heldur beita einhliða áróðri í takti við bakland sitt ?

Gísli Gíslason (IP-tala skráð) 20.5.2012 kl. 23:11

3 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þakka framkomnar athugasemdir.

Ég veit, Jón Steinar, að þessar hugleiðingar mínar veita ekki skýr svör en ef þær vekja einhverjar spurningar er ég sáttur.

Þótt ég hafi sömu trú á þjóðinni og þú, Gísli, að hún sé skynsöm, á hún samt skilið að vera upplýst almennilega um þá valkosti sem fyrir hana eru lagðir. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að hagsmunaaðilar og flokkar eigi fjölmiðla. Tryggja þarf að eignarhaldið sé skýrt þannig að fólk viti hverjir standi á bak við hvern miðil. Auk þess er nauðsynlegt að koma í veg fyrir fákeppni eða einokun á fjölmiðlamarkaði. Það þarf að setja eignarhaldinu hömlur til að hindra að upplýsingagjöf og þjóðfélagsumræða komist í hendur einhverra örfárra. Í þriðja lagi þarf að mínu mati að efla Ríkisútvarpið og gera það þjóðarútvarp en ekki bitbein stjórnmálaflokka.

Svavar Alfreð Jónsson, 20.5.2012 kl. 23:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband