Réttar skoðanir á ESB

DSC_0038 

Á morgun tekur Alþingi Íslendinga ákvörðun um hvort efna eigi til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

Í helsta hitamáli á Alþingi undanfarna daga hafa bæði þingmenn og fræðimenn haldið því fram, að tillögur stjórnlagaráðs séu ekki nógu vel unnar til að unnt sé að fara með þær í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir hafa verið sakaðir um að vera á móti því að leita álits þjóðarinnar.

Stór hluti þeirra sem telja tillögur stjórnlagaráðs nógu skýrar til að bera þær undir þjóðina eru annarrar skoðunar þegar kemur að Evrópusambandinu:  Þjóðinni er alls ekki treystandi til að taka afstöðu til þess hvort hún vilji ganga í það eður ei.

Staðhæft hefur verið, að til þess að geta haft skoðun á því hvort Íslandi eigi að vera í ESB, þurfi að liggja fyrir aðildarsamningur. Þau rök eru til dæmis notuð í ræðu Marðar Árnasonar á Alþingi í gær.

Þar viðurkennir Mörður, að hann viti ekki út á hvað aðild að ESB gangi. Hinar svonefndu aðildarviðræður séu of skammt á veg komnar til þess að hægt sé að mynda sér skoðun á því.

Samtökin Já Ísland er samfélag þeirra sem vilja vinna að aðild Íslands að Evrópusambandinu.  Á heimasíðu samtakanna segir:

Þeir einstaklingar sem styðja Já Ísland hafa margar og ólíkar skoðanir en eru sammála um að framtíð okkar Íslendinga sé betur borgið í samfélagi þjóðanna innan Evrópusambandsins en utan þess.

Á heimasíðunni má finna lista yfir þessa umræddu einstaklinga sem styðja Já Ísland.

Á honum er margt góðra manna. Meðal annars Mörður Árnason.

Ætli það sé sá Mörður Árnason sem heldur því fram, að ekki sé hægt að leita álits þjóðarinnar á því hvort Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu fyrr en niðurstöður aðildarviðræðna liggi fyrir?

Ef sú er raunin, tilheyrir sá Mörður jafnframt samfélagi manna sem vilja vinna að aðild að Evrópusambandinu og telja framtíð Íslendinga betur borgið innan þess en utan.

Hann er þá einn þeirra manna sem hefur tekið afstöðu til Evrópusambandinu en treystir þjóðinni ekki til þess að taka afstöðu til Evrópusambandsins.

Og hann virðist vera í þeim hópi manna  sem heldur því fram, að ekki sé hægt að mynda sér skoðun á aðild að Evrópusambandinu fyrr en samningum sé lokið -  nema þú sért fylgjandi aðild.

Myndin: Vor við Vestmannsvatn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dagný

Nei það er víst ekki óhætt að treysta þjóðinni til að taka afstöðu til Evrópusambandsins - hún gæti sagt NEI

Dagný, 23.5.2012 kl. 16:22

2 identicon

Ég segi enn og aftur. Af hverju vill fólk taka það af þjóðinni að greiða atkvæði um samninginn þegar hann liggur fyrir ? Er ekki hægt að treysta þjóðinni til þess ? Það er heiðarlegasta niðurstaðan í þetta mál gagnvart þjóðinni.

Gísli Gíslason (IP-tala skráð) 23.5.2012 kl. 18:32

3 Smámynd: Sólbjörg

Undarlegt með stuðningsmenn ESB eins og Mörð og fleiri, þeir vita að okkur er best borgið innan ESB en jafnframt segjast þeir ekkert vita út á hvað aðildin gengur- þessi röksemdarfærsla gengur ekki upp.

Sólbjörg, 23.5.2012 kl. 20:47

4 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Sæll, Gísli. Ef þjóðin samþykkir að sækja um aðild að ESB fær hún líka að greiða atkvæði um samninginn þegar hann liggur fyrir. Það er heiðarlegast að sækja um aðild að samtökum sem maður vill ganga í. Það er á hinn bóginn ekki heiðarlegt að sækja um aðild að samökum sem maður ætlar sér ekki að ganga í. Með vinarkveðju.

Svavar Alfreð Jónsson, 23.5.2012 kl. 21:27

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Það virðist engin skilja en þegar samningurinn liggur fyrir fara her alþingismanna á þing ESB sem áheyrnarfulltrúar og eru þar í hið minnsta ár síðan er farið í Þjóðarkostningar. Þetta veit þjóðinn ekki en það eru þingmenn sem vilja komast á þingið í Brussel.

Valdimar Samúelsson, 23.5.2012 kl. 22:14

6 Smámynd: Sandy

Góðan daginn! Alveg er það rétt hjá þér Valdimar þetta er í fyrsta skiptið sem ég  les um það að héðan færu þingmenn til Brussel sem áheyrnarfulltrúar áður en til atkvæða kemur, en hvað gerum við ef Össur á að fara og koma heim með upplýsingar til þjóðarinnar svo við getum tekið upplýsta ákvörðun, maðurinn skrökvar ekki bara öðruhverju orði heldur hverju orði.

Sandy, 24.5.2012 kl. 07:10

7 identicon

Ég er einn af þeim sem er félagi í Já Ísland. Það felur ekki í sér að ég viti alla hluti um það góða bandalag. Eins og önnur mannanna verk er það ekki fullkomið - en það er viðleitni fólks sem vill varðveita frið, mannréttindi og lýðræði. Þar hefur margt tekist vel annað miður eins og gengur.

Ég bendi á að á vefnum http://evropuvefur.is/ er gott að leita eftir upplýsingum um ESB og hjá Evrópustofu er hægt að fá upplýsingar um viðamikið og fjölbreytt starf ESB á ýmsum sviðum.

Allt er hægt að hártoga og lesa í textann að geðþótta lesarans. Ég skil Mörð á þann hátt að hann vill sjá samning sem síðan er tekin ákvörðun um í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er sama sinnis.

Á meðan alþingi fylgir eftir samþykkt um að ganga til samninga við ESB um aðild þá heldur sú vinna áfram. Ef niðurstaða alþingis verður önnur og meirihluti vill hætta viðræðum eða fresta þá verður það gert.

Ég vil frekar að við höldum áfram þessari vegferð og þjóðin taki síðan ákvörðun um aðild eftir að samningur liggur fyrir. kv.

Kjartan Örn Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 24.5.2012 kl. 09:20

8 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Sælll, Kjartan, og þakka þér fyrir innlegg þitt.

Sem félagi í Já Ísland ert þú vissulega ekki að lýsa því yfir að þú vitir allt um ESB en þú telur þig samt vita nógu mikið til að lýsa því yfir að "framtíð okkar Íslendinga sé betur borgið í samfélagi þjóðanna innan Evrópusambandsins en utan þess" eins og segir á heimasíðu Já Ísland. Að sjálfsögðu hefur þú heimild til að vera þeirrar skoðunar.

Hér á landi er líka fólk sem telur sig vita nógu mikið um ESB til að komast að þeirri niðurstöðu, að Ísland eigi ekki erindi í sambandið. Það er líka virðingarverð afstaða.

Svo er þriðji hópurinn sem segist ekki vita nógu mikið um ESB og vill sjá aðildarsamning til að geta tekið afstöðu. Að sjálfsögðu hafa menn líka rétt á því að vera þeirrar skoðunar.

Í þessum pistli tjái ég þá skoðun mína að það sé tvískinnungur að segja að ekki sé hægt að taka afstöðu til ESB nema aðildarsamningur liggi fyrir en vera um leið búinn að taka afstöðu til ESB án þess að aðildarsamningur liggi fyrir.

Ég sé nú ekki stóra hættu í því fólgna að leita til þjóðarinnar og spyrja hana álits á þessu máli. Þeir sem ekki vilja í ESB greiða atkvæði þannig og þið hin, sem viljið í sambandið, greiðið atkvæði í samræmi við þá skoðun.

Ef meirihlutinn telur sig vita nógu mikið um ESB til að vilja ekki þangað inn verður aðildarferlinu að sjálfsöðgu hætt. Ef meirihluti er fyrir áframhaldandi viðræðum halda þær áfram og aðildarsamningur verður síðan lagður fyrir þjóðina þegar þar að kemur.

Ég endurtek: Ég skil ekki hræðsluna við lýðræðið í þessu stóra máli. Benda má á að kannanir hafa sýnt að enda þótt meirihluti Íslendinga sé andvígur inngöngu í Evrópusambandið hefur verið meirihluti fyrir aðildarviðræðum.

Þá má líka benda á að það mun styrkja aðildarferlið ef viðræðurnar eru í umboði þjóðarinnar. Eins og staðan er núna er helmingurinn af þeirri ríkisstjórn sem er að sækja um aðild að ESB á móti aðild að ESB. 

Með bestu kveðjum.

Svavar Alfreð Jónsson, 24.5.2012 kl. 10:36

9 identicon

Tillögur Stjórnlagaráðs liggja fyrir og fólk veit hvað það kýs um. Samningur við ESB liggur ekki fyrir og því veit fólk ekki  hvað það er að kjósa um. Það er meginmunurinn.

Andrés Pétursson (IP-tala skráð) 24.5.2012 kl. 10:42

10 identicon

Sæll Svavar

Ég átta mig ekki á að í því felist einhver tvískinningur að vilja ganga inn í ESB eftir samninga og þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég tel að framtíð okkar sé best borgið innan ESB ef um það nást samningar sem tryggja hagsmuni þjóðarinnar.

Að ég hafi þessa afstöðu felur ekki í sér að ég geti ekki skilið að annað fólk hafi aðra afstöðu. kv.

Kjartan Örn Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 24.5.2012 kl. 10:52

11 identicon

Þeir sem hafa barist harðast fyrir þessari tvöföldu atkvæðagreiðslu eru þeir sem hafa engan áhuga á því að ganga í ESB. Alveg óháð því hve góðan samning við fáum. Það er því ekki mikil lýðræðisást þar!

Andrés Pétursson (IP-tala skráð) 24.5.2012 kl. 11:22

12 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Rétt hjá þér, Andrés, samningurinn liggur ekki fyrir. Það er á hinn bóginn rangt að samningsleysið sé þess valdandi, að fólk geti ekki haft skoðanir með eða á móti aðild að ESB.

Svavar Alfreð Jónsson, 24.5.2012 kl. 11:32

13 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Sælir félagar!

Andrés: Atkvæðagreiðslan verður náttúrlega aðeins tvöföld ef samþykkt verður í þeirri fyrri að halda ferlinu áfram. Og ef þannig fer sé ég ekkert ólýðræðislegt við það. Þjóðin hefur þá verið höfð með í ráðum frá upphafi.

Kjartan: Þú ert að misskilja pistilinn. Ég hef ekki haldið því fram að það sé tvískinnungur að vilja ganga í ESB eftir samninga og þjóðaratkvæðagreiðslu. Tvískinnungurinn er sá að halda því fram að ekki sé hægt að taka afstöðu til ESB án samnings um leið og maður er sjálfur búinn að taka afstöðu til ESB án samnings. Ég er að gagnrýna þau rök að ekki sé unnt að mynda sér skoðun á aðild Íslands að Evrópusambandinu nema samningur liggi fyrir en lýsa því um leið yfir að maður sé með skoðun á aðild að Evrópusambandinu án þess að fyrir liggi samningur.

Ég held að þetta sé nú ekki flókið ef menn vilja skilja.

Svavar Alfreð Jónsson, 24.5.2012 kl. 12:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband