9.6.2012 | 12:09
Þjóðin eignast forseta
Síðustu árin hafa á þessu landi einkennst af miklum átökum. Ekki var nóg með að Íslendingar þyrftu að takast á við risavaxna efnahagslega örðugleika. Leiðtogar þjóðarinnar, sem báru allir sína ábyrgð á óförunum, ákváðu að leggja þyrfti meira á þjóðina en eitt stykki bankahrun. Hún þyrfti endilega að takast á við sig sjálfa líka. Fólki var hottað ofan í hinar flokkspólitísku skotgrafir. Fundin voru ný deilumál og þeim bætt við þau gömlu. Hagsmunaöflin vígbjuggust og hafa tekist á sem aldrei fyrr. Fjölmiðlum er beitt í þeirra þágu og menn hafa ekki hikað við að draga dómstóla landsins með sér niður í leðjuslaginn.
Á það hefur verið bent, að á þessum örlagatímum hafi þjóðina skort leiðtoga, manneskju, sem sameinaði hana í baráttunni við óblíð efnahagsöflin. Að sjálfsögðu hefði slíkur leiðtogi þurft að njóta trausts þjóðarinnar til að geta hafið sig yfir þá flokkadrætti sem löngum hafa einkennt okkar fámenna klíkusamfélag. Forseti Íslands hefði getað verið þessi leiðtogi. Ég er þakklátur núverandi forseta fyrir margt. Mörgum fannst kærkomið þegar hann á sínum tíma tók til varna fyrir Ísland og talaði máli þjóðarinnar á alþjóðavettvangi. Þá hefur hann hlustað á þjóðina þegar honum bárust áskoranir verulegs hluta hennar um að vísa umdeildum málum í dóm landsmanna. Hann átti samt erfitt með að sinna því mikilvæga starfi að leiða þjóðina í gegnum efnahagserfiðleikana og sameina hana til átaka við þá. Þar háði honum pólitískur bakgrunnur hans og þátttaka í því ferli sem til bankahrunsins leiddi.
Nú þegar þjóðin velur sér nýjan þjóðarleiðtoga rísa upp tvær gamlar valdablokkir stjórnmála og auðvalds og tefla fram sínum frambjóðendum. Þjóðin skal rekin ofan í gömlu skotgrafirnar í þessum kosningum sem öðrum. Baráttan er kostuð af sömu öflunum og náðu hér yfirráðum fyrir Hrun.
Sem betur fer eru valkostirnir þó fleiri. Þjóðin getur að nýju eignast leiðtoga sem ekki er þátttakandi í sandkassaleik íslensks flokksræðis og ekki er háður auðugum og valdagráðugum hagsmunahópum. Herdís Þorgeirsdóttir er sá valkostur. Henni er treystandi til að vera sá leiðtogi þjóðarinnar sem gætir hagsmuna hennar. Herdís er málsvari mannréttinda, frelsis og réttarríkis, þeirra grunngilda sem þjóðfélag okkar byggir á. Hún er þroskuð og reynd kona, vel menntuð, bæði í lífsins skóla og öðrum menntastofnunum. Glæsimennska og þokki einkennir framkomu hennar. Það er hlýja í röddinni en líka snerpa og hugrekki. Herdís er fljót að greina aðalatriði frá því sem minna máli skiptir. Og síðast en ekki síst: Herdís kann að hlusta á fólk og sýna því virðingu. Hún gerir sér grein fyrir að enda þótt embætti forseta Íslands sé virðulegt og því fylgi völd, er það fyrst og fremst þjónusta við fólkið í landinu, í borg, bæjum og sveitum.
Þjóðin eignast góðan forseta þegar starfi hans er sinnt af auðmýkt og hjartaheitri elsku til lands og þjóðar. Þjóðin eignast góðan forseta í Herdísi Þorgeirsdóttur.
Greinin birtist í Morgunblaðinu og Vikudegi 7. 6. síðastliðinn.
Myndin er úr Kjarnaskógi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.