Skíthælar Íslands

 DSC_0185

Einu sinni voru aðalskíthælar Íslands svokallaðir útrásarvíkingar og athafnamenn ásamt verðbréfadúddum og bankafólki almennt.

Ekki er langt síðan bændur og landbúnaðarmafían voru á milli tannanna á fólki sem tannlæknar landsins gerðu við fyrir svívirðilegar upphæðir og er velt upp úr tjöru og fiðri fyrir athæfið.

Nú um stundir dundar fólk sér við að úthúða útgerðarmönnum fyrir þá óhæfu að græða á fiskveiðum og hásetanum fyrir að harma hlutinn sinn.

Lengi hefur það verið þjóðaríþrótt á Íslandi að hæðast að þingmönnum og Alþingi og er sú stofnun rúin allri tiltrú.

Íslenskir ráðherrar og embættismenn munu vera þeir alvitlausustu í veröld víðri ef mark er takandi á fólki - og er þó enginn hörgull þar á misvel gefnu fólki úr þeirri stétt.

Yfirleitt er íslenskt fjölmiðlafólk ekki starfi sínu vaxið og háskólasamfélagið brást í aðdraganda Hrunsins eins og fram kemur í Skýrslunni. 

Íslenskir iðnaðarmenn eru því sem næst ófáanlegir í verk, íslenskir söngvarar springa á háu tónunum, íslenskir handboltamenn tapa úrslitaleikjunum og íslenskir kennarar klúðra öllu.

Íslenskir listamenn eru afætur sem nenna ekki að vinna frekar en öryrkjarnir og atvinnuleysingjarnir.

Íslenskir læknar sprauta iðnaðarsílíkoni í konur, íslenskir matreiðslumenn nota baneitrað iðnaðarsalt í grautana, íslenskir eftirlitsmenn sofa á verðinum og íslenskir knattspyrnumenn geta ekkert.

Og ekki þarf að fjölyrða um okkur íslensku prestana.

Íslenski forsetinn sýnir einræðistakta og forsetaframbjóðendurnir eru flestir svo hættulegir að halda verður þeim frá þjóðinni.

Frá Hruni hefur smám saman verið að koma í ljós hvað íslenskar starfsstéttir eru ómögulegar.

Eftir allnokkra yfirlegu sé ég ekki betur en að einu stéttirnar sem ekki hafa hlotið útskúfunardóm almennings séu kirkjugarðsverðir, söðlasmiðir og ljósmæður.

Á þeim byggist framtíð landsins.

Myndin: Sumarnótt á Höfðanum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

Naglhitt á höfuð.

Steingrímur Helgason, 5.6.2012 kl. 23:17

2 identicon

Ég þekki a.m.k. einn söðlasmið og eina ljósmóður og hef ekkert nema hið besta um þau að segja. Þekki á hinn bóginn engan kirkjugarðsvörð en einn sóknarnefndarformann, sómakarl. Þetta er bara trúlegast rétt hjá þér! Mögulega má þarna bæta við reiðhjólaviðgerðarmönnum.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 5.6.2012 kl. 23:41

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hvað með kerlingar sem hafa lokið ævistarfi og kallast ellilífeyrisþegar Svavar minn Eru þær líka þjóðhættulegar?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.6.2012 kl. 00:54

4 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

Flottur!! - nú líst mér á þig!! Gleymdir samt aðalglæpagenginu, innheimtulögfræðingunum sem láta sem enginn sé morgundagurinn

Vilborg Eggertsdóttir, 6.6.2012 kl. 02:23

5 identicon

eg er ad spa i ad fara i kirkju tegar eg fer til Islands ,ef tu ert jafn flinkur vid ad semja messuna ta held eg ad tad sje tess virdi ad rolta up kirkjutropurnar a Akureyri

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 6.6.2012 kl. 02:23

6 identicon

Við erum grimm við dæmum hart, flestar umræður byrja sem eldhúsborðs umræður og ekki eru þær alltaf mildar.

Á þetta hlusta börn og unglingar, þau læra og svo erum við undrandi á einelti og ofbeldi því sem flæðir yfir og út fyrir skóla landsins um götur og torg.

Svavar takk fyrir þetta er þörf lesning.

Ásgerður Einarsdóttir (IP-tala skráð) 6.6.2012 kl. 13:17

7 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ég held bara ég komi í messu hjá þér næst þegar ég kem norður. Ef það verður ekki á sunnudegi verður þú bara að færa messuna aðeins til.

Sigurður Hreiðar, 6.6.2012 kl. 15:07

8 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Vá, nú er ég loksins búinn að átta mig á hvað ég er mikill skíthæll, þökk sé yður!!! Vona bara að almættið fyrirgefi mér og öllum hinum!!

Sigurður I B Guðmundsson, 6.6.2012 kl. 16:36

9 identicon

Svo er það presturinn á Akureyri sem finnst umræðan svo mikill tittlingaskítur að hann hæðist að henni og allir skíthælar þessa lands anda léttar því það eru greinilegar allir skíthælar samkvæmt presti og þá um leið eins og allir hinir. Þetta kallar maður sáluhjálp fyrir skíthæla.

Einar Marel (IP-tala skráð) 6.6.2012 kl. 17:57

10 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Sæll, Einar Marel! Nei, ástæðan fyrir þessum skrifum mínum er ekki sú að mér finnist umræðan léttvæg, ástæðan er sú að ég vil endilega reyna að bæta umræðumenninguna. Ég held að hægt sé að ræða málin án þess að búa til skíthæla úr öðrum en upphefja sig sjálfan. Það samfélag sem byggist á því að allir séu skíthælar nema maður sjálfur verður aldrei annað en skíthælasamfélag.

Sáluhjálp fyrir skíthæla er svo sennilega náskyld því sem kallað er sáluhjálp fyrir syndara því ekki þurfa heilbrigðir læknis við.

Þakka þér svo kærlega fyrir hressilega athugasemd.

Svavar Alfreð Jónsson, 6.6.2012 kl. 19:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband